Farsæll var smíðaður á 17. öld og var fyrsta vorskip Fljótamanna.
Farsæll var smíðaður á 17. öld og var fyrsta vorskip Fljótamanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Njörður S. Jóhannsson með enn eina listasmíðina, fyrsta vorskip Fljótamanna. Hann hafði reynt við það í tvígang áður en gefist upp. Í þetta sinn hafðist það.

Sigurður Ægisson

sae@sae.is

Njörður S. Jóhannsson á Siglufirði var á dögunum að enda við gerð enn eins stórglæsilegs líkansins af gömlu Fljótaskipi, núna frá 17. öld, en hann hefur undanfarin ár verið að skrá þessa merku sögu á þennan óvenjulega hátt, að leyfa fólki að horfa á þetta berum augum í stað þess að lesa, og að þessu sinni varð fyrir valinu fley, sem hann hafði tvívegis áður reynt að smíða en gefist upp í bæði skiptin. Það bar nafnið Farsæll.

„Upphafið að þessu er, að þegar ég er 15 ára gamall, þá spurði ég afa minn, Jón Kristjánsson frá Lambanesi í Fljótum, af hverju trillan, sem hann hefði smíðað og ætti, héti Rafn,“ segir Njörður, þegar hann er beðinn að rekja aðdragandann að þessari nýjasta listaverki sínu. „Það kom smá hik á afa, en svo sagði hann: „Rafn þessi var Helgason, fæddur 1657, sonur Helga Eyvindarsonar á Mói í Fljótum. Hann fórst á konungsskipi 9. mars 1685, í ofsasunnanroki, sem gekk þá yfir Reykjanesskagann og raunar Suðurlandið allt.“

Vísur sem heimildir

Njörður kveðst hafa viljað vita meira, og spurt af hverju hann væri endilega með nafn þess manns en ekki einhvers annars, og fengið það svar, að árið 1680 hefði hollensk dugga komið inn á Haganesvíkina og áðurnefndur faðir Rafns og Sveinn Jónsson, sem Njörður vill kalla „hinn lærða“, prestur á Barði, hefði komist í viðskipti við og fengið efni í stórt skip og látið af hendi skreið og lýsi. Hollendingum hefði líkað vel þessi viðskipti og bætt við koparnöglum til að negla skipið, og svo trénöglum að auki til að negla í böndin. Þetta skip hafi svo verið smíðað og Rafn verið formaður á því. Það hafi verið stórt og verið fyrsta vorskip Fljótamanna.

„Jón, afi minn, kenndi mér jafnframt vísur, skrifaði fyrstu þrjár vísurnar á pappaspjald, sagði að þær hefðu verið miklu fleiri, en hann mundi ekki meira þá. Fyrsta vísan byrjar þannig: „Kjölur, klýfir, fótur, strá.“ Ég þurfti að fá útskýringar á þessu öllu og hann leysti úr því og hélt áfram að útskýra hinar. Ég hafði mikinn áhuga á að smíða eftir þessu og reyndi það, en það tókst nú ekki; ég komst bara til þess að leggja kjöl og kjalsíður og eitt og hálft umfar og negla þetta saman á milli banda. En þegar ég kom að þessu morguninn eftir hafði sprungið á milli og ég gafst alveg upp á þessu.“

Nirði fannst þetta skrýtið, að tengja saman vísur og skipasmíði. Tveimur árum síðar, þegar hann var 17 ára, kynntist hann manni sem hét Sveinn Þorsteinsson, hann var sonur Þorsteins Þorsteinssonar sem byggði nýbýlið Vík út úr Neðra-Haganesslandi, kirkjan átti þessar jarðir.

„Hann ólst upp með Katrínu og Jóni Norðmann, sem þá var prestur á Barði,“ segir Njörður, „hann var dóttursonur hennar. Þegar Jón kemur að Barði koma þau með þennan strák með sér og Björg, systir Katrínar, kom þá líka. Sennilega hefur þessi Þorsteinn lært þessar vísur allar og fleiri þegar hann var á Barði og Sveinn lært þær af föður sínum. Og þegar afi spurði hann að þessu, hvort hann hefði ekki heyrt þær, þá brosti hann og hummaði og játti því svo, en kvaðst ekki muna þær í heild, en taldi sig geta rifjað þær upp. Svo liðu nokkrir dagar og svo bankaði hann upp á hjá mér og afhenti mér umslag og í því voru allar vísurnar komnar.“

Hann reyndi núna aftur að smíða líkan af þessu skipi og komst aðeins lengra, en var ekki með nógu góð efni, að eigin sögn, og kannski ekki nógu góða nagla, var með handbor og þetta var ekki nógu nákvæmt. Þannig að hann gafst upp aftur. En svo tókst þetta núna, í þriðju atrennu, eftir að hafa blundað í honum í 60 ár.

