Íslendingar skvettu ótæpilega í sig fyrir sjötíu árum, börn og foreldrar.
Íslendingar skvettu ótæpilega í sig fyrir sjötíu árum, börn og foreldrar. — Reuters
„Afbrot og allskonar misferli unglinga hjer í bæ færðust í vöxt árið sem leið og segir í skýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur, að nefndin hafi fengið þriðjungi fleiri mál til meðferðar á árinu, en næsta ár á undan.

„Afbrot og allskonar misferli unglinga hjer í bæ færðust í vöxt árið sem leið og segir í skýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur, að nefndin hafi fengið þriðjungi fleiri mál til meðferðar á árinu, en næsta ár á undan.“

Á þessum orðum hófst frétt í Morgunblaðinu fyrir sjötíu árum, 6. júní 1951. Helstu ástæður fyrir afbrotum unglinga í bænum taldi nefndin vera drykkjuskap og var ekki óalgengt að unglingar byrjuðu að neyta áfengis 14 ára, bæði piltar og stúlkur. „Af þessu leiðir allskonar óreglu, lauslæti, flæking, þjófnað og margskonar skemmdarverk,“ stóð í skýrslunni.

Einnig virtist drykkjuskapur foreldra hafa farið nokkuð í vöxt frá ári til árs, því alltaf voru að verða meiri og meiri brögð að því, að nefndin hefði þurft að taka börn af heimilum vegna slíkra mála.

„Nefndin reynir að fjarlægja þessi börn úr umhverfi sínu, með því að koma þeim fyrir í sveit. Stundum lánast það vel, en oftast illa. Unglingarnir tolla ekki í hinu nýja umhverfi sínu, enda er sjaldnast aðstaða til að halda þeim kyrrum. Þeir koma svo í bæinn á ný í sitt gamla umhverfi og taka til við sömu iðju og fyrr,“ sagði í fréttinni.