Ómar Friðriksson omfr@mbl.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hvetja stjórnvöld til að huga að úrræðum fyrir þá sem ekki geta vegna aðstæðna sótt sér rafræn skilríki áður en komið verður á fót stafrænu pósthólfi fyrir landsmenn í miðlægri þjónustugátt, sem lagt er til í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra.

Þetta kemur fram í nefndaráliti nefndarinnar en athugasemdir hafa verið gerðar við að ekki sé kveðið á um það hvaða rafrænu auðkenningarleiðir yrðu fullnægjandi til innskráningar í pósthólfið. Þjóðskrá hefur bent á að um 33% innskráninga á vefinn Ísland.is séu með Íslykli en um 67% með rafrænum skilríkjum.

„Bendir stofnunin á að það geti verið vandkvæðum bundið að takmarka aðgengi að rafrænu pósthólfi við notkun rafrænna skilríkja, sérstaklega ef notendur eru búsettir erlendis. Hægt sé að fá Íslykil í gegnum heimabanka eða sendan í sendiráð, en ekki sé hægt að fá útgefin rafræn skilríki nema sótt sé um þau í eigin persónu hjá útgáfuaðila,“ segir í nefndarálitinu.

Áform eru enn uppi um að ríkið eignist fyrirtækið Auðkenni

Eins og fram hefur komið eru uppi áform um að ríkið eignist fyrirtækið Auðkenni sem annast útgáfu rafrænna skilríkja og bendir nefndin á að gangi þau áform eftir muni aðili í eigu ríkisins sjá um útgáfu þeirra. „Þótt Íslykill hafi nokkra kosti umfram rafræn skilríki, líkt og að framan greinir, er hann samt aðeins auðkennislykill og inniheldur ekki möguleika á fullgildri rafrænni undirritun. Öryggisstig rafrænna skilríkja er því hærra. Telur nefndin að eftir því sem innleiðingu stafræns pósthólfs vindur fram verði eðli málsins samkvæmt gerðar ríkari kröfur til sannvottunar, m.a. með tilliti til eðlis og umfangs þeirra gagna sem birt verði í pósthólfi einstaklinga,“ segir í áliti þingnefndarinnar.