[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pétur Bjarnason fæddist á Bíldudal 12. júní 1941, en faðir hans drukknaði með m/b Þormóði þegar hann var á öðru ári. Fimm ára gamall fluttist Pétur með móður sinni og eldri systur í Tálknafjörð þar sem hann ólst upp.

Pétur Bjarnason fæddist á Bíldudal 12. júní 1941, en faðir hans drukknaði með m/b Þormóði þegar hann var á öðru ári. Fimm ára gamall fluttist Pétur með móður sinni og eldri systur í Tálknafjörð þar sem hann ólst upp. Þá giftist móðir hans Jóni Guðmundssyni, smið, sjómanni og síðar bónda á Sveinseyri. Yngri systir hans, Birna, fæddist 1949. „Skólanámið í Tálknafirði var skemmtilegt. Við vorum tvær vikur í skóla og svo voru aðrar tvær vikur í útsveitinni, en frí hjá okkur, svo það var heilmikið frelsi til að sinna áhugamálum sem voru mörg. Við virkjuðum bæjarlækinn og raflýstum kofann okkar, ég smíðaði skuggamyndavél og sýndi samlímdar ræmur með Gissuri Gullrass með dönskum texta sem ég varð að lesa, þýða og flytja áhorfendum af spegilskrift, því vélin var ekki fullkomnari en það. Svo voru siglingar á tjörnum og pollum og skautasleðar með seglum að hætti Sandhóla-Péturs nafna míns.“

Kennsla og leigubílahark

Pétur var í Héraðsskólanum í Reykholti í Borgarfirði og lauk þaðan landsprófi 1958. „Þar eignaðist ég mikinn fjölda góðra vina og við hittumst flest vikulega enn í dag í gönguferð og kaffi.

Þá tóku við tvö ár við sjómennsku og áfram öll sumur en ég var í Kennaraskólanum 1960-1964. Við vorum tvö ár í skólanum við Laufásveg og tvö ár við Háteigsveginn, sem við köllum enn í dag „Nýja skólann“. Þetta var síðasti óskipti árgangurinn í kennaranáminu og við höfum haldið hópinn allar götur síðan.“

Pétur kenndi í tvö ár við Hlíðaskólann í Reykjavík og lærði þar margt. „Jafnframt tók ég meirapróf ásamt samkennara mínum og vini Edvard Ragnarssyni og við vorum „harkarar“ á kvöldin og um helgar á leigubílum hjá Steindóri.“ Árið 1966 varð Pétur skólastjóri á Bíldudal og sinnti því næstu tíu árin en stundaði sjó á sumrin eftir því sem unnt var. „Ég var einn vetur skipstjóri (og áhöfn) á rækjubát sem ég átti, en ég var einn um borð. Jafnframt þessu var ég í hljómsveitinni Facon í nokkur ár og gekk meðal annars í það að fá útgefna plötu með þremur lögum eftir okkur og einnig eitt með Pink Floyd. Þar kom við sögu Svavar Gests og virðingarvert átak hans í að gefa út plötur með landsbyggðarhljómsveitum. Þessi plata gekk nokkuð vel og eitt lagið, Ég er frjáls, heyrist enn í dag og má heita að sé komið í hóp klassískra dægursmella.“

Næst lá leiðin í Mosfellssveit þar sem Pétur kenndi eitt ár við Varmárskóla og var svo skólastjóri þar í sex ár. Á sumrin fór hann nokkra túra sem rútubílstjóri og leiðsögumaður um hálendið en hann hafði áður lokið námi úr Leiðsöguskólanum með vinnu.

Árin fyrir vestan

„Árið 1983 gerðist ég fræðslustjóri Vestfjarða og fjölskyldan flutti á Ísafjörð þar sem við bjuggum til aldamóta.“ Á Ísafirði tók hann þátt í starfi Litla leikklúbbsins, en hann hafði áður starfað með Leikfélaginu Baldri á Bíldudal og Leikfélagi Mosfellssveitar. Þá stofnaði hann með öðrum Harmonikufélag Vestfjarða 1986 og var varaformaður þess þar til fjölskyldan flutti af staðnum.

