Sveinn Ármann Sigurðsson fæddist 6. október 1944. Hann lést 6. maí 2021.

Útför Sveins Ármanns fór fram 18. maí 2021.

Elsku afi, það er erfitt að þurfa að setjast niður og skrifa minningarorð um þig. Við vorum mikið saman þegar ég var yngri og bjó heima hjá þér. Við fórum oft eitthvað saman eins og að veiða eða bara út í bílskúr, ég að smíða á meðan þú varst að beygja rennubönd.

Íþróttir voru líka ofarlega hjá þér og studdir þú mig vel í gegnum árin. Frá því að fara með mig á fótboltamót yfir í að mæta á flesta meistaraflokksleikina sem ég spilaði í handboltanum. Þú áttir það til að hringja í mig eftir leikina og ræða um þá, sem mér þótti mjög vænt um.

Það er líka eftirminnilegt þegar við fórum að sjá ÍBV spila við Stuttgart. Þetta var Evrópuleikur og ég fékk bol sem var í XL en ég var eingöngu nýbyrjaður í skóla en fór stoltur í honum nokkra daga í röð.

Seinna meir vorum við svo að vinna saman í BYKO og gekk það alltaf mjög vel. Það var margt sem maður lærði af þér þar sem nýtist manni mjög vel.

Við fjölskyldan munum sakna þín mikið og þá sérstaklega Aþena Saga að geta ekki komið til langafa og verið að tína jarðarber í garðinum hjá þér.

Takk fyrir allar stundirnar okkar saman og hvíldu í friði.

Þinn

Sverrir, Amanda og

Aþena Saga