Ræsing Hlauparar í 161 km vegalengd voru ræstir út í Hveragerði í gær.
Ræsing Hlauparar í 161 km vegalengd voru ræstir út í Hveragerði í gær. — Ljósmynd/Mummi Lú
Tvöfalt fleiri keppendur en í fyrra skráðu sig til leiks í lengsta og fjölmennasta utanvegahlaup á Íslandi, Salomon Hengil Ultra í Hveragerði. Hlaupið hófst í gær með rúmlega 1.300 keppendum.

Tvöfalt fleiri keppendur en í fyrra skráðu sig til leiks í lengsta og fjölmennasta utanvegahlaup á Íslandi, Salomon Hengil Ultra í Hveragerði. Hlaupið hófst í gær með rúmlega 1.300 keppendum. Það er metfjöldi í skráningu en loka þurfti henni í apríl vegna aðsóknar. Þetta er tíunda skiptið sem hlaupið fer fram.

Hlaupið er í sex mismunandi vegalengdum. Í ár er í fyrsta skipti keppt í svokölluðu 100 mílna hlaupi þar sem keppendur hlaupa 161 km hlaup. 20 Íslendingar voru skráðir til leiks í því og lögðu þeir af stað kl. 14 í gær. Í gærkvöldi var einnig ræst í 106 km hlaupaleiðinni þar sem 60 höfðu skráð sig. Í dag verða svo m.a. hlaupnir 53 km, 10 km og 5 km.

Þegar keppendur koma í mark tekur á móti þeim grill og gleði. Hlaupið er hluti af Víkingamótaröðinni en henni tilheyra líka KIA Gullhringurinn, sem hjólaður er á Suðurlandi, og Eldslóðin utanvegahlaup og Landsnet MTB-fjallahjólakeppni, sem hvort tveggja fer fram í Heiðmörkinni við borgarmörkin.