Arnar Sigurðsson
Arnar Sigurðsson
Eftir Arnar Sigurðsson: "Nú horfir svo ólánlega að frumvarp dómsmálaráðherra, sem ætlað var að rýmka áfengislöggjöfina fyrir brugghús, mun líklega daga uppi á Alþingi í vor."

Lög og reglur um sölu og dreifingu áfengis á Íslandi standast hvorki nýja framleiðslu- og verslunarhætti né neysluviðhorf almennings. Innlend netverslun þarf að geta staðist samkeppni við erlendar netverslanir með áfengi og litlu brugghúsin um allt land vilja afgreiða sína viðskiptavini á staðnum.

Lögbönn á netverslun og brugghús?

Nú horfir svo ólánlega að frumvarp dómsmálaráðherra, sem ætlað var að rýmka áfengislöggjöfina fyrir brugghús, mun líklega daga uppi á Alþingi í vor. Á stjórnarheimilinu var jafnræði í viðskiptum ekki metið meira en svo, að erlendar netverslanir geta haldið áfram að selja áfengi til einstaklinga á Íslandi meðan íslenskar geta það ekki. Brugghúsin munu líklega halda áfram að selja bjór á framleiðslustað eins og þau hafa gert afskiptalaust af hálfu yfirvalda um nokkra hríð. Nema ÁTVR taki sig til og krefjist lögbanns á þau líka eins og á áfengislager frönsku netverslunarinnar Santewines SAS.

Ráðherra skorti stuðning

Í þessu máli hefur dómsmálaráðherra mátt sín lítils. Það er skiljanlegt vegna þess að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur ekki fengið þann stuðning sem vænta hefði mátt frá stórum áfengisinnflytjendum og samtökum þeirra. Félag atvinnurekenda talar yfirleitt hreint út úr pokahorninu. Þegar um jafnræði milli innlendrar og erlendrar netverslunar er að ræða bregður hins vegar svo við að ekkert heyrist nema loðmullan úr því horni. Þegar taka hefur þurft til máls gegn einokun ríkisins á ýmsum sviðum, samkeppnishamlandi aðgerðum stjórnvalda í viðskiptum með búvörur og gegn tollum og hvers kyns niðurgreiðslum hefur engin linkind eða tvíræðni einkennt málflutning Félags atvinnurekenda.

Líður vel í faðmi ÁTVR!

Í þessu máli treður félagið sannarlega marvaðann: Ekki er hægt að taka smáu skrefin til framfara nema „heildstætt mat“ eigi sé stað og tekið verði á öllum hlutum í einni beit. Maður sér fyrir sér ráðherra Framsóknar og VG í samtölum við sjálfstæðisráðherrana: Sjáiði, áfengisinnflytjendum líður vel í faðmi ÁTVR!

Og það má vel túlka þögn félagsins um afdrif tillagna er varða jafnræði fyrir íslenskar netverslanir á þann veg að stóru áfengisinnflytjendurnir vilji vera áfram í bómullinni hjá ÁTVR í stað þess að taka þátt í virkri samkeppni. Vel tímasett þögn segir meira en mörg orð. En væri ekki meiri bragur á því að skilja eftir sig spor í átt til aukins viðskiptafrelsis og frjálsræðis heldur en sitja á hægum sessi inni á gafli hjá ÁTVR?

Höfundur er víninnflytjandi.