[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fasteignaþróunarfélagið Kaldalón hyggst hefja uppbyggingu í Vesturbugt í Reykjavík um áramótin. Þar munu rísa 192 íbúðir og atvinnuhúsnæði.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fasteignaþróunarfélagið Kaldalón hyggst hefja uppbyggingu í Vesturbugt í Reykjavík um áramótin. Þar munu rísa 192 íbúðir og atvinnuhúsnæði.

Tillaga að breyttu deiliskipulagi svæðisins hefur verið samþykkt til auglýsingar en með því fjölgar áformuðum íbúðum um 15-20.

Uppbyggingin sætir tíðindum á fasteignamarkaði. Árin 2018 til 2019 var fordæmalaust framboð nýrra íbúða á þéttingarreitum í miðborginni. Fall WOW air og svo kórónukreppan settu strik í reikninginn hjá verktökum en salan tók við sér í kjölfar vaxtalækkana Seðlabankans í fyrra. Eru nú flestar þessara ríflega 620 íbúða seldar, ef frá eru taldar 70 íbúðir á Austurhöfn en fjöldi seldra íbúða þar er ekki gefinn upp.

Komi á markað um mitt ár 2023

Jónas Þór Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Kaldalóns, segir hönnun Vesturbugtar verða lokið á næstunni. Hefjist framkvæmdir um áramótin sé raunhæft að fyrstu íbúðirnar komi á markað um mitt ár 2023. Samkvæmt því kunni verkefninu að ljúka í árslok 2024.

Í Vesturbugt verði aðallega tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðir. Jarðhæðir verði að mestu „lifandi“ með verslunarrýmum, en þó sé lítillega dregið úr því með nýju deiliskipulagstillögunni.

„Engu að síður er meginþemað að hafa lifandi götumynd á mest áberandi hliðum reitsins sem verður hátt í 20 þúsund fermetrar. Þar af fara liðlega þúsund fermetrar undir verslun og í bílakjallara verða um 190 stæði. Borgin fær hluta íbúðanna, rétt rúmlega fjögur þúsund fermetra, upp í kaupin og mun reka bílastæðahús. Þar verður hægt að leigja langtíma- og skammtímastæði eins og í kjallaranum undir Hörpu. Borgin fær nánast öll stæðin en stæði munu fylgja stærstu íbúðunum sem við seljum á almenna markaðnum,“ segir Jónas Þór.

Langur aðdragandi

Uppbyggingin í Vesturbugt á sér langan aðdraganda.

Sagt var frá því í Morgunblaðinu 8. apríl 2017 að borgarráð hefði samþykkt tilboð VSÓ Ráðgjafar ehf., fyrir hönd Vesturbugtar ehf., í kaup á byggingarrétti og sölu til Reykjavíkurborgar á 74 íbúðum og 170 bílastæðum í bílakjöllurum á tveimur lóðum í Vesturbugt, Hlésgötu 3 og 4.

Síðar í sama mánuði birtist frétt í Morgunblaðinu þar sem sagði að stefnt væri að því að hefja jarðvinnu fyrir lok árs, þ.e. ársins 2017. Framkvæmdir skyldu hefjast innan 15 mánaða frá undirskrift og vera lokið innan fimm ára.

Hinn 22. mars 2019 var fjallað um það í Morgunblaðinu að fjárfestar hefðu hægt á markaðssetningu nýrra íbúða í miðborg Reykjavíkur.

„Má þar nefna Austurhöfn og Hafnartorg. Þá er uppbygging Vesturbugtar við Slippinn ekki hafin en tvö ár eru síðan borgin undirritaði samning um verkið. Fjármögnun er sögð ótryggð,“ sagði í fréttinni.

Kaldalón tók síðan yfir verkið og styttist nú í að það hefjist.