Heilbrigðisþjónusta Mestu áhrif faraldursins urðu á biðlista og bið eftir aðgerðum sem ekki teljast lífsbjargandi eða bráðaaðgerðir skv. skýrslunni.
Heilbrigðisþjónusta Mestu áhrif faraldursins urðu á biðlista og bið eftir aðgerðum sem ekki teljast lífsbjargandi eða bráðaaðgerðir skv. skýrslunni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Afleiðingar faraldurs kórónuveirunnar virðast einna mest hafa haft áhrif á biðlista og biðtíma eftir endurhæfingarþjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Afleiðingar faraldurs kórónuveirunnar virðast einna mest hafa haft áhrif á biðlista og biðtíma eftir endurhæfingarþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Biðlistar hafa þó víðar stækkað og biðtími eftir þjónustu lengst þótt á mörgum sviðum hafi þeim einnig fækkað sem bíða eftir þjónustu og biðtími þar styst á umliðnu ári veirufaraldursins.

Miklar upplýsingar um stöðuna má lesa út úr ítarlegu svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingmanns Miðflokksins, um biðlista í heilbrigðiskerfinu, sem dreift hefur verið á Alþingi. Birt eru svör frá opinberum og einkareknum stofnunum. Þar kemur m.a. fram í svörum Landspítalans svo dæmi séu tekin um bið eftir skurðaðgerðum að 1. febrúar sl. biðu 1.286 eftir aðgerðum á augasteini en þeir voru 723 á sama tíma fyrir ári og hefur því fjölgað um 78%. Í fyrra voru gerðar rúmlega 1.600 aðgerðir en bent er á að á árinu 2019 dró úr fjölda augasteinsaðgerða utan spítalans og færðust sjúklingar þá í auknum mæli af stofum og til Landspítalans. Bið eftr augasteinsaðgerðum hefur lengst úr 12 vikum í febrúar í fyrra í 23 vikur í febrúar síðastliðnum.

Fjölgað hefur á biðlista fyrir aðgerðir vegna vélindabakflæðis og þindarslits vegna frestunar aðgerða í faraldrinum og á að vinna áfram jafnt og þétt niður biðina en skortur á legurýmum er einnig sagður hafa áhrif. 161 bíður eftir gallsteinaaðgerð en þeir voru 83 1. febrúar í fyrra og á að vinna biðlistann niður jafnt og þétt. 89 eru á biðlista eftir brottnámi legs vegna frestunar aðgerða en voru 44 fyrir ári og 392 bíða eftir liðskiptum á mjöð og hefur fjölgað um 64% frá febrúar í fyrra og bíða alls 827 eftir liðskiptaaðgerð á hné en voru 494 ári áður. „Gripið hefur verið til tvöfalds átaks í bæklunaraðgerðum um helgar til að ná niður biðlistanum, samtals 16 liðskiptaaðgerðir á helgi (þrjár helgar sem af er ári). Ekki er hægt að keyra það oftar en gert er þar sem sama starfsfólk vinnur þessa átaksvinnu og vinnuna dagsdaglega. Unnið er jafnt og þétt að því að bæta ferla, áhersla á að stytta legutíma hjá þeim sem fara í mjaðmaliðskipti,“ segir í skýringum Landspítalans.

Eftirspurn eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar (BUGL) hefur aukist jafnt og þétt og fjölgað hefur á biðlistum, segir í svarinu. 131 var á biðlista 11. mars sl. en 101 um mánaðamótin febrúar/mars í fyrra. Var komum fækkað til muna tímabundið vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda vegna faraldursins sem hefur hægt á inntöku nýrra sjúklinga. Meðalbiðtíminn er núna tæpar 24 vikur sem er óveruleg aukning frá í fyrra.

„Fækkun koma á göngudeild milli ára skýrist annars vegar af því að það þurfti að setja hópmeðferð á bið vegna sóttvarnaráðstafana tengt Covid-19. Reyndar var það leyst að hluta til seinni hluta árs með því að leigja stóran sal þar sem hægt var að uppfylla sóttvarnareglur,“ segir í svarinu.

Biðtími hjá átröskunarteymi á geðsviði Landspítalans hefur lengst um 142,6% og er engin ein skýring sögð á því heldur samspil margra þátta, s.s. bág staða húsnæðis geðþjónustunnar, fækkun starfsmanna og veirufaraldurinn. Einnig hefur fjölgað á biðlista eftir þjónustu ADHD-teymisins eða úr 507 í fyrra í 727 á biðlista 11. mars sl.

Aukinn heilsuvandi

Alls voru 48 einstaklingar á biðlista í febrúar sl. og meðalbiðtími 2,7 ár hjá Endurhæfingu – þekkingarsetri en það veitir einstaklingum með meðfæddan eða ákominn heilaskaða og hrörnunarsjúkdóma endurhæfingu, þjálfun og stuðning. Á sama tíma í fyrra voru 39 á biðlista og biðin 1,8 ár. Fram kemur að fjölgun á biðlista megi skýra með vaxandi ásókn í sérhæfða meðferð. „Sóttvarnir urðu til þess að erfitt reyndist að veita þjónustunotendum nauðsynlega meðferð og íhlutun. Fjarfundabúnaður var notaður eins og hægt var en ekki gátu allir nýtt þann þjónustumöguleika. Mikil afturför og aukinn heilsuvandi hefur orðið hjá þeim sem ekki gátu fengið meðferð vegna sóttvarna. Aukna þjálfun, endurnýjun og breytingar á hjálpar- og stoðtækjum hefur þurft í kjölfarið,“ segir í svarinu.