„Ég bauð mig fram til þings í annað sæti á lista Framsóknarflokksins árið 1987 og varð varaþingmaður til ársins 1995, þegar ég sagði mig af lista flokksins eftir prófkjör og meiningamun, ekki síst í sjávarútvegsmálum, og bauð mig fram á Vestfjörðum undir merkjum Vestfjarðalistans. Það vantaði þó rúmlega tuttugu atkvæði til að ég kæmist á þing. Árið 1999 gengum við Guðjón Arnar Kristjánsson til samstarfs og vorum með í að koma Frjálslynda flokknum á þing. Ég var þar varaþingmaður allt til 2006. Alls kom ég fjórtán sinnum inn á þingið, lengst í fjóra mánuði í einu í veikindum Ólafs Þ. Þórðarsonar.“

Árið 2000 var Pétri boðið starf sem framkvæmdastjóri SÍBS og hann gegndi því og síðar framkvæmdastjórn Happdrættis SÍBS til starfsloka 2011. Eftir það skrifaði hann sögu SÍBS, Sigur lífsins, SÍBS í 75 ár 1938-2013, en hann hafði stundað nám í sagnfræði í fjarnámi frá HÍ. Síðan hefur hann skrifað og gefið út sex bækur, síðast Suðureyri, athafnasaga.“

Pétur hefur einnig ritstýrt ýmsum blöðum og tímaritum, s.s. Ísfirðingi, Dynjanda, Flóka ferðamálablaði, Gullkistunni, SÍBS blaðinu, Velferð og Slagorði. Pétur var sæmdur gullmerki SÍBS og einnig Hjartaheilla sem viðurkenningu fyrir störf hans í þeirra þágu. Hann hefur verið í stjórn Sambands íslenskra harmonikuunnenda, SÍHU, síðustu sex árin og var um sex ára skeið í stjórn Félags kennara á eftirlaunum, FKE, þar af tvö ár sem formaður.

Fjölskylda

Eiginkona Péturs er Greta Jónsdóttir, f. 3.1. 1942, skrifstofumaður hjá sýslumanninum á Ísafirði og síðar í Reykjavík, dóttir Jóns Jónssonar, leigubílstjóra frá Hunkubökkum á Síðu, f. 9.11. 1896, d. 21.3. 1965, og eiginkonu hans Ásbjargar Gestsdóttur, húsmóður og starfsstúlku, f. 10.2. 1909, d. 16.9. 1980. Börn Péturs og Gretu eru 1) Lára Pétursdóttir, f. 31.1. 1968, verslunarmaður í Reykjavík. Hún er gift Burkna Aðalsteinssyni prentara. Þau búa í Reykjavík. Þau eiga hvort um sig tvö börn frá fyrri hjónaböndum. 2) Bjarni Pétursson, f. 26.11. 1969, rafiðnfræðingur hjá Orkubúi Vestfjarða. Hann bý í Bolungarvík og á þrjú börn. Barnabörn Péturs og Gretu eru fimm og barnabarnabörnin þrjú.

Systkini Péturs eru Halldóra, bóndi á Kvígindisfelli í Tálknafirði, f. 16.6. 1935, d. 27.4. 2012, og

Birna Jónsdóttir, bóndi á Sveinseyri í Tálknafirði, f. 3.1. 1949.

Foreldrar Péturs eru Bjarni Pétursson, sjómaður á Bíldudal, f. 27.1. 1909, d. 17.2. 1943, og eiginkona hans, Hólmfríður Jónsdóttir, húsmóðir og verkakona á Bíldudal og í Tálknafirði, f. 3.2. 1911, d. 19.1. 2010. Stjúpfaðir Péturs er Jón

Guðmundsson, smiður, sjómaður og bóndi á Sveinseyri, f. 14.4. 1905, d. 13.7. 1994.