Sigurþór Hjörleifsson fæddist 15. júní 1927. Hann lést 20. maí 2021.

Útför Sigurþórs fór fram 4. júní 2021.

Sóri afi í Messuholti mætti okkur barnabörnunum alltaf með hlýju brosi þegar við komum í heimsókn til hans í sveitina. Þar beið okkar allt það sem hugur barns gæti girnst; fínasti skógur til að leika sér í, góðir spilafélagar í þeim afa Sóra og ömmu Fjólu og öll eftirlátssemi sem einkennir góða afa og ömmu. Við krakkarnir gerðum okkur grein fyrir því að við þurftum svolítið að hækka róminn við afa, en það gerðum við með glöðu geði þar sem hann var hinn ágætasti samræðufélagi. Því að þrátt fyrir slæma sjón og heyrn fylgdist sá gamli vel með fréttum og fólki. Þegar hann svo dvaldist hjá okkur í Reykjavík lét hann ekkert aftra sér frá því að mæta á tónleika eða aðra viðburði til að fylgjast með barnabörnunum.

Það fylgir því mikil hlýja öllum minningum okkar frá Messuholti þegar hann Sóri afi bjó þar og Fjóla amma meðan hennar naut við. Hvort sem við fengum að vera hjá þeim í nokkrar nætur eða sumarlangt vorum við alltaf meira en velkomin. Það var líka hægt að lenda í ýmsum uppátækjum og ævintýrum með Sigurþóri. Okkur stendur skýrt fyrir hugsjónum þegar afi græjukarl dró fram einhver tæki í skúrnum og við fengum að fylgjast með eða prófa. Hann var líka ávallt mjög hvetjandi og dró til að mynda hana Arngunni (yngri) með sér í bíltúr á eldgömlum jeppa upp á skíðasvæði þegar hann frétti að hún, nýkomin með bílpróf, væri ekki nógu örugg á beinskiptum bíl. Hún keyrði að sjálfsögðu því að sá gamli ætlaði að komast í útsýnistúr. Eins var alltaf gott að setjast niður með afa og taka eina kasínu, eða bera saman bækur okkar um nýjustu skáldverkin. Afi hlustaði nefnilega alltaf á nýjar hljóðbækur og það voru sömu bækur og við lásum, skáldsögurnar, ekki krimmarnir.

Eins og kannski er algengt hjá ungu fólki var það ekki fyrr en við komumst á fullorðinsaldur sem við fórum að gera okkur grein fyrir því að hann afi átti heilan hafsjó af minningum og langa ævi að baki sem við þekktum ekki. Því var oft gaman að nefna við afa þegar við vorum á ferðalagi eitthvað um landið, því oft átti hann einhverjar sögur þaðan. Þessi síðustu ár eru okkur afar dýrmæt, þá fékk maður að heyra einhverjar sögur af þeim Guðbjörgu ömmu, ferðalagi afa um Bandaríkin þver og endilöng og minningar sem hann átti frá uppvaxtarárum í Reykjavík og Skagafirði. Í dag kveðjum við afa og hugsum til hans á nýjum ferðalögum.

Arngunnur Einarsdóttir og Þorgerður Einarsdóttir.

Í dag kveð ég elsku afa minn, Sóra. Það ætti ekki að koma manni að óvörum að þurfa að kveðja afa sinn sem kominn er á tíræðisaldur hinstu kveðju en það gerir það engu að síður. Afi minn var nefnilega einn þrautseigasti og duglegasti maður sem ég hef kynnst og hann tókst á við allt mótlæti af mikilli eljusemi og lét aldrei neitt stoppa sig.

Ég á margar góðar og hlýjar minningar um afa minn. Sem barn eyddi ég löngum stundum í að spila við afa og ömmu í Messuholti en þau virtust aldrei þreytast á að sinna okkur barnabörnunum. En úr æsku minni standa upp úr minningar af ýmiskonar ævintýrum með afa, þá einna helst sjóferðunum. Að sigla út Skagafjörð á sumarkvöldum með afa og moka upp þorski var toppurinn á tilverunni.

Í seinni tíð urðu samtölin við afa æ dýrmætari. Hann var svo minnugur og fylgdist svo vel með öllu þrátt fyrir háan aldur. Það var gaman að heyra sögurnar úr lífi hans, til dæmis af barnæsku hans í Reykjavík, eða bara að ræða við hann um daginn og veginn.

