Sóley Ómarsdóttir fæddist 8. júní 1969. Hún lést 1. apríl 2021.

Útför Sóleyjar fór fram 9. júní 2021.

Það er fallegur vordagur í Uppsölum, eftirvænting og spenna í lofti. Von á fasteignasalanum á hverri stundu enda á að fara að sýna húsið, við á leið heim eftir margra ára búsetu erlendis. Þá hringir síminn, þú ert á línunni og ég heyri strax að það er eitthvað að, fimm ára barátta við krabbameinið hafin.

Ég gat ekki ímyndað mér þegar leiðir okkur lágu fyrst saman í læknadeildinni fyrir nær 30 árum að við yrðum svona nánar vinkonur. Þú svo mikil skvísa, falleg, opin og skemmtileg, á margan hátt ólík mér en samt ekki. Fólk kynnist vel á svona löngum námstíma og er við útskrifuðumst vorum við hluti af nánum hópi sem stórt skarð er nú höggvið í. Þú ákvaðst að sérhæfa þig í barnalækningum, vildir sinna þessum viðkvæma og dýrmæta hópi sjúklinga, sem eftir á að hyggja kom kannski ekki á óvart, dýravinurinn sem þú varst. Veik börn og dýr svo ósjálfbjarga og varnarlaus. Gigtarlækningar barna urðu þitt sérsvið, þú barst hag sjúklinga þinna ávallt fyrir brjósti, samviskusöm og nákvæm.

Við bjuggum í næsta nágrenni hvor við aðra í fleiri ár í Svíþjóð en ég áttaði mig ekki á því hvað þú varst mikill Svíi í þér fyrr en ég sá þig í þessu sænska umhverfi. Þú og fjölskylda þín voru hluti af vinahópi sem varð fjölskylda okkar þarna úti. Við fögnuðum afmælum barnanna, útskriftum og öðrum áföngum og hátíðisdögum í lífinu saman. Þrátt fyrir heimflutning minn fór ég reglulega til Svíþjóðar eða allt þar til Covid skall á og ætíð reyndum við að hittast. Það var alltaf gaman að ræða málin við þig, þú sást hlutina oft frá öðru sjónarhorni, varst ráðagóð og ætíð hreinskilin. Ég fylgdist með baráttu þinni við þennan skæða sjúkdóm, endurteknum aðgerðum, fylgikvillum, aukaverkunum, verkjum og vanlíðan. Ég dáðist að því hvernig þú tókst á við þetta allt af mikilli þrautseigju. Þú hafðir gaman af að hlaupa og æfa og reyndir að byggja upp styrk og þol á milli meðferða. Það var ótrúlegur kraftur í þér, þú sem varst svo fíngerð. Þú lifðir virkilega lífinu og lést sem sjúkdómurinn væri ekki til staðar. Varst á ferð og flugi, stundum á ansi fjarlæga staði en mér stóð ekki alltaf á sama svo veik sem þú varst.

Ástand þitt fór hríðversnandi frá áramótum en það var erfitt að fylgjast með því hvernig sjúkdómurinn tók yfirhöndina og allt stefndi í eina átt. Er kallið kom og gullvagninn sótti þig sit ég eftir með sorg, reiði og söknuð í hjarta. Fjöldinn allur af góðum minningum verður nú svo dýrmætur en ég er einnig þakklát fyrir að hafa kynnst þér, kæra vinkona.

Á þessum tíma sem er liðinn frá andláti þínu hefur hugur minn dvalið oft hjá Guðjóni og börnunum ykkar, Ómari Kára, Írisi og Söru. Ég sendi þeim, foreldrum þínum, systkinum og öðrum aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Hvíl þú í friði yndislega vinkona, minningin mun lifa.

Margrét Agnarsdóttir.

Það er með sorg í hjarta sem við kveðjum elsku Sóley okkar sem nú fer í sína hinstu för. Nú, þegar styttist í árlega sumardvöl okkar fjölskyldunnar í Svíþjóð, er skrýtið að hugsa til þess að þetta sumar verður án Sóleyjar sem hefur verið órjúfanlegur hluti af fjölskyldum okkar og öllum okkar stundum í Svíþjóð.

Þeim sem kynntust henni kom ekki á óvart að hún hafi valið sér að verða læknir því hún var ávallt að hugsa um velferð allra og mátti ekkert aumt sjá. Hún valdi sér barnalækningar sem sérfag og starfaði á Astrid Lindgren-barnasjúkrahúsinu sem er hluti af Karolinska-stofnuninni og varði þar árið 2015 doktorsritgerð um móðurmjólkurnæringu fyrirbura. Hún starfaði auk þess við gigtarlækningar á börnum og var yfirlæknir á því sviði á Karolinska. Hún var í framlínu á sínu sviði og það hefur þurft mikinn styrk til að sameina þessa miklu samúð sem einkenndi hana og erfið tilfelli meðal sjúklinga hennar. Þegar Sigríður, móðir bræðranna, lést nóttina eftir fjölskylduveislu í Stokkhólmi sumarið 2015 þá var það Sóley sem gaf hvergi eftir við að hnoða í hana lífi og síðan þegar orrustan var töpuð, sú eina sem hafði til þess styrk að sjá til þess að Sigga lægi þægilega í rúmi sínu, vel til höfð. Hins vegar birtist samúðin meðal annars í því hversu mikill dýravinur hún var og gerðum við mikið grín að því hvernig hún ofdekraði öll gæludýr sem enduðu í fanginu á henni en sem dæmi fengu kanínurnar ætíð hreinsað og skorið salat af sömu gæðum og fjölskyldan.

