Árni Óli Ólafsson frá Suðurgarði var fæddur í Vestmannaeyjum 24. mars 1945. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum 29. maí 2021.

Foreldrar Árna Óla voru hjónin Anna Svala Árnadóttir Johnsen, f. 1917, d. 1995, og Ólafur Þórðarson, f. 1911, d. 1996. Þau Svala og Ólafur eignuðust þrjú börn, Árni Óli elstur, Jóna f. 1946, d. 2008, og Margrét, f. 1960. Dætur Ólafs Þórðarsonar frá fyrra hjónabandi og hálfsystur Árna Óla eru Þuríður, f. 1935, og Ásta, f. 1936.

Árni Óli kvæntist 1966 Hönnu Birnu Jóhannsdóttur frá Reykjavík, f. 1944.

Börn þeirra eru: 1) Ólafur Árnason, f. 1966, kvæntur Guðrúnu Möller, f. 1964. Guðrún átti fyrir soninn Kristófer R. Magnússon, f. 1987, saman eiga þau þrjár dætur, Erlu Alexöndru, f. 1994, Birnu Ósk, f. 1997, og Sylvíu Söru, f. 2001. 2) Jóhann Ingi Árnason, f. 1969, kvæntur Amy Elizabeth Árnason, f. 1973, búa í Bandaríkjunum og eiga þau þrjú börn, Aron James, f. 1996, Alex Jóhann, f. 1998, og Hönnu Elizabeth, f. 2006. 3) Anna Svala Árnadóttir, f. 1971. Sambýlismaður hennar er Anders Lerøy, f. 1975, þau búa í Noregi. Anna Svala á soninn Tómas Árna Johnsen Arnarsson, f. 1996.

Árni Óli fæddist í Vestmannaeyjum og ólst upp í Suðurgarði þar sem foreldrar hans bjuggu nær alla sína búskapartíð.

Árni Óli lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum árið 1961 og hóf nám við Kennaraskólann í Reykjavík sama ár en hætti í því námi eftir rúmt ár, hafði þá prófað að kenna bæði við Barnaskólann í Vestmannaeyjum sem og Gagnfræðaskólann. Ákvað þá að snúa sér að sjómennsku, því starfi sem átti eftir að verða hans vettvangur allt til starfsloka. Hann hóf nám í nýstofnuðum Stýrimannaskóla Vestmannaeyja og lauk þaðan prófi 2. stigs 1967. Var síðan stýrimaður á bátum frá Vestmannaeyjum, lengi sem stýrimaður á Ísleifi VE 63 með Gunnari Jónssyni og á Hugin VE 55 með Guðmundi Inga Guðmundssyni og sonum hans. Einnig var hann á Helgu Jóh VE 41, með Ólafi Kristinssyni og endaði svo sína sjómennsku sem stýrimaður á Ísleifi.

Árni Óli var fjölhæfur íþróttamaður á yngri árum, bæði í frjálsum íþróttum en einkum þó í knattspyrnu með Íþróttafélaginu Þór í Vestmannaeyjum og knattspyrnuáhuginn fylgdi honum allt fram á síðustu ár þar sem hann mætti á flestalla leiki ÍBV-liðsins í Vestmannaeyjum. Þá var hann einnig á yngri árum góður fjalla- og úteyjamaður eins og hann átti kyn til, sótti egg bjargfugla á vorin og veiddi lunda á sumrin.

Útförin fer fram í dag, 12. júní 2021, klukkan 13. frá Landakirkju í Vestmannaeyjum.

Elsku pabbi.

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

unz hittumst við aftur heima.

Ó, elsku pabbi, ég enn þá er

aðeins barn, sem vill fylgja þér.

Þú heldur í höndina mína.

Til starfanna gekkstu með glaðri lund,

þú gleymdir ei skyldunum eina stund,

að annast um ástvini þína.

Þú farinn ert þangað á undan inn.

Á eftir komum við, pabbi minn.

Það huggar á harmastundum.

Þótt hjörtun titri af trega og þrá,

við trúum, að þig við hittum þá

í alsælu á grónum grundum.

Þú þreyttur varst orðinn og þrekið smátt,

um þrautir og baráttu ræddir fátt

og kveiðst ekki komandi degi.

(Hugrún)

Börnin þín

Ólafur, Jóhann Ingi og Anna Svala.

„Hæææ!“ Svona hófust ansi mörg símtöl frá Adda Óla tengdapabba mínum og þá brosti maður. Svo kom iðulega: „Er titturinn heima?“ en þá átti hann við elsta son sinn, hann Óla. Addi Óli var yndislegur maður og dásamlegur afi og var alltaf glaður og kátur og þá sérlega þegar hann vissi að von var á okkur í Suðó því þá vildi hann elda fyrir okkur bestu fiskibollur í heimi eða kjötsúpuna en enginn gerir eins góða súpu og Addi Óli. Helst vildi hann að sem flestir kæmu í heimsókn því hann vildi alltaf gera allt fyrir alla. Leið vel þegar fullt var af fólki í Suðó.

Ég veit að hann myndi ekki vilja hafa mörg orð um sig en ég vil segja takk fyrir allt og kveð hann eins og við kvöddumst alltaf. „Love you.“

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín tengdadóttir

Guðrún Möller.

