Óskar Berg var fæddur á Húsavík þann 24. maí 1948, yngstur í ellefu systkina hópi. Hann var sonur hjónanna Sigurjóns Halldórssonar, f. 6.3. 1902, d. 9.12. 1963, og Elísabetar Sigríðar Friðriksdóttur, f. 2.10. 1905, d. 21.4. 1985. Eftirlifandi systkini Óskars eru; Benoný, f. 31.5. 1931, Kári Rafn, f. 1.10. 1933, Kolbrún Hulda, f. 25.2. 1936, og Gylfi, f. 7.7. 1942. Látin eru: Elías Ben, f. 1.7. 1927, d. 19.12. 1998, Halldór Friðrik, f. 19.2. 1929, d. 9.7. 2013, Mary Alberty, f. 20.3. 1930, d. 3.8. 2009, Kolbeinn Oddur, f. 12.9. 1932, d. 27.5. 2020, Sigrún, f. 8.7. 1937, d. 25.8. 2014, og Ingibjörg Bankey, f. 18.10. 1943, d. 24.4. 2016.

Dætur Óskars eru: a) Agnes Ólöf, f. 05.10. 1966, móðir hennar er Olga Soffía Thorarensen, f. 5.10. 1945. Sambýlismaður Agnesar Ólafar var Finnbogi Arnar Ástvaldsson, f. 5.9. 1956, þau slitu sambúð. Barn þeirra er Vigdís Th. Finnbogadóttir, f. 17.6. 1983, gift Sæmundi Sveinssyni, f. 29.8. 1984. Synir Vigdísar og Sæmundar eru Sigurður Ásgeir, f. 18.12. 2010, og Ólafur Oddur, f. 5.3. 2013. Agnes Ólöf er gift Þórhalli Jóni Svavarssyni, f. 13.12. 1960. Dætur þeirra eru Jóna Kristín, f. 11.1. 2004, Svandís Ósk, f. 11.1. 2004, og Anna Lísa, f. 10.5. 2005. Þórhallur á einnig dótturina Sigurveigu Þórhallsdóttur, f. 18.6. 1986. Sigurveig er gift Sigurjóni Ólafssyni, f. 9.10. 1982, og sonur þeirra er Pétur, f. 9.12. 2015. b) Berglind Ósk, f. 29.5. 1970. Móðir hennar er Margrét Lilja Guðmundsdóttir, f. 28.8. 1954. Berglind er ógift og barnlaus. Eftirlifandi unnusta og sambýliskona Óskars er Þórhalla Guðmundsdóttir, f. 25.8. 1949.

Óskar starfaði megnið af starfsaldri sínum við bílasprautun og réttingar í Reykjavík og þótti mikill hagleiks- og verkmaður á því sviði. Lengst starfaði hann hjá Bílasprautunar- og réttingaverkstæðinu Víkurósi, þar sem hann eignaðist sína tryggustu vini og félaga á lífsins vegferð. Hann lést á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi þann 25. maí 2021.

Útför hans fer fram frá Oddakirkju á Rangárvöllum í dag, 5. júní 2021, klukkan 13.

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabba minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkar minning þín, elsku pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem förum við um landið út og inn

er fjarsjóðurinn okkar pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Hvíl í friði pabbi minn.

Þín

Agnes Ólöf (Lóa).

Elsku afi. Æskuminningarnar sem tengjast þér eru sveipaðar einhvers konar ljóma því mér fannst afi í Reykjavík alltaf svo fáránlega töff og skemmtilegur. Alltaf snyrtilega klæddur, fínn um hárið og skeggið og í nýpússuðum skóm.

Þegar ég varð unglingur bjó ég hluta úr vetri hjá ykkur Nínu á meðan ég var í skóla í bænum. Þá mánuði kynntumst við betur og það má segja að þá hafi ég kynnst þér sem manneskju, ekki bara sem afa í Reykjavík. Skemmtilegast fannst mér þegar þú sýndir mér gamla dótið þitt inni í herbergi, gömul myndaalbúm með tilheyrandi sögum og svo auðvitað bílskúrsstundirnar okkar.

Í bílskúrnum sátum við á plastkössum, hlustuðum á tónlist, reyktum camel og drukkum bjór. Við vorum trúnaðarvinir og þú sagðir mér frá því hvernig líf þitt hefði líklega orðið öðruvísi ef Bakkus hefði ekki tekið eins stóran toll af lífi þínu og hann gerði. Þú vissir hvaða hildarleik hann lék þig, en þú fannst bara ekki leiðina út. Þegar þú ræddir þessi mál fyrst opinskátt við mig á unglingsaldri sagði ég við þig: „Þú ert samt afi minn, og þú skalt bara vera það.“ Þá brostir þú votur um augun og sagðir: „Jæja elskan, þá höfum við það þannig.“

Það bar aldrei skugga á okkar samskipti og þú varst fljótur að bregðast við ef eitthvað bjátaði á. Þú gerðir við gömlu bíldrusluna mína, málaðir fyrstu íbúðina okkar Sæma með okkur og kenndir okkur handtökin og þegar við héldum að þú værir farinn heim eftir langan málningarvinnudag mættir þú aftur með fulla potta af kjötbollum og kartöflumús í kvöldmatinn. Það voru sennilega bestu kjötbollur sem ég hef bragðað um ævina.

Þú varst svo stoltur af okkur stelpunum þínum og strákunum. Þú elskaðir jólin og jólaljósin. Þú varst sælkeri og elskaðir góðan mat og bakkelsi og saman deildum við ævilangri ástríðu fyrir Prince polo. Þú varst dýravinur af guðs náð og hundar voru þar í mestu uppáhaldi. Þú varst líka barngóður og hafðir unun af því að fíflast og segja brandara í kringum litla krakka og fá þau til að hlæja, breyttist eiginlega í hálfgerðan trúð á köflum og hlóst þá oft hæst sjálfur að allri vitleysunni.

Þú sagðir alltaf að þeir lifðu lengst sem lýðnum leiddist. Ég hefði gjarnan viljað að þú hefðir verið dálítið leiðinlegri þannig að við hefðum getað haft þig lengur hjá okkur. Ég er samt þakklát fyrir þau rúmu þrjú ár sem við fengum að hafa þig eftir að þú veiktist í ársbyrjun 2018, en þá lifðir þú af hvorki meira né minna en 45 mínútna hjartastopp. Læknarnir komu þér aftur af stað, en lífsgæði þín voru nokkuð skert eftir áfallið og þér fannst erfitt að sætta þig við að þurfa aðstoð við ýmsar athafnir daglegs lífs sem þú hafðir áður sinnt sjálfur.

Elsku afi, ég á eftir að sakna þín, símtalanna, hlátursins, einlægninnar, vináttunnar og kærleikans á milli okkar. Takk fyrir að gefa mér hlutdeild í lífi þínu, líka á þeim stundum sem þig langaði ekki að ég vissi að aðstæður þínar voru ekki sem bestar. Takk fyrir þéttu faðmlögin, trausta handabandið og að vera skemmtilegi, fyndni og stríðni afi minn.

Ástarkveðja,

Vigdís.

HINSTA KVEÐJA
Þótt döpur sé nú sálin,
þó mörg hér renni tárin,
mikla hlýju enn ég finn
þú verður alltaf afi minn.
(Heba Dögg Jónsdóttir)
Takk fyrir allt elsku afi okkar,
Jóna Kristín, Svandís Ósk og Anna Lísa.