Viðarkubbskonan í Twin Peaks.
Viðarkubbskonan í Twin Peaks.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sérviturt fólk er víða og sjónvarpið okkar er þar engin undantekning. Hvernig líst ykkur á að rifja upp nokkrar af sérkennilegustu persónum sem fram hafa komið í sjónvarpssögunni? Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Hún lét aldrei sjá sig öðruvísi en með viðarkubb í fanginu; eins og hún tryði því að hún myndi að öðrum kosti leysast upp í frumeindir sínar. Þeir voru margir furðulegir, fuglarnir í Twin Peaks, enda skilgetin afkvæmi Davids Lynch, en Viðarkubbskonan (e. Log lady) var líklega sérkennilegust af þeim öllum. Næði hún ekki að fanga athygli þína með viðarkubbnum, þá var starandi augnaráðið næst á dagskrá og brygðist það var komið að túrbótyggigúmmskunni (Þuríður, er það ekki örugglega orð?), það er að segja hún tuggði tyggjóið sitt af svo mikilli ákefð að undir tók í fjöllunum. Viðarkubbskonan talaði í gátum og lét eins og hún hefði engan áhuga á því sem var á seyði á Tvídröngum en innst inni var hún ljúfmenni sem vildi engum illt. Því trúum við alla vega. Hefði líklega bara þurft að fara oftar úr húsi.

Önnur ógleymanleg týpa var Svetlana í bandarísku útgáfunni af spédramanu Shameless. Rússnesk vændiskona sem upphaflega var ráðin að hirðinni til að „lækna“ Mickey karlinn Milkovich af samkynhneigðinni. Sú aðgerð fór út um þúfur. Svetlana ílentist þó í suðurhluta Chicago og bjó um tíma með hjónunum V og Kevin, sem þriðja hjólið eða „hjónið“. Fluggreind og úrræðagóð kona sem sá tækifæri í hverju horni til að skara eld að eigin köku. „Losaði sig“ til að mynda sem frægt var við föður sinn, afar ógeðfelldan mann sem óvænt skaut upp kollinum, eða var hann í reynd eiginmaður hennar?

Já, þeir eru margir eftirminnilegir, furðufuglarnir í sjónvarpssögunni. Hver man til dæmis ekki eftir John Cage, eða Kexinu, eins og hann var kallaður í daglegu tali, málflutningsmanninum knáa í lagaspédramanu Ally McBeal? Hann bjó að mörgum skrýtnum siðum, eins og að hala alltaf niður í klósettinu með fjarstýringu. Enda vildi okkar maður fyrir alla muni hafa skálina ferska þegar hann bar að garði, burtséð frá því hvort gera átti númer eitt eða tvö. Þegar Kexið varð stressað, sem gerðist ósjaldan, byrjaði nefið á honum óforvarendis að blístra. Og það voru engar serenöður í c-moll eftir Schubert eða Brahms heldur hrein og bein óhljóð. Þá hrjáði hann um tíma samúðartúrett; það er þegar kona á lögmannsstofunni með túrett gaf frá sér undarleg og óstöðvandi hljóð svaraði Kexið undir eins í sömu mynt. Ókunnugir hefðu vísast getað túlkað það sem hótfyndni og argasta dónaskap – hver hermir eftir fólki með túrett? – en við sem þekktum Kexið vissum að þetta var alls ekki illa meint. Aðeins ósjálfráð viðbrögð.

Meðeigandi Kexins á stofunni, Richard Fish, var ekki síður kynlegur kvistur. Að vísu frakkari og meira út á við en Kexið en einkennilegur samt sem áður. Var til að mynda með ólæknandi blæti fyrir krumpuðum kvenhálsum. Dagsatt. Mátti ekkert slíkt sjá án þess að missa sig í erótíska dagdrauma. Svo engu tauti varð við hann komið.

Ekki er gott að segja hvort þessir kappar voru á skilgreindu rófi en alls ekki hægt að útiloka það. Það var frændi þeirra, Jerry Espenson, í Boston Legal hins vegar án nokkurs vafa. Sömu höfundar stóðu að þessum þáttum. Jerry karlinn hefur borið reglulega á góma hér í blaðinu gegnum árin og kannski óþarfi að fjölyrða um hann nú. En eins og við munum þá bjó hann með uppblásinni dúkku sem hann átti í grjóthörðu platónsku sambandi við. Ekkert meira og ekkert minna. Og allir sem gáfu annað í skyn fengu dembuna yfir sig.

Sheldon Cooper í The Big Bang Theory var einnig á rófinu; narsisískur ofviti og fallisti í mannlegum samskiptum. Reyndu menn að hlamma sér í sætið hans í stofunni sluppu þeir svo sem út með alla limi jafnlanga en geðheilsan var farin veg allrar veraldar. Ugglaust mesti þverhaus sjónvarpssögunnar. Og týpan sem hefur alltaf á réttu að standa. Alltaf.

Talaði enga tæpitungu

Húshjálpin Berta í gamanþáttunum Two and a Half Men kemur líka upp í hugann. Ótrúlega föst fyrir og hvergi bangin við að láta húsráðendur hafa það óþvegið enda þótt hún ætti lífsviðurværi sitt undir þeim. Upphaflega var hún aðeins í litlu hlutverki en það óx jafnt og þétt með árunum enda augljóst að hún var orðin áhorfendum afar kær. Við erum alltaf veik fyrir persónum sem tala enga tæpitungu. Leikkonan sem fór með hlutverk Bertu, Conchata Ferrell, lést á síðasta ári. Blessuð sé minning hennar!

Verðum við ekki líka að hafa Phoebe í Friends á listanum; ég meina, er ekki annar í Friends um þessar mundir? Liðið komið saman aftur. Gúgli maður lista yfir sérvitringa í sjónvarpi ber hana líka iðulega á góma. Skemmtilega skrýtin, Phoebe, og alls ekkert að liggja á skoðunum sínum og meiningu. Alltaf passlega langt úti á túni en algjört eðalmenni inn við beinið. Gekk til að mynda með börn bróður síns. Fáar persónur hafa líka verið eins djúp- og grunnvitrar á víxl, jafnvel á sömu mínútunni.

Cosmo Kramer úr Seinfeld á líka fast sæti á flestum listum af þessu tagi enda mörgum ógleymanlegur. Skemmtilega víraður náungi, eins og hann væri alltaf nýbúinn að fá rafstuð. Ekki síst þegar hann datt inn úr dyrunum hjá Seinfeld nágranna sínum. Eins og með Phoebe var ekki alltaf gott að átta sig á því hvort Kramer var í reynd klár eða algjörlega úti á hinni víðáttumiklu þekju. Enda akademískt, maðurinn var nefnilega þeirrar gerðar að útilokað var að láta sér líka illa við hann. Kramer átti sér skýra fyrirmynd í veruleikanum; gamlan nágranna Larrys Davids, sem skóp þættina ásamt Jerry Seinfeld.

Þetta er vitaskuld bara toppurinn á ísjakanum. Af ótal mörgu er að taka. En látum þetta duga í bili.