Baldur Kristjánsson fæddist 6. mars 1951. Hann lést 9. maí 2021.

Útför Baldurs fór fram 19. maí 2021.

Elsku pabbi. Þá er kominn tími til að kveðja. Þetta er búið að vera langt og erfitt ferli þar sem þú hefur horfið frá okkur smám saman í heim gleymskunnar. Þegar þú greindist með alzheimer-sjúkdóm fyrir rúmum sjö árum gerði ég mér grein fyrir því að tíminn sem við áttum saman með þér væri ekki sjálfsagður og ég reyndi að njóta hverrar mínútu sem ég átti með þér.

Ég á svo margar góðar minningar um þig. Þú varst yndislegur faðir og alltaf með mjög góða nærveru. Þar sem þú vannst við rannsóknir og kennslu varstu mikið heima og tókst frá upphafi mikinn þátt í uppeldi okkar systkina. Það varst þú sem kynntir mömmu og alla fjölskylduna fyrir Svíþjóð, en þú bjóst þar í rúmlega 18 ár bæði í Gautaborg og Stokkhólmi. Við áttum níu góð ár saman í Stokkhólmi þar sem þú vannst að rannsóknum og skrifaðir doktorsritgerð þína í sálfræði og uppeldisfræði. Í formálanum að doktorsritgerðinni skrifarðu að þú veltir fyrir þér hvað þið mamma hefðuð gert dætrum ykkar með því að láta þær lifa við þann lífsstíl sem fjölskyldan gerði.

Ég er svo þakklát fyrir þann lífsstíl sem þið kynntuð okkur. Við kynntumst fólki alls staðar að úr heiminum og þá sérstaklega fyrstu tvö árin í Stokkhólmi þegar við bjuggum á Wenner Gren Center. Það tímabil hafði mikil áhrif á okkur öll og er líklega ein af ástæðunum fyrir því að ég valdi að gerast mannfræðingur. Fjölskyldan var mikið saman á þessum árum og við nutum þess virkilega að vera í Stokkhólmi. Ég á margar góðar minningar af göngutúrunum sem við fórum í, en þú elskaðir að ganga og einn af uppáhaldsstöðum þínum var Hagaparken. Við spjölluðum mikið í þessum göngutúrum og mér fannst þú vita allt. Þú varst eins og alfræðibók, þú fylgdist vel með fréttum og varst góður í bæði sögu og landafræði. Þegar þú fluttir fyrst til Svíþjóðar hafðir þú skoðað landakortið til þess að vita hvar allar mikilvægustu borgirnar í Svíþjóð væru. Þú hafðir líka mjög gaman af tungumálum og veltir oft fyrir þér hvaðan orðin kæmu, ég man sérstaklega eftir orðinu peysa sem þú sagðir að kæmi af franska orðin paysan.

Við höfðum það mjög gott í Svíþjóð og það voru mikil viðbrigði fyrir þig að flytja aftur til Íslands. Þú varst alltaf svo glaður þegar við fengum vini í heimsókn frá útlöndum og spjallaðir mikið við þá og hafðir mikla ánægju af því að sýna þeim landið og þá sérstaklega Kleifarvatn og Reykjanesskaga. Margir vina minna sem komu í heimsókn tala um það hversu yndislegur þú varst og þau eiga góðar minningar frá ferðunum sem þú fórst með okkur í. Núna erum við Sif báðar fluttar til Svíþjóðar, en það er orðið okkar annað heimili, þökk sé þér og mömmu.

Að lokum vil ég þakka fyrir allan þann tíma sem við áttum saman og allar þær góðu minningar sem þú gafst mér og okkur. Þú munt lifa áfram í hjörtum okkar, elska þig alltaf.

Þín

Sigríður Baldursdóttir.

Hinn 19. maí síðastliðinn fylgdi ég honum Baldri pabba síðasta spölinn.

Þessi yndislegi maður sem tók mig að sér þegar ég var lítill gutti og ól mig upp sem sinn. Minningarnar streyma um hugann, og eru þær margar yndislegar og skemmtilegar. Ferðalög sem voru bæði hérlendis og erlendis. Búseta á stöðum sem voru eins og úr ævintýrasögum. Ferðir sem voru bæði með skipi, lest og flugi. En það sem stendur upp úr er persónan sem pabbi geymdi. Ljúfur og réttsýnn með meiru. Sá tími sem við áttum saman, samræður um allt á milli himins og jarðar. Hann var fullur af þekkingu. Aldrei lenti hann á gati þegar spurt var. Það voru til svör við flestu. Gönguferðirnar okkar með myndavélarnar, stundum var farið á svipaðar slóðir, en stundum var það eitthvað nýtt og framandi. Á milli þess sem gengið var í náttúrunni var spjallað um daginn og veginn, lífið og tilveruna. Barnabörnin voru í miklu uppáhaldi og eru ófáar myndirnar sem hann hefur tekið af þeim. En eftir standa yndislegar minningar og þakka ég honum fyrir allt það sem hann gaf mér. Það er geymt en ekki gleymt.

En nú kveð ég þig elsku pabbi minn, takk fyrir allt. Við hittumst síðar.

Þinn

Björgvin.