Norðurtorg Aðstandendur Norðurtorgs við opnunina á Akureyri í gær, frá vinstri feðgarnir Ari Pétursson og Pétur Bjarnason og Þórarinn Ólafsson og Björn Ingi Vilhjálmsson frá Ilvu og Rúmfatalagernum.
Norðurtorg Aðstandendur Norðurtorgs við opnunina á Akureyri í gær, frá vinstri feðgarnir Ari Pétursson og Pétur Bjarnason og Þórarinn Ólafsson og Björn Ingi Vilhjálmsson frá Ilvu og Rúmfatalagernum. — Morgunblaðið/Þorgeir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Þóra Þórsdóttir Akureyri Tvær verslanir, Rúmfatalagerinn og Ilva, voru opnaðar í nýjum verslunarkjarna, Norðurtorgi á Akureyri, í gær.

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

Tvær verslanir, Rúmfatalagerinn og Ilva, voru opnaðar í nýjum verslunarkjarna, Norðurtorgi á Akureyri, í gær. Fjöldi fólks lagði leið sína á Norðurtorg og má gera ráð fyrir að straumurinn verði stöðugur fyrstu dagana, en báðar verslanir bjóða upp á tilboð á ýmsum varningi í tilefni af opnun á nýjum stað.

Norðurtorg er við Austursíðu 2, í gamla Sjafnarhúsinu sem svo hefur verið nefnt fram til þessa. Verslunarkjarninn er í allt um 11 þúsund fermetrar að stærð og hafa gríðarmiklar framkvæmdir verið frá því í fyrrasumar við húsnæðið. Það hefur í kjölfarið tekið miklum breytingum, það var stækkað og því breytt frá fyrra horfi auk þess sem bílastæðum var fjölgað til muna. Á svæðinu mun einnig koma upp hraðhleðslustöð fyrir Tesla sem opnuð verður síðar í þessum mánuði.

Alþjóðlegt útlit

Rúmfatalagerinn flutti sína verslun úr Glerártorgi þar sem verslunin var starfrækt í rúm 20 ár. Nýja Rúmfatalagersverslunin á Akureyri er önnur í röðinni sem byggð er upp með nýju alþjóðlegu útliti móðurfélagsins JYSK, en sú fyrsta var opnuð á Fitjum í Reykjanesbæ í maímánuði. Þar er notast við hillukerfi, nýja lýsingu og léttstemmda uppstillingu í verslunarrými. Verslunin er í 2.100 fermetra húsnæði í nýja verslunarkjarnanum Norðurtorgi.

Ilva hefur rekið verslun á Korputorgi í Reykjavík frá árinu 2008, verslunin fyrir norðan er önnur verslun félagsins hér á landi. Verslunin Ilva er líkt og Rúmfatalagerinn uppbyggð með glæsilegu nýju innréttingakerfi í takt við aðrar alþjóðlegar verslanir Ilva-keðjunnar. Ilva er í um 1.300 fermetra húsnæði á Norðurtorgi.

Samningar um nýtt rými

Norðurtorg er í eigu félagsins Klettáss og segir Pétur Bjarnason, annar af eigendum þess, að unnið sé að samningum um útleigu á því rými sem eftir stendur í verslunarkjarnanum. „Vonandi getum við fljótlega upplýst um leigutaka að því rými,“ segir hann.

Framkvæmdir við breytingar á húsnæði hafa staðið yfir undanfarna mánuði og hafa iðnaðarmenn í tugatali verið þar við störf. Áætlað er að kostnaður við framkvæmdir nemi um 2,7 milljörðum króna.

Pétur segir að staðsetning húsnæðisins hafi heillað en hann sjái fyrir sér að þótt það sé nú norðarlega í bænum muni bærinn vaxa í þá átt og innan fárra ára verði Norðurtorg æ meira miðsvæðis.