Svavar Jóhannsson fæddist 22. júní 1970. Hann lést 20. maí 2021.

Útför Svavars fór fram 4. júní 2021.

Kallið er komið,

komin er nú stundin.

...

Vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(Valdimar Briem)

Ég sit hérna heima og skrifa þessa minningargrein um þig minn kæri vinur, og bíð alltaf eftir skilaboðum eða símtali frá þér sem koma ekki meir, þetta er eitthvað sem mér datt ekki í hug að ég myndi vera að gera núna, þar sem við vorum búnir að plotta ýmislegt fyrir komandi sumar, sem ekki verður. Það tekur mjög á að hugsa um allar góðu minningarnar, frá mínum fyrsta vinnudegi er ég mætti til vinnu á Keflavíkurflugvelli eldsnemma á mánudegi, og hitti þig á kaffistofunni. Við smullum saman og náðum að ræða heima og geima frá fyrsta degi allt fram að þeim síðasta, og þarna þróaðist traust og góð vinátta í vel yfir áratug, og fljótt urðum við heimagangar hvor hjá öðrum, kaffi eða kók og ekkert með því, alltaf stutt í grínið og fjörið sem einkenndi þig svo mikið. Hrefna gat bölvað yfir því hvað við værum að plotta og hvað við vorum að gera af okkur, eins og smástrákar, alveg brjáluð, en vildi samt ekkert vita; við flissandi blásaklausir eins og alltaf, og hún glottandi út í annað, enda ekki annað hægt miðað við hvað okkur datt stundum í hug að gera.

Ég á svo erfitt með að átta mig á því að þú sért farinn kæri vinur, og finnst allt svo tómlegt, við töluðum saman á hverjum degi, en allt í einu ekkert, ekkert símtal, SMS, Snapchat eða skilaboð á Messenger, bara þögn, það er svo sárt að hugsa til þess. Ég sakna þín ótrúlega og skilaboðana með alls konar gríni af Facebook eða tilvitnunum í fréttir með athugasemdum frá þér, þar sem þú varst búinn að finna eitthvað fyndið við eða tengdir við eitthvað sem við gátum hlegið yfir. Við hittumst á hverri dag- eða næturvakt, ræddum málin yfir kaffibolla og fórum svo og unnum okkar vinnu, ásamt því að plotta eitthvað sem við gætum nýtt okkur. Voru þau ófá símtölin og tölvupóstarnir sem við sendum frá okkur til að fá fram réttlæti eins og við kölluðum það, allt fyrir lítilmanninn – þar sem við hristum oft búrið svo rosalega að það datt stundum í sundur, og auðvitað könnuðumst við ekkert við neitt, blásaklausir alltaf.

Lífið getur verið hverfult og oft ekki sanngjarnt, en þeir fara fyrst sem guð elskar er sagt, og hefur hann vantað fjörkálf og húmorista til sín til að hrista upp í hlutunum.

Ég mun ávallt sakna þín kæri vinur, og veit við munum svo hittast á ný þegar sá tími kemur.

Elsku Hrefna, Jóhann Sævar, Kristín Helga, Brimar Örn og Elva Sif, ég votta ykkur mína dýpstu samúð, þar sem Svavar var algjört gull af manni, sem þótti ólýsanlega vænt um fjölskyldu sína.

Ég kveð þig nú kæri vinur,

Kveð þig í hinsta sinn.

Íslenski eðal hlynur,

einstaki vinur minn.

(Valdimar Lárusson)

Þinn vinur,

Hörður Hersir.

Elsku Svavar minn. Ég veit ekki hvað ég á að segja, það er enn svo óraunverulegt að þú sért farinn frá okkur. En mig langar til að þakka þér fyrir alla vináttuna sem við áttum í gegnum árin, þú varst minn besti og traustasti vinur. Frá fyrsta degi urðum við strax góðir vinir þrátt fyrir að tala ekki sama tungumál. Eftir að ég kom inn í fjölskylduna þína óx vinátta okkar og við náðum alltaf vel saman, sama hvað við gerðum. Ég gat alltaf treyst á þig og leitað til þín, sama hvað var. Þú gafst mér mikla öryggistilfinningu.

Við brölluðum margt saman, byggðum hús, fórum í þó nokkrar utanlandsferðir, vinnuferðir, horfðum á fótboltaleiki saman og lengi mætti telja. Þú heimsóttir fjölskylduna mína úti nokkrum sinnum og það var ómetanlegt, sýndir mínum uppruna mikinn áhuga og fyrir það er ég þakklátur. Þér var alltaf tekið vel, sama hvar þú varst, þú hafðir þessa góðu og skemmtilegu nærveru. Þú varst mikill húmoristi og tókst margar eftirhermur, meira að segja gastu gert grín að mér en alltaf á góðan hátt. Það verður tómlegt án þín.

Elsku Lufsi, ég mun sakna þín mikið. Hver mínúta með þér var ómetanleg og ég er þakklátur fyrir allar góðu minningarnar. Ég óska öllum að eignast jafn góðan vin og þú varst. Ég trúi að þú sért á góðum stað núna. Hvíldu í friði elsku vinur.

Þinn vinur,

Mariusz.