Við afi gátum því miður ekki hist eins oft og ég hefði viljað undanfarin misseri en fjölskyldan náði þó öll að hittast á þorrablóti í Messuholti í vetur. Í dag er ég þakklátur fyrir það og þá sérstaklega að þeir Örn litli hafi fengið að hittast. Síðar mun hann heyra frá mér sögur um langafa sinn Sóra og kynnast hans heimahögum í Skagafirði.

Góðar minningar um ljúfa dugnaðarforkinn og lífsglaða afa Sóra munu lifa með okkur öllum um ókomin ár.

Þorgeir Sigurðarson.

Lífið er ferðalag. Ferðalag sumra er stutt, annarra lengra. Ferðin gengur misjafnlega vel, bæði milli einstaklinga og tímabila. Sumir verða fyrir áföllum sem beygja þá og jafnvel brjóta, aðrir bogna um skeið en rétta sig síðan upp og halda áfram. Sigurþór Hjörleifsson, sem hér er kvaddur hinsta sinn, fékk sinn skerf af áföllum á lífsgöngunni. Slysfarir, heilsubrestur og ótímabær ástvinamissir urðu honum þungbær, en þrautseigja hans og þolinmæði var einstök. Kjarkur hans bilaði samt aldrei og hann hélt áfram án vols eða víls.

Sigurþór byrjaði lífshlaup sitt í Reykjavík, þar sem foreldrar hans bjuggu áður en þau keyptu jörðina Kimbastaði í Skagafirði og hófu þar búskap. Sigurþór gerðist starfsmaður á Vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar og nam þar vélsmíði og rennismíði, en hann starfaði stærstan hluta ævi sinnar við viðgerðir og viðhald vinnuvéla, einkum fyrir Vélasjóð ríkisins og síðar Ræktunarsamband Skagafjarðar. Þrautseigju hans og verkhyggni var við brugðið og margt vandamálið sem öðrum virtist illleysanlegt varð sem leikur einn þegar hann kom að því og sá hann oft lausnir sem öðrum höfðu ekki í hug komið. Ef hann vantaði verkfæri, þá smíðaði hann þau og hann var jafnan kallaður til þegar vinnuvélar Ræktunarsambandsins lentu í festum, bilunum og öðru þeim vandamálum sem upp geta komið í slíkum rekstri. Við slíkar aðstæður naut ráðsnilli hans og lausnamiðaður hugur sín vel. Sigurþór var líka þátttakandi í félagsmálum af ýmsu tagi og sá sem þetta ritar þekkti best til starfa hans í þágu björgunar- og slysavarnamála, sem og starfs Ferðafélags Skagfirðinga. Þar reyndist hann bæði tillögugóður, starfsamur og góður félagi að viðbættri verklagni og útsjónarsemi í hinum ýmsu verkefnum.

Ritari þessara fáu orða minnist hinsvegar Sigurþórs fyrst og síðast sem einstaks vinar og greiðvikins velgjörðamanns, sem og afar góðs ferðafélaga, sér í lagi um öræfaslóðir, þar sem við áttum saman margar, ógleymanlegar stundir.

Það segir sig sjálft, að sá sem hefur þreytt lífsgönguna í nær níutíu og fjögur ár hefur þurft að taka á sig marga þá brimskafla sem á einum einstaklingi geta skollið á svo langri leið. Sigurþór fékk víst áreiðanlega sinn skammt af þeim, en mætti þeim af æðruleysi, þolgæði og einstakri þrautseigju og kom jafnan sterkari undan þeim, þótt margir þeirra hefðu beygt ýmsa með veikari skapgerð þannig að þeir hefðu ekki rétt við aftur. Hér er ekki ætlunin að tíunda þau áföll sem hann varð fyrir en ítrekað að sá sem kemst þá leið sem Sigurþór varð að ganga er gegnheill maður.

Að leiðarlokum þakkar sá sem þetta ritar Sigurþóri fyrir allt og óhætt er að fullyrða að það er margt. Umfram allt vináttu sem aldrei bar skugga á. Dætrum hans fjórum og öðrum aðstandendum, þar með töldum bræðrum hans sem enn lifa, er vottuð innileg samúð. Megi hann hvíla í friði að loknu farsælu dagsverki.

Guðbrandur Þ.

Guðbrandsson.