Pétur Steinar Jóhannsson hér með spánnýtt Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar.
Pétur Steinar Jóhannsson hér með spánnýtt Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar komið út.

Nú í vikunni kom út Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar. Hugvekjuna skrifar sr. Friðrik J. Hjartar, áður prestur í Ólafsvík, og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra er með pistil. Fyrsta greinin í blaðinu er frá fjölskyldu Kristins Jóns Friðþjófssonar í Rifi og systur hans Svanheiði. Hún er um hörmulegt slys sem varð í Rifi fyrir 50 árum. Þá fórust tveir drengir úr fjölskyldunni í Rifsósnum sem var mikið áfall.

Í desember nk. eru tuttugu ár liðin frá því að Svanborg SH 404 fórst og með henni þrír menn. Einn komst af, Eyþór Garðarsson frá Grundarfirði. Í blaðinu rifjar hann upp hvernig hann bjargaðist. Í lok október 1983 fórst Haförn SH 221 frá Stykkishólmi er báturinn var á landleið af skelfiskveiðum. Á bátnum voru sex í áhöfn og þrír þeirra komust lífs úr slysinu. Ragnar Berg Gíslason segir frá þessu slysi en hann var stýrimaður á bátnum.

Þá ritar grein Vagn Ingólfsson sjómaður í Ólafsvík. Vagn hefur frá mörgu áhugaverðu að segja frá sinni æsku. Hann hætti sjómennsku nú í vor eftir fjörutíu og þrjú ár. Hann var á Sæborg SH sem fórst í mars 1989 en þar fórst einn maður, skipstjórinn Magnús Guðmundsson. Þá er viðtal við duglegan skipstjóra, Emanúel Þórð Magnússon frá Ólafsvík, en hann tók við nýjum og öflugum bát núna í maí, Huldu GK 17.

Jacek og Hafsteinn í Flatey

Viðtal er við pólskan sjómann, Jacek Borkowski, sem er á línuskipinu Örvari SH 777 og búinn að vera þar í sautján ár. Eydís Bergmann Eyþórsdóttir sendir lesendum grein frá Stykkishólmi og Helga Bogey Birgisdóttir Ólafsvíkingur sendir frásögn og myndir frá Svalbarða. Viðtal er við Hafstein Guðmundsson úr Flatey en hann segir okkur frá sjómennsku sinni úr bæjunum á Snæfellsnesi. Birgir Þórbjarnarson frá Skagaströnd segir frá því er togarinn Arnar HU 1 var sóttur til Japans 1973. Eftir sjómennskuna starfaði hann hjá Fiskistofu og tók margar myndir á ferðum sínum

Fjöldi mynda frá sjónum og bryggjunni prýðir blaðið, sem er 88 blaðsíður. Ritstjóri er Pétur Steinar Jóhannsson. Blaðið verður til sölu í versluninni Gleraugna-Pétri á Garðatorgi 4 í Garðabæ og einnig í Norðurkaffi, Lækjargötu 34d í Hafnarfirði. sbs@mbl.is