Maður vill jú líta vel út þegar maður mætir gömlum hjásvæfum.

Það sem helst bar hæst í fréttum undanfarna viku er bólusetningarfárið með óvenjulöngum röðum við og í kringum Laugardalshöllina. Þar fengu sumir að standa ansi lengi í margra kílómetra halarófu, (kannski örlitlar ýkjur en það má) í grenjandi rigningu á köflum og var mönnum misskemmt.

Sumir voru eiginlega bara hundfúlir. Líklega hefur brúnin lyfst aðeins eftir að dýrmætu droparnir voru komnir inn fyrir skinn. Það er mikill léttir; það veit ég sem er nú fullbólusett. Og hef því yfir engu að kvarta lengur!

En það voru ekkert allir í röðinni í fýlu. Sumir komu líka vel undirbúnir fyrir dvölina löngu í röðinni og mættu með lesefni, eins og rithöfundurinn Sverrir Norland sem mætti með Proust undir hendinni, auðvitað á frummálinu. Aðrir notuðu tímann og spjölluðu við gamla skólafélaga sem höfðu kannski ekki sést í áratugi. Það fólk skemmti sér prýðilega og lét rigningu ekki á sig fá.

Einum fannst reyndar röðin frekar óþægileg þar sem sá hitti ansi margar konur sem hann hafði einhvern tímann sængað hjá.

Nú eða menn; það fylgdi ekki sögunni. Þetta virtist hafa verið nokkur fjöldi, samkvæmt „áreiðanlegum“ heimildum á Facebook.

Þá var víst ekki gott að standa fastur í röð og niðurrigndur í þokkabót. Maður vill jú líta vel út þegar maður mætir gömlum hjásvæfum.

En burtséð frá bólusetningum og veðrinu, þá er aldeilis bjart fram undan, sumarið er komið og það á víst að sjást til sólar í næstu viku.

Hvernig er annað hægt en að brosa hringinn?

Já, og kannski vegna þess að ég er að detta í langþráð sumarfrí; það skemmir ekki fyrir. Annað sumarið í röð mun ég pakka í töskur og troða í litla skottið, henda hvort tveggja tveimur Bandaríkjamönnum og unglingum í bílinn og bruna af stað. Utanlandsferðir bíða enn um stund því Ísland er perla, ekki síst á björtum sumarnóttum. Sumarið er tíminn!