Jóna Sigjónsdóttir fæddist 20. mars 1945 á Móa í Nesjum, uppalin í Bjarnanesi. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjólgarði þann 5. júní 2021.

Foreldrar hennar voru Sigjón Einarsson, f. 1896, d. 1961, og Guðlaug Guðmundsdóttir, f. 1909, d. 1998. Jóna átti þrjú systkini: Snorra, f. 1930, d. 2013, Ingibjörgu, f. 1933, og Þorstein, f. 1939.

Maður hennar er Guðni Karlsson, Smyrlabjörgum, fæddur 6.5. 1947. Börn þeirra eru Hrefna Hjördís, f. 1967, gift Heimi Þór Gíslasyni, f. 1964, og Karl Ágúst, f. 1969, kvæntur Kristínu Gyðu Ármannsdóttur, f. 1969. Barnabörnin eru átta. Hrefna og Heimir eiga Söndru Ernu, Eliths Frey, Trausta Adrian, Heklu Gná og Hilmi Guðna. Kalli og Kristín eiga Guðlaugu Jónu, Maríu Hjördísi og Nönnu Guðnýju. Barnabarnabörnin eru orðin tíu.

Útförin fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 12. júní 2021, kl. 13.

Mig langar að minnast hennar Jónu frænku minnar og góðrar vinkonu með nokkrum orðum. Hún hafði átt við veikindi að stríða nú í fá ár en andlátið kom allt of snöggt og söknuðurinn er mikill. Það er þó gott að vita að hún þurfti ekki að kveljast mjög lengi.

Ég var ung send í sveit ásamt Hönnu systur austur í Hornafjörð. Við fórum með Esjunni þangað og þar tóku á móti okkur tveir föðurbræður okkar. Hanna fór með Olla frænda að Meðalfelli þar sem amma okkar bjó en ég á næsta bæ, Móa, með Sinna frænda. Þeir bræður hétu Þórólfur og Sigjón. Þarna var gott að vera í fallegu sveitinni og þangað fóru öll systkini mín í sveit einhvern tíma og sum í mörg sumur. Pabbi hafði sagt okkur að Nesjasveitin væri fallegasta sveit á Íslandi.

Jóna fæddist á Móa, en fjölskyldan flutti stuttu seinna að Bjarnanesi og þar ólst hún upp. Jóna var ekki fædd þegar ég var þar í sveit en systkinin Snorri, Ingibjörg og Steini voru mínir vinir þar. Lauga mamma þeirra var mér mjög góð og lærði ég margt þar þótt ekki væri ég gömul þá.

Jóna kom til Reykjavíkur 1963 til að vinna í verslun eftir að hún hafði verið nemandi á húsmæðraskóla í Eyjafirði. Þann vetur var hún heimagangur hjá okkur Hilmari og mjög þægileg og hjálpleg mér þegar börnin okkar voru lítil og smá og myndaðist þá vinskapurinn sem hefur haldist allar götur síðan og efldist með árunum.

Ung kynntist hún Jóna honum Guðna sínum frá Smyrlabjörgum í Suðursveitinni og hófu þau búskap á Höfn og þar hafa þau búið síðan. Þau eignuðust börnin sín hana Hrefnu og hann Kalla og hafa alltaf haft nægan tíma fyrir þau og stutt þau vel þegar þörf hefur krafist í þeirra lífi. Mikið hafði hún Jóna gaman af að fylgjast með barnabörnunum sínum og nú síðustu árin litlu langömmukrílunum.

Þau voru mjög samhent hjón og höfðu mjög gaman af að ferðast um landið. Guðni var duglegur að útbúa ferðabíla og fóru þau á marga staði sem voru ekki mjög fjölfarnir á þeim tíma og marga ferðina fóru þau með okkur Hilmar um fjöll og firnindi Austur-Skaftafellssýslu. Að fá að vera í bústaðnum ykkar Guðna á hverju sumri hefur gefið okkur Hilmari mikla ánægju.