Hér sitjum við, slegin yfir þessum endi, og spyrjum af hverju þetta hafi farið svona en vitum ósköp vel að við því fáum við aldrei nein svör. Sóley hafði svo mikið að gefa og miklu að miðla af sinni einstöku innsýn og þekkingu. Hún hafði einstakt lag á að lesa í aðstæður og varpaði iðulega fram spurningum sem gat verið erfitt að svara en hollt að ræða.

Við minnumst allra sumarkvöldanna sem við sátum saman á pallinum og dáðumst að sólarlaginu ásamt því að smella enn einni myndinni af því. Allra vetrarkvöldanna sem við sátum fyrir framan arininn með rauðvínsglas og nutum samverunnar og síðast en ekki síst jólanna og áramótanna síðustu sem veikindin settu óneitanlega mark sitt á. Þá var það að sjálfsögðu engin önnur en Sóley sem sá til þess að það yrði stemning og mætti klyfjuð af alls kyns jólapeysum, áramótahöttum og dóti sem allir voru skikkaðir í og svo var þetta sem betur fer myndað í bak og fyrir. Þegar við lítum til baka áttum við okkur á því hvernig hvert og eitt okkar datt inn í ákveðin hlutverk þegar fjölskyldurnar okkar sameinuðust og þá var Sóley klárlega sú sem sá um íþróttir, heilsu og skemmtanahald í fjölskyldunni.

Við fráfall Sóleyjar er stórt skarð hoggið í okkar litlu fjölskyldu, þó nær hjartarótum þeirra sem stóðu henni næst. Missirinn er mikill en enginn sem þekkti Sóley mun gleyma henni, minning hennar mun lifa.

Guðjóni og börnum þeirra vottum við okkar dýpstu samúð.

Steingrímur og Þórhildur.

Sú harmafregn barst á skírdag að bekkjarsystir okkar Sóley Ómarsdóttir væri fallin frá á besta aldri. Er það þriðja skarðið sem höggvið er í hóp sem taldi 20 nemendur. Blessunarlega vorum við ekki hreinn strákabekkur, þrjár stúlkur björguðu því. Sóley ásamt hinum tveimur lét strákapör og stöðugt mas yfir sig ganga, miklu oftar en skynsamlegt var í kennslustundum. Oftar en ekki var henni þó skemmt og tísti þá í henni af hlátri. Skaust svo og hitti vinkonurnar úr öðrum bekkjum í frímínútunum til að hlaða batteríin. Sóley var hvers manns hugljúfi með hlýtt bros og sindrandi augu, skemmtileg og fjörug. Hún var afburða námsmaður og tók virkan þátt í félagslífinu, virtist hafa lítið fyrir stórgóðum einkunnum í MR. Vorið 1989 skundaði bekkurinn út í lífið eftir mótandi árin í menntaskólanum og hélt til frekara náms. Sóley fór í læknisfræði strax um haustið með mörgum öðrum úr árganginum, því námi lauk hún með glæsibrag.

Meðal heimsókna til Íslands var mæting í stúdentsafmælisfögnuði þar sem fjöldi miðaldra fólks lætur eins og það sé tvítugt aftur. Eins og það eru með eindæmum skemmtilegir endurfundir brá óvæntum skugga á eitt árið. Þegar bekkurinn hittist í 30 ára stúdentsafmælinu fyrir tveimur árum færði hún okkur heilsutíðindin þungbæru af hispursleysi og hugrekki, baráttan við meinið var löngu hafin. Læknirinn Sóley vissi vísast að það gat brugðið til beggja vona. Eðlilegt er að spyrja: hver er sanngirni lífsins? Hún átti eftir bestu ár ævinnar, uppskerutímann sjálfan. Seinni hluta starfsferilsins þegar menntunin og reynslan er verðmætust fyrir samfélagið sem fær krafta hennar ekki notið lengur. Samverustundir með fjölskyldunni biðu ótalmargar. Þess í stað er lífinu lokið þegar seinni hálfleikur var rétt hafinn. Við sem eftir stöndum getum einungis yljað okkur við frábærar minningar frá menntaskólaárunum um fjörugu, kláru og síbrosandi Sóleyju sem setti svo eftirminnilega mark sitt á þessi mikilvægu ár. Foreldrum, systkinum, eiginmanni og börnum hennar vottum við okkar dýpstu samúð. Hvíl í friði elsku Sóley, takk fyrir allt gamalt og gott.

F.h. 6.Y. úr MR 1989,

Egill Tryggvason.

Í dag er góð vinkona okkar borin til hinstu hvílu eftir baráttu við illvígan sjúkdóm sem á endanum hafði betur. Með fráfalli hennar hefur stórt skarð myndast í vinahópinn sem ekki verður bætt. Sóley var ein af þessum einstöku konum sem geta allt, verið eiginkona og móðir, læknir og vísindamaður og auk þess tekið vel á móti vinum og vandamönnum á fallegu heimili fjölskyldunnar í Sollentuna. Jákvæð, glöð og endalaust gaman að hitta. Allar þær óteljandi minningar um ferðalög og samveru sem við áttum með Sóleyju og fjölskyldunni hennar munu ylja okkur um ókomna tíð. Með þessum fátæklegu orðum viljum við votta Guðjóni, Ómari Kára, Írisi, Söru, foreldrum hennar, systkinum og öðrum aðstandendum innilega samúð, bænir okkar og hugsanir eru hjá ykkur á þessum erfiðu tímum.

Elísabet og Einar Jón.