[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alls hafa tæplega 130 þúsund einstaklingar verið fullbólusettir hér á landi og tæp 215 þúsund fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. Þá tilkynntu yfirvöld í gær að gert væri ráð fyrir að öllum landsmönnum hefði verið boðin bólusetning fyrir...

Alls hafa tæplega 130 þúsund einstaklingar verið fullbólusettir hér á landi og tæp 215 þúsund fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. Þá tilkynntu yfirvöld í gær að gert væri ráð fyrir að öllum landsmönnum hefði verið boðin bólusetning fyrir 25. júní.

Stefnt er að frekari afléttingu sóttvarnaaðgerða og mega 300 manns koma saman frá og með 15. júní auk þess sem veitinga- og öldurhúsum verður heimilt að hafa opið til miðnættis.

Fáar alvarlegar aukaverkanir

Birtar hafa verið niðurstöður athugunar óháðra sérfræðinga á andláti fimm einstaklinga í kjölfar bólusetninga auk fimm tilfella þar sem einstaklingar urðu alvarlega veikir í kjölfar þess að vera bólusettir. Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítalanum og annar sérfræðinga nefndarinnar, sagði í samtali við mbl.is í gær að það hefði komið sér á óvart hve fáar alvarlegar aukaverkanir væru af bóluefnunum.

Í einu tilfelli voru tengsl milli aukaverkana og veikinda metin líkleg. Þar hafði maður, sem fékk bóluefni AstraZeneca, fengið afar sjaldgæfa aukaverkun bóluefnisins sem veldur blóðflögufækkun með blóðsega. Þetta er þekkt en ákaflega sjaldgæf aukaverkun. Sá einstaklingur fékk viðeigandi meðferð.

Þá var metið mögulegt en þó ólíklegt í einu tilfelli að dauðsfallið mætti rekja til bóluefnisins. Davíð segir að þar hafi verið um að ræða einstakling með langt gengið krabbamein. Slíkt eykur segahneigð blóðsins og þannig líkur á blóðtappamyndun. Í þess háttar tilfellum er erfitt að vera viss hvort það hafi verið blóðsegi sem myndast vegna krabbameinsins eða bóluefnið sem slíkt sem hafi orsakað blóðtappamyndunina.

„Niðurstöðurnar styrkja okkur í þeirri í trú okkar að alvarlegar aukaverkanir bólusetninga vegna Covid-19 séu afar sjaldgæfar,“ segir Davíð.