Gunnar Malmquist starfar á Hárgreiðslustofunni Blondie.
Gunnar Malmquist starfar á Hárgreiðslustofunni Blondie. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnar Malmquist Þórsson er sérfræðingur í fade-klippingu fyrir herra. Hann segir karlmenn farna að átta sig á að þeir þurfi að nota vandaðar vörur í hárið og nú þori menn meira en áður þegar kemur að útlitinu. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Gunnar Malmquist Þórisson betur

þekktur sem Vikingblendz á samfélagsmiðlum er menntaður sveinn og meistari í hársnyrtiiðn. Hann hefur alltaf haft áhuga á herratískunni þegar kemur að hári.

„Ég byrjaði að klippa af alvöru fyrir þremur árum sirka og hef ekki snúið til baka síðan. Ég hef nýlega lokið við meistaranám í hársnyrtiiðn og er að klippa á Blondie hársnyrtistofu. Þessa dagana er ég mikið að halda námskeið og fara á milli hársnyrtistofa og kenna það sem ég er að gera með herra hár. Stefnan í framtíðinni er að opna sjálfur rakarastofur og rakaraskóla þar sem einstaklingar geta menntað sig í herraklippingum og öllu því sem snýr að herrum. Í dag er aðeins til iðngrein sem snýr að bæði herra- og dömutísku en markmiðið mitt er að breyta því og gefa einstaklingum þann möguleika að fá að velja hvað hann vill læra. Rakarasamfélagið á Íslandi er að stækka með hverju ári með ungum og efnilegum einstaklingum sem vilja leggja áherslu á að klippa herra hár. Ég tel að við þurfum að svara þessari auknu eftirspurn með því að búa til starfsleyfi fyrir þessa einstaklinga og gefa þeim tækifæri að læra og mennta sig í öllu því sem snýr að herrahári.“

Herrar vilja vera með „fade“

Hvað getur þú sagt mér um nýjustu tískuna í herraklippingu?

„Það hefur sjaldan verið jafn augljóst og núna hvað er í tísku í herraklippingum. Herrar í dag vilja flestir fara í einhvers konar fade, það eru til margs konar útfærslur af herra fade-i, skin fade, taper fade, burst fade. Það varð sprenging fyrir einu til tveimur árum síðan þegar þessi herratíska festi rætur sínar hér á landi og flestir sem mættu í klippingu vildu fá fade. Ég sé alls ekki fram á að þessi herra tíska sé að fara yfirgefa okkur eitthvað á næstunni heldur býst ég við að hún þróist og verði varanleg.“

Hvað ættu allir karlar að fá sér í hárið núna?

„Herrar eru ekki eins einfaldir í dag og þeir voru í gamla daga þegar það var bara eitt gel sem hentaði öllum. Í dag þarf herrann að hugsa um sitt hár og velja réttu vöruna sem hentar honum. Ég mæli með öllum herravörunum frá Label m. Ég elska hvað línan þeirra býður upp á marga möguleika fyrir herrann og er ég viss um að hann geti fundið sér eitthvað sem hentar honum og hans hártýpu. Einnig verð ég að benda á mótunarvörurnar frá Fax. Fax er nýtt íslenskt hárvörumerki sem er að gera spennandi hluti. Þeir bjóða upp á mótunarvörur fyrir herra og vilja þeir einblína á að búa til gel sem hentar íslenskum karlmönnum.“

Karlmenn hugsa of sjaldan um hárið

Hvað ættu karlar að hætta að gera tengt hárinu?

„Mér finnst enn þá allt of margir karlmenn hugsa of sjaldan um hárið. Þar sem við búum á Íslandi upplifum við miklar hitabreytingar þar sen hársvörðurinn á það til að þorna og mynda flösu.

Allt of margir karlmenn hafa verið að glíma við þennan vanda – eiga það til að kaupa ódýrasta sjampóbrúsann í búðinni án þess að athuga hvaða efni eru í honum og með því getur vandinn versnað. Lausnin við þessu vandamáli er að fræða okkar menn um hvað er í boði, hvaða efni eru góð og hver eru ekki góð. Til að mynda mæli ég með puryfing-sjampóinu frá Davines fyrir þá sem þjást af þurri eða feitri flösu.“

Strákar skína af sjálfstrausti í dag

Hvað getur þú sagt mér um liti í hárið fyrir karla? „Strákar í dag eru alls ekki hræddir við að lita á sér hárið. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað strákar í dag skína af sjálfstrausti og þora að vera öðruvísi með því að lita hárið sitt alls konar litum. Vinsælasti liturinn hjá strákum í dag er klárlega silfurhvítar strípur.“

Hvað getur þú sagt mér um „fade“-hárgreiðsluna?

„Hún er sú allra vinsælasta í dag og getur tekið á sig mismunandi mynd. Í grunninn er „fade“ að fara úr stuttu hári yfir í síðara hár án þess að einhver lína myndist. „Fade“ klippt í hliðarnar á herrum snýst um að ná að blanda öllum síddunum frá stuttu í sítt án þess að mynda línu. Í dag er ég mikið að fara á milli hársnyrtistofa og kenna „fade“ og hvernig er hægt að ná sem flottustu útkomunni með þeirri aðferð.“

Uppáhaldsfötin hjá Kölska

Hvað með skegg – er það inni líka?

„Fyrir nokkrum árum varð spenging í skeggtísku á Íslandi og hafa íslenskir karlmenn ekki snúið til baka síðan. Skegg verður alltaf í inn svo lengi sem konan á heimilinu samþykkir það að karlinn fái að vera með smá skegg. Það sem við höfum samt tekið eftir er að þessi löngu síðu skegg eru að minnka sérstaklega á sumrin. Í staðinn vilja karlmenn vera með stutt skegg með skarpar og flottar útlínur.“

Áttu þér uppáhaldsfatahönnuð?

„Ég á mér engan uppáhaldsfatahönnuð og tel ég mig ekki vera neitt rosalegt „merkja-freak“ en uppáhaldsfötin mín sem ég klæðist eru klárlega frá Kölska sem er íslensk klæðskeraþjónusta.“

Hvað með skartgripi – ertu með slíkt?

„Ég er yfirleitt með hálsmen og þegar ég nenni þá finnst mér gaman að vera með hringa. Eini gallinn er að ég er með frekar feita putta sem þýðir að ég þarf að eyða fimm til tíu mínútum að taka þá af mér ef ég set þá upp.“

Bylting hjá ungum mönnum í dag

Notarðu góð efni í hárið? „Ég sjálfur er mjög einfaldur þegar kemur að hárinu mín. Númer eitt, tvö og þrjú þá þarf ég að vera með gott sjampó. Þegar kemur að mótunarvörum þá vil ég meina að minna sé meira. Ég nota því Power to wax-efnið á hverjum degi til að fá þurra og flotta áferð í hárið.“

Hvað viltu hvetja fleiri unga menn að gera?

„Ég vil hvetja fleiri stráka til að kynna sér hársnyrtiiðn. Það hefur verið bylting síðastliðið ár hvað það eru margir ungir strákar að fikta við að klippa hárið á vinum sínum sem sýnir að það er svakalegur áhugi til staðar hjá ungum mönnum. Því vil ég hvetja þá að taka næsta skref og skrá sig í nám.“