Fjármálaráðherrar sjö helstu iðnríkja heims funduðu í gær í Lundúnum og ræddu þar meðal annars hugmyndir Bandaríkjastjórnar um að taka upp samræmt skatthlutfall á fyrirtæki, þannig að þau myndu hvergi greiða minna en 15% af tekjum sínum í skatta.

Fjármálaráðherrar sjö helstu iðnríkja heims funduðu í gær í Lundúnum og ræddu þar meðal annars hugmyndir Bandaríkjastjórnar um að taka upp samræmt skatthlutfall á fyrirtæki, þannig að þau myndu hvergi greiða minna en 15% af tekjum sínum í skatta.

Fundinum var ætlað að undirbúa jarðveginn fyrir leiðtogafund sömu ríkja, sem á að fara fram í Cornwall-héraði Englands 11. júní næstkomandi, en það verður jafnframt fyrsta utanlandsferð Joes Biden Bandaríkjaforseta í embætti.

Hugmyndum Bidens um lágmarksskatthlutfall fyrirtækja er einkum beint að fjölþjóðafyrirtækjum í tækniiðandi til að koma í veg fyrir að þau nýti sér mismunandi skattkerfi ríkja til þess að hámarka hagnað sinn. Þá munu ráðherrarnir einnig ræða „stafræna skatta“, sem geti heimilað ríkjum að skattleggja hagnað slíkra fyrirtækja þótt þau séu með höfuðstöðvar sínar í öðru ríki.

Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, sagði ljóst að í flóknu alþjóðlegu og stafrænu hagkerfi væri ekki lengur hægt að reiða sig á skattakerfi sem var að miklu leyti hannað á þriðja áratug 20. aldar. Sagðist hann vona að ráðherrarnir gætu nýtt fundi sína næstu daga til þess að ná árangri.

Þá hyggjast ráðherrarnir einnig ræða hvers konar regluverk eigi að gilda um stafræna mynt á borð við bitcoin. sgs@mbl.is