Reynir Arngrímsson
Reynir Arngrímsson
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Þetta eru skelfileg tíðindi. Domus Medica hefur verið flaggskipið í sjálfstæðri læknisþjónustu um áratuga skeið,“ segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, um boðaða lokun Domus Medica. „Þessi ákvörðun er fyrst og fremst afleiðing af tvennu. Fyrst þeim rekstrarskilyrðum sem ríkisstjórnin hefur boðið sjálfstætt starfandi læknum upp á. Það er mjög erfitt að stunda þennan rekstur við núverandi aðstæður.“

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Þetta eru skelfileg tíðindi. Domus Medica hefur verið flaggskipið í sjálfstæðri læknisþjónustu um áratuga skeið,“ segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, um boðaða lokun Domus Medica. „Þessi ákvörðun er fyrst og fremst afleiðing af tvennu. Fyrst þeim rekstrarskilyrðum sem ríkisstjórnin hefur boðið sjálfstætt starfandi læknum upp á. Það er mjög erfitt að stunda þennan rekstur við núverandi aðstæður.“

Hin meginástæðan er að sjálfstætt starfandi læknar hafa ekki verið með samninga við ríkið sem taka mið af þróun verðlags og launa. „Ég verð að leiðrétta það sem hefur verið í umræðunni, að greiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands séu launagreiðslur til sjálfstætt starfandi lækna. Það er ekki rétt. Þetta er heildarrekstrarkostnaður. Af þessum greiðslum þurfa þeir að borga rekstrarkostnað og laun annarra starfsmanna. Það á til dæmis við um laun skurðhjúkrunarfræðinga hjá skurðlæknum og svæfingahjúkrunarfræðinga hjá svæfingalæknum. Svo hefur annar kostnaður eins og við íhluti og tæki hækkað mjög mikið,“ segir Reynir.

Í raun lokað fyrir nýliðun

Hann segir að stjórnvöld hafi í raun lokað fyrir nýliðun sérgreinalækna. Ekki megi gleyma því að fallið hafi héraðsdómur í tengslum við það og stjórnvöld tapað málinu.

Sjúkratryggingar Íslands höfðu neitað sérgreinalækni um aðild að rammasamningi við Læknafélag Reykjavíkur. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi þá ákvörðun úr gildi 18. september 2018. Þá höfðu þrír heilbrigðisráðherrar í röð gefið fyrirmæli um að ekki fengju fleiri sérfræðilæknar aðild að rammasamningnum. Dóminum var ekki áfrýjað, að sögn Reynis.

Flytja ekki heim í óvissuna

Hann segir það hafa komið fram á umræðuvettvangi lækna að sérfræðilæknum erlendis hugnist ekki að flytja heim við núverandi aðstæður. Þeir geti hafið hér störf en það sé enginn samningur í gildi. Nýir læknar geti starfað samkvæmt gjaldskrá sem heilbrigðisráðherra gefur út til eins mánaðar í senn. Reynir segir ekki hægt að ætlast til þess að læknar hefji stofurekstur og leggi út í mikinn kostnað meðan þeir geti ekki séð rekstrargrundvöllinn nema einn mánuð fram í tímann.

„Hópur sérfræðilækna hefur elst mjög mikið. Margir eru að hætta eða draga úr vinnu,“ segir Reynir. Hann bendir á að nú vanti t.d. geðlækna og hjartalækna. Útlit er fyrir að á komandi árum fái hjartasjúklingar ekki fullnægjandi þjónustu vegna skorts á hjartalæknum.

Gera þarf nýjan samning

„Menn eru áhyggjufullir út af þessu og ég held að það losni ekki um þetta fyrr en aftur verða komnir samningar á milli þessara aðila,“ segir Reynir.

Hann segir að samningar verði að vera í gildi svo hægt sé að stýra kostnaðarþátttöku sjúklinga. Annars staðar á Norðurlöndum sé gjarnan miðað við að kostnaður sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu fari ekki yfir 15% heildarkostnaðar. Reynir segir að kostnaður sjúklinga hafi farið lækkandi m.a. vegna lækkunar eða niðurfellingar gjalda hjá heilsugæslunni. Læknar hafi nýlega byrjað að innheimta komugjöld til að koma í veg fyrir að lenda í þroti eins og er að gerast í Domus Medica.

„Ég tel að þetta sé bein afleiðing af þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar allrar, en ekki bara heilbrigðisráðherra, hvernig komið er,“ sagði Reynir.