Andmæli Baráttufólk mótmælti skammt frá fundarstað G7-ríkjanna.
Andmæli Baráttufólk mótmælti skammt frá fundarstað G7-ríkjanna. — AFP
Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Leiðtogar sjö helstu iðnríkja heims hittust í eigin persónu í fyrsta sinn í tæp tvö ár, vegna kórónuveirufaraldursins. Hófu þeir fundi sína í Cornwall á Englandi í gær.

Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Leiðtogar sjö helstu iðnríkja heims hittust í eigin persónu í fyrsta sinn í tæp tvö ár, vegna kórónuveirufaraldursins. Hófu þeir fundi sína í Cornwall á Englandi í gær. Munu þeir hafa bundist samtökum um að gefa fátækari ríkjum samtals milljarð skammta af bóluefni gegn kórónuveirunni.

Til fundanna mættu leiðtogar Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Japans, Bandaríkjanna og Bretlands. Sögðu þeir samheldni og sameiginlegt átak ekki aðeins bestu vörnina gegn heimsfaraldrinum heldur og vænlegustu leiðina í glímunni við að afstýra loftslagsbreytingum.

Joe Biden Bandaríkjaforseti lagði línurnar í fyrradag er hann gaf einangrunarstefnu forvera síns, Donalds Trump, í alþjóðamálum reisupassann til að leggja áherslu á að einbeitni og festa G7-ríkjanna og NATO gegn bæði Peking og Moskvu dygði best.

„Megindrifkraftur þessa leiðtogafundar G7 er að sýna fram á að vestrænt lýðræði getur staðist og sameiginlega sigrast á aðkallandi ögrunum sem við veröldinni blasa,“ sagði háttsettur bandarískur embættismaður við AFP.

Baráttumenn fyrir auknum bólusetningum meðal fátækari ríkja segja að fyrirheit G7-ríkjanna séu ónóg og of seint á ferðinni til að kveða í kútinn faraldurinn sem kostað hefur 3,7 milljónir mannslífa. „Geti G7-leiðtogarnir í besta falli gefið milljarð skammta þá verður fundur þeirra að hafa talist misheppnaður,“ sögðu líknarsamtökin Oxfam. Þau segja þörfina vera 11 milljarða í stað eins milljarðs.

Bólusetning í fátækari ríkjum er hlutfallslega langt á eftir því sem náðst hefur að bólusetja í G7-ríkjunum og öðrum ríkum löndum. Miðað við bólusetningar til þessa, að sögn Alþjóðabankans, hafa 73 verið bólusettir í ríkum löndum fyrir hvern einn í snauðum löndum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) fagnaði skuldbindingu G7-ríkjanna en sagði miklu skipta hvenær bóluefninu væri deilt til fátækra ríkja. Þegar bóluefnið loks næði til þeirra til bólusetningar heilbrigðisstarfsfólks og aldraðra í fyrstu yrði bólusetning barna langt á veg komin í G7-ríkjunum. Talsmaður WHO sagði gjöfina vera uppörvandi en gat þess að þarna næðist það loks í gegn sem stofnunin hefur haldið fram frá í janúar sl.

Bandaríkin og ESB hafa heitið því að bólusetja langleiðina í alla fullorðna á norðurhveli jarðar fyrir sumarlok. Forstjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus, hvetur til herferðar með því takmarki að 10% íbúa í öllum löndum verði bólusett fram til september og 30% við áramót. Til þess er þörf á 250 milljónum viðbótarskammta bóluefnis fram til september og 100 milljónir aðeins í júní og júlí.

Gefnar hafa verið tæplega 2,3 milljónir skammta í 216 löndum heims, samkvæmt gögnum AFP. Fjórðungur bólusetninganna hefur átt sér stað í G7-ríkjunum en þar er að finna um 10% íbúa jarðar. Í ríkustu löndunum er að finna 16% íbúa heims en í þeim hafa 67 af hverjum eitt hundrað íbúum verið bólusettir. Hlutfallið er 73 í G7-löndunum en í 29 fátækustu löndum heims – þar sem er að finna 9% búa heimsins – er það einn skammtur á hverja hundrað.

G7-leiðtogarnir hafa ekki farið dult með að þeir verði að grípa til ráðstafana gegn „diplómatískri bólusetningarherferð“ Kínverja og Rússa. Bandaríkjastjórn hamrar á því að ekki eigi að endurgjalda þeim greiðann í nokkurri mynd. Búist var og við að þeir myndu leggja drög að aukinni þróunaraðstoð, meðal annars með aukinni hjálp við að byggja upp grunngerð innviða til mótvægis við skuldsettar fjárfestingar í Afríku, Asíu og Rómönsku-Ameríku fyrir milligöngu Kínverja.

Frumkvæðið mun fela í sér „há viðmið, gagnsæi, loftslagsvænt og spillingarfrítt gangverk til fjárfestinga í grunninnviðum í þróunarríkjum,“ sagði bandarískur embættismaður.