„Þótt ég sé búinn að smíða nokkur líkön hef ég ekki viljað reyna þetta fyrr en ég væri hundrað prósent viss um að geta náð árangri. Og ég hef farið nákvæmlega eftir þessum vísum í öllu, búið til 200 trénagla í gegn um öll bönd, sem eru fyrir ofan sjólínu, það tók töluverðan tíma, því ég þurfti að búa til þrisvar sinnum fleiri nagla en eru í skipinu, því að þetta var tæpur millimetri sem þurfti að fara í gegn, með haus og öllu því sem var. En þetta tókst með geysilegri þolinmæði.“

Í líkaninu eru auk trénaglanna rúmlega 3.000 koparnaglar.

„Þetta tók mikið á,“ segir Njörður. „Svo eru samsetningar allar réttar. Í vísunum koma fram 37 borðaheiti. Umförin eru þannig að þau eru kannski í þrennu og fernu lagi og hver hlutur ber sérstakt nafn. Þetta er ekki skráð í Íslenzkum sjávarháttum, frekar en annað sem ég hef verið að segja.“

Þegar verið er að smíða þetta skip, árið 1680, með aðstoð Hollendinga, þá er verið að smíða annað í Hrísey, líka með aðstoð þeirra, en það var gaflskip.

Seglfiskur handa kirkjunni

„Í annálum er sagt, að þegar það hafi verið sjósett og átt að fara inn á Akureyri, hafi siglingin ekki gengið betur en svo, að það fór þvert yfir fjörðinn og rak þar upp. Og skýrt er tekið fram að það hafi verið með þrjú segl uppi. Það er alveg eins og vísurnar segja að þetta hafi verið með, og hollenskur sjókross á því fremsta; ég veit ekki hvort eins hafi verið á hinu. Og þá þurfti að fara að leita að því. Þar kom mér til aðstoðar Torfi Ólafsson, formaður leikmannafélags kaþólskra; hann útvegaði mér bók um kirkjulistasögu Hollands og þar fann ég sjókross, sem ég tel að hafi verið á þessu skipi. Hann er í stafni, hann er í skut og hann vísar í stjór og bak. Það kemur heim og saman við gamla norðlenska sjóferðabæn,“ segir Njörður.

Sveinn Jónsson prestur á Barði hafði forgöngu um það að menn fengju segl á skipið og fyrir vikið létu eigendur kirkjuna þar njóta góðs af, í fyrstu greiddu þeir henni tíund en juku það svo um helming, það var kallað seglfiskur. Fékk kirkjan á Barði af þessu miklar tekjur.

„Það sem er merkilegt við þetta skip er, að þegar nýr biskup kemur að Hólum árið 1685, Jón Vigfússon, þá rísa deilur vegna þess að hann kom hér norður í Fljót og verslaði við Hollendinga, bæði tóbak og vín, og fór ógætilega og varð umdeildur og krafðist þess að eignast helming í skipinu. Af þessu urðu málaferli sem lauk þannig, að málið var fellt niður við lát hans. Skipið fær nafnið Farsæll af því að menn töldu að þetta hefði fengið farsælan endi. Ég hef svo heimildir fyrir því að þetta skip var rifið árið 1698, þá var það orðið lélegt, enda 18 ára gamalt.

Ég stefni að því að hafa skipið einhvers staðar til sýnis og halda áfram með verkefnið, því ég hef rætt við tvo menn sem hafa verið að kveða rímur, og ég hef sýnt öðrum þeirra vísurnar og hann hefur boðist til að taka það að sér að kveða þessar rímur og ég hef verið að velta því fyrir mér að hann byrjaði að kveða þrjár rímur og svo sýndi ég í myndum jafnóðum það sem verið er að fjalla um hverju sinni, þangað til búið væri að klára skipið,“ segir þúsundþjalasmiðurinn og kveðst ekki vera hættur eftir það, því enn eigi hann eftir að gera líkön af þremur skipum.

Lesendur fá eflaust að líta þau verk er þar að kemur.