Frábær Valur Orri Valsson var geysilega öflugur og skoraði 24 stig fyrir Keflvíkinga. Hér er hann kominn fram hjá Tyler Sabin.
Frábær Valur Orri Valsson var geysilega öflugur og skoraði 24 stig fyrir Keflvíkinga. Hér er hann kominn fram hjá Tyler Sabin. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Körfuboltinn Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Íslandsbikarinn í körfuknattleik karla hefur verið geymdur í bikaraskáp KR-inga í Vesturbænum allar götur frá árinu 2014.

Körfuboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Íslandsbikarinn í körfuknattleik karla hefur verið geymdur í bikaraskáp KR-inga í Vesturbænum allar götur frá árinu 2014. Eftir ósigur í öðrum undanúrslitaleiknum gegn Keflavík í DHL-höllinni í gærkvöld, 82:91, er hins vegar útlit fyrir að sá góði verðlaunagripur fái annað geymslupláss síðar í þessum mánuði.

Keflvíkingar reyndust of sterkir fyrir KR-inga í gærkvöld, í þeim leik sem KR varð að vinna til að geta gert sér raunhæfar vonir um að slá deildarmeistarana út. Úrslitin réðust samt ekki fyrr en á lokamínútunni, KR-ingar játuðu sig ekki sigraða fyrr en í blálokin en Keflvíkingar áttu alltaf svör við áhlaupum þeirra. Nú er staðan 2:0 fyrir Keflavík, sem getur klárað dæmið á sínum heimavelli á mánudagskvöldið og beðið síðan niðurstöðu hins einvígisins.

* Valur Orri Valsson átti stórleik með Keflavík og skoraði 24 stig í leiknum. Dominykas Milka var illviðráðanlegur einu sinni sem oftar en hann skoraði 21 stig og tók 12 fráköst. Deane Williams var með 19 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson var með 12 stig, 12 stoðsendingar og 8 fráköst.

* Tyler Sabin átti enn einn stórleikinn fyrir KR en 32 stig frá honum var ekki nóg. Brandon Nazione skoraði 20 stig og Zarko Jukic 14 en KR hefði svo sannarlega þurft meira framlag frá mönnum eins og Matthíasi Orra Sigurðarsyni og Brynjari Þór Björnssyni í svona leik.

*Undanúrslitin halda áfram annað kvöld þegar Þór tekur á móti Stjörnunni í Þorlákshöfn í þriðja leik liðanna.