Fyrir 1980 Glaumbæjarkirkja er steinsteypt hús en var lengi óeinangruð.
Fyrir 1980 Glaumbæjarkirkja er steinsteypt hús en var lengi óeinangruð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Safnaðarnefnd Glaumbæjarsóknar í Skagafirði hefur ákveðið að láta rifa álklæðningu utan af kirkjunni í Glaumbæ, einangra veggi hennar og múra upp á nýtt. Með því færist hún í upprunalegt horf.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Safnaðarnefnd Glaumbæjarsóknar í Skagafirði hefur ákveðið að láta rifa álklæðningu utan af kirkjunni í Glaumbæ, einangra veggi hennar og múra upp á nýtt. Með því færist hún í upprunalegt horf. Fjármunir hafa verið tryggðir til framkvæmdarinnar.

Glaumbæjarkirkja er steinsteypt hús, byggð árið 1926. Þá hafði eldri timburkirkja eyðilagst í óveðri.

Turn kirkjunnar var klæddur með áli um 1980 vegna þess að múrinn var farinn að hrynja af og turinn orðinn skellóttur. Kirkjan var óeinangruð í upphafi. Nokkrum árum eftir að turninn var klæddur var ákveðið að einangra veggina að utan og klæða alla kirkjuna.

Vinsæll túristastaður

„Álið er að vera fjörutíu ára og farið að sjá á því. Klæðningin breytti útliti kirkjunnar. Hún stendur á viðkvæmu svæði því byggðasafnið í gamla torfbænum er vinsæll viðkomustaður ferðafólks,“ segir Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæ, spurður um ástæður þess að ákveðið er að færa kirkjuna til upprunalegs horfs.

Hann bætir því við að líklega eigi Hjörleifur Stefánsson arkitekt hugmyndirnar að þessum breytingum. Kirkjan var gerð upp að innan á árinu 1996 og þá voru timburklæðningar fjarlægðar og kirkjan öll múruð að innan. Gísli segir að í kjölfarið hafi vaknað áhugi á að færa hana í upprunalegt horf að utan.

Stefnt er að því að ráðast í viðgerðina í ágústmánuði. Búið er að fá múrara til að annast hana.

Séra Gísli segir að fjöldi ferðafólks leggi leið sína í byggðasafnið á hverju ári og flestir þeirra líti einnig inn í kirkjuna. Áætlað hefur verið að 70 þúsund manns hafi komið á staðinn á ári, áður en dró úr komum erlendra ferðamanna vegna kórónuveirufaraldursins. Gísli segir mikilvægt að kirkjan líti vel út og nú sé lag að ráðast í verkið því búist sé við að færri ferðamenn komi í sumar og kirkjan verði þá tilbúin fyrir næstu lotu.

Aðeins eru um 100 íbúar í sókninni og ekki miklir fjármunir afgangs til að ráðast í stórframkvæmdir. Áætlað er að viðgerðin kosti eitthvað á annað tug milljóna og styrkur úr jöfnunarsjóði sókna gerir kleift að ráðast í verkið.