— Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Sjómennskan var puð og púl þegar Guðni Arthúrsson á Snæfuglinum frá Reyðarfirði var á sinni fimmtu vertíð í Vestmannaeyjum árið 1957.

Sjómennskan var puð og púl þegar Guðni Arthúrsson á Snæfuglinum frá Reyðarfirði var á sinni fimmtu vertíð í Vestmannaeyjum árið 1957. Þrátt fyrir að aðbúnaður sjómanna og öryggi þeirra hafi batnað til muna frá þeim tíma, verður alltaf svo að sjómennskunni fylgi álag sem ekki er að finna í öðrum atvinnugreinum Íslendinga.

Það sást bersýnilega á síðastliðnu rúmu ári þegar faraldurinn varð til þess að sjómenn voru, vegna sóttvarnaaðgerða, vikum saman um borð í fiskiskipum án viðkomu í landi, fjarri fjölskyldu og vinum. Sú byrði er bæði lögð á herðar sjómannanna og fjölskyldna þeirra.

Við þetta aukna álag bættist að þjóðin varð skyndilega svo efnahagslega háð sjávarútvegi að það minnti á gamla tíma og það verður ekki annað sagt en að greinin hafi enn og aftur sannað sig sem ein af grunnstoðum íslenskrar velsældar.

Það er því við hæfi á sjómannadaginn að láta ekki duga „til hamingju með daginn sjómenn“ og segja þess í stað: Takk sjómenn og takk fjölskyldur sjómanna. gso@mbl.is