Kassar Arnar Sigurðsson hjá Santé kaupir Peroni-bjór beint frá útlöndum og selur í netverslun sinni.
Kassar Arnar Sigurðsson hjá Santé kaupir Peroni-bjór beint frá útlöndum og selur í netverslun sinni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Um eitt bretti af bjór selst í netverslun Sante Wines SAS á dag að sögn Arnars Sigurðssonar framkvæmdastjóra og eiganda verslunarinnar.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Um eitt bretti af bjór selst í netverslun Sante Wines SAS á dag að sögn Arnars Sigurðssonar framkvæmdastjóra og eiganda verslunarinnar.

Um sextíu kassar af bjór eru á einu bretti. Salan í gegnum netverslunina nemur milljónum króna á degi hverjum, en einnig kaupir fólk léttvín og gin í vefversluninni. „Algengt er að fólk kaupi sér gæðavín og bjór með,“ segir Arnar í samtali við Morgunblaðið.

Aðspurður segir hann að bjórinn sé sú vara sem langmest seljist af í netversluninni.

Gengið vonum framar

Á dögunum barst nýr fjörutíu feta gámur fullur af Peroni-bjór sem seldur verður í gegnum netverslunina, sem nú hefur verið starfrækt í um einn mánuð. „Þetta hefur gengið vonum framar,“ segir Arnar. „Ég hafði samband við Hagstofuna sem hefur mælt áfengisneyslu Íslendinga byggt á sölutölum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, ÁTVR. Það er býsna ónákvæmur mælikvarði því inni í tölurnar vantar alla sölu áfengis í Leifsstöð, alla sölu víns á veitingahúsum og allan innflutning einstaklinga og lögaðila til eigin nota.“

Arnar bendir á að allar tölur sem landlæknisembættið birtir séu því augljóslega rangar. „Við bentum Hagstofunni á að þeir gætu tekið með í útreikninga sína að hjá okkur færðu í raun fjórðu kippuna fría ef þú kaupir þrjár kippur af bjór. Það hlýtur að muna um það, til dæmis við útreikning vísitölu neysluverðs. Það er býsna mikið hagsmunamál fyrir neytendur ef þetta hefur áhrif til lækkunar á vísitölunni. Þetta er milljarðaspursmál. Menn ættu ekki að nálgast það af léttúð.“

Ekki refsa allri þjóðinni

Um einokunarverslun með áfengi, eins og er stunduð á Íslandi í gegnum ÁTVR, segir Arnar að hann trúi því að slík hóprefsing sé ekki lækning, eins og hann orðar það. „Með því að refsa allri þjóðinni með úreltum verslunarháttum og óþarfa kostnaði læknarðu ekki fólk af áfengissýki.“

Arnar segir að þögn Samkeppniseftirlitsins og Neytendasamtakanna í málinu sé ærandi.

ÁTVR undirbýr nú lögbannskröfu, málshöfðun og lögreglukæru á hendur netverslunum með áfengi til neytenda. Í tilkynningu fyrirtækisins í maí segir að þeirri starfsemi sé beint gegn lögbundnum einkarétti ÁTVR á smásölu áfengis, sem sé grunnstoð áfengisstefnu stjórnvalda með lýðheilsu að meginmarkmiði og grunnforsenda fyrir rekstri fyrirtækisins að auki.

Spurður fregna af kröfu ÁTVR segist Arnar ekkert hafa heyrt meira af þeirri kæru. Það hljóti að vera ákveðið flækjustig að fara fram á lögbann í öðrum löndum. Netverslun Santewines SAS er með heimilisfesti í Frakklandi þó svo að áfengið sé afhent frá lager fyrirtækisins úti á Granda.

Fjölga tegundum

Spurður um næstu vikur og mánuði í netversluninni segir Arnar að stefnt sé að því að fjölga bæði tegundum bjórs og léttvíns í netversluninni. Fyrirtækið sé minna í sterkum drykkjum, en selji þó hið íslenska Ólafsson-gin. „Það er um 700 krónum ódýrara hjá okkur en í ríkinu.“

Víninnflutningsfyrirtæki Arnars hefur aldrei selt vín í vínbúðunum. „Við rekum samfélagslega ábyrga stefnu og verslum ekki við einokunarfyrirtæki.“

Spurður um veltu fyrirtækisins á þessu ári segir Arnar að hún verði vel á annan milljarð. Starfsmenn eru fjórir.