Við fjölskyldan kveðjum Jónu með miklu þakklæti og sendum Guðna, Hrefnu, Kalla og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning þín Jóna mín.

Katla, Hilmar og fjölskylda.

Það gerði bara lífið auðveldara og skemmtilegra að hafa átt frænku eins og hana Jónu. Nú er hún farin yfir í sumarlandið. Jóna litla systir hennar mömmu var alltaf hluti af okkur í Hátúni þegar við vorum lítil og eins eftir að við urðum fullorðin. Hún var konan með stóra hjartað. Hún gerði allt fyrir alla og oft óbeðin. Hún var sú sem kenndi okkur að teygja út úr okkur tyggjó og okkur fannst mjög flott þegar hún gat látið smella í þegar hún tuggði tyggjó. Hún var aðsópsmikill dugnaðarforkur. Hún gat líka verið afskiptasöm, en hvaða eldri frænkur eru það ekki? Jóna frænka átti sér líka viðkvæma hlið og hún grét í skírnarathöfnum og sagði að þetta væri svo fallegt. Hún hafði góða kímnigáfu og gat hlegið hátt og innilega að vitleysunni í okkur. Jóna frænka var yngst af sínum systkinum en þau voru Snorri sem er látinn, Ingibjörg mamma okkar og Steini sem lifa systur sína. Þau systkinin bjuggu alla sína tíð á Hornafirði, mamma og Jóna á Höfn og bræðurnir í Nesjum. Jóna var gift Guðna Karlssyni og eftir að þau urðu par um tvítugt var alltaf talað um þau sem eina heild. Það voru Jóna og Guðni. Þau voru þær manneskjur sem gerðu allt fyrir okkur og okkar fólk ef þau mögulega gátu. Það var alltaf mikill samgangur á milli þeirra systra og milli okkar og barna Jónu og Guðna. þegar mesti húsnæðisskorturinn var á Höfn bjuggu þau heima hjá okkur um tíma. Síðan þegar Hrefna og Kalli fæddust þá var nú ekki leiðinlegt að passa þau og skipta sér af þeim sem eldri frænkur þeirra. Seinustu árin fóru Jóna og Guðni til Kanarí og dvöldu lengi í hvert skipti og áttu þar góðan tíma í sól og hita. það er nú dálítið fyndið því Jóna frænka var svo flughrædd. En hún lét sig hafa það. Fyrsta skipti sem hún flaug til útlanda var 1999 þegar við fórum í frænkuferð til Köben. Mamma, Jóna frænka, Valdís, Hafdís, Hrefna, Ingibjörg Erna og Hekla sem laumufarþeginn hennar Hrefnu. Það er yndisleg minning sem við getum yljað okkur við. Í fyrrasumar lögðu þau land undir fót og heimsóttu Vestfirðina á sínum góða húsbíl og áttu frábært frí þrátt fyrir veikindi Jónu. Það var alltaf pláss og verður áfram fyrir okkur hjá Jónu og Guðna þegar við komum á Höfn og það voru ófá skipti sem við fengum að gista í Móakoti. Eftir að Jóna fór að finna til veikinda var aldrei kvartað, en hún var orðin þreytt á því að enginn gat fundið út hvað var að. En hún var samt aldeilis ekki af baki dottin, sat og prjónaði lopapeysur í tugavís og hnésokka á örmjóa prjóna. Hún var líka frábær kokkur og bakari. Ósjaldan var maður nestaður með kleinupoka þegar maður kvaddi. Það er gott til þessa að hugsa hversu samheldin fjölskylda hennar er. Efst í huga okkar systra er þakklæti til hennar og hún var besta frænka sem hægt er að hugsa sér.

Elsku Guðni, Hrefna, Kalli og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur.

Hrífa undir fjósvegg.

Hlátrasköll í fjaska.

Upprúllaðar pönnsur á rósóttum diski.

Fram á lappir sér liggja hundar.

Við pírum augun mót sólinni.

(S. Hafdís Ólafsdóttir)

Þínar frænkur,

Valdís og Hafdís .