Elsku besti afi okkar, það er með miklum söknuði og sorg sem við skrifum þessi orð. Það er einstök ást og væntumþykja sem afar og afabörn hafa sín á milli og er þakklætið mikið fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur elsku afi. Allar sögurnar sem þú hefur sagt okkur þegar þú varst á sjó og aðrar fjölskyldusögur sem var alltaf svo gaman að hlusta á. Við vitum að þú verður alltaf til staðar fyrir okkur, þó svo þú sért ekki lengur hér.

Við munum sakna þín alla ævi og verðum ávallt þakklát fyrir hversu heppin við vorum að eiga afa sem var alltaf brosandi, gaf bestu knúsin og nennti alltaf að gera kjötsúpu fyrir okkur þegar við komum til Eyja.

Elskum þig alltaf,

Kristófer, Erla Alexandra, Birna Ósk og Sylvía Sara.

Mágur okkar, Árni Óli Ólafsson, hefur kvatt. Langvarandi sjúkdómurinn veikti þrek hans að lokum en ekki kjarkinn. Nú er tómlegt. Minningar birtast nýjar og gamlar og eru allar á einn veg; Addi Óli var okkur kær. Hann var drengur góður og skemmtilegur, ekki bara á góðum stundum heldur einnig hinum, með sinn smitandi hlátur og vinsemd við aðra, fólki leið vel í návist hans. Þau voru ung og falleg bæði tvö, Hanna Birna systir og Addi Óli, þegar við sáum hann fyrst. Þau fyrstu kynni gátu hafa farið á annan veg en raunin varð, að Addi Óli hefði hreinlega flúið burtu, þegar bróðir þeystist að honum í Zorro-skrúða, ofurhetju þess tíma, í skikkju með grímu og sverð. En Addi Óli haggaðist ekki, hló smitandi hlátrinum og síðan hafa mörg ár liðið. Seinna meir hafði Addi Óli jafnan gaman af misvel heppnuðum uppátækjum hjá systrunum og stríddi okkur að sjálfsögðu. Suðurgarður, fjölskylduhúsið kæra, var ríki Adda Óla. Hafið var athafnasvæði hans. Enginn staður jafnaðist á við Vestmannaeyjar; þar vildi hann vera. Gott var að koma til hans og systur sem tóku vel á móti gestum enda allir velkomnir í Suðurgarð. Ófáir hafa einmitt minningar um að gista hjá þeim á þjóðhátíð. Hvað margir voru í húsinu er ekki auðvelt að muna, bara að það var fullt út úr dyrum. Systkinin Ólafur, Jóhann Ingi og Anna Svala sýna að rætur heimabyggðarinnar eru sterkar og sækja jafnan heim í Suðurgarð. Fullorðinsár eða búseta erlendis breytir því ekki. Nánd systkinanna við foreldra sína er rík og í veikindum Adda Óla afar dýrmæt. Hann var líka glaður með fólkið sitt og fylgdist vel með öllum í hverri fjölskyldu. Addi Óli var í huga okkar systkina sannur sjómaður þótt við þekktum veröld hans úti á sjó takmarkað. Við vissum að hann var traustur og ráðagóður, glaðlyndur og góður félagi í hverju sem var; góðu veðri eða slæmu, með góðan afla eða í brælu. Við þekktum yfirvegun hans og hlýju og þótt hann hafi á ólgandi hafinu þurft að taka á, brast hvorki kraftur hans né þrautseigja. Þessir góðu eiginleikar fylgdu Adda Óla í hörðum veikindum hans. Til hinstu stundar var hann æðrulaus og yfirvegaður: „Ég hef það ágætt,“ sagði hann lengst af. Á kveðjustund er ekki hægt annað en að dást að því hvernig Addi Óli og Hanna Birna systir, kletturinn við hlið hans í öllu, og bílstjórinn einnig, héldu það út að vera stöðugt að ferðast á milli lands og Eyja meðan á meðhöndlun veikindanna stóð. Það gerðu þau án þess að kvarta. Jafnvel þegar óvissa var hvort Herjólfur sigldi eða hvaðan skipið færi, báru þau sig vel. Við dáumst að þrekinu sem þau sýndu í þessum aðstæðum.

Elsku systir, Óli, Jóhann Ingi, Anna Svala og fjölskyldan öll, við samhryggjumst ykkur innilega vegna andláts elskaða Adda Óla. Systrum hans og öðrum ástvinum vottum við innilega samúð. Við þökkum Adda Óla fyrir bjarta og áralanga samfylgd. Kær minningin um hann lifir.

Hrund, Rannveig og Sigurður Rafn.

Við Árni Óli, frændi minn, vorum aldir upp á sömu torfunni, fyrir ofan hraun og lékum okkur saman ungir menn, ásamt öðrum frændum okkar og nágrönnum. Það var alltaf gaman að skokka frá Þorlaugargerði yfir í Suðurgarð, bæði að degi til og kvöldi því alltaf var þar eitthvað um að vera á heimili þeirra Óla og Svölu, frænku minnar, þar sem gott var að koma.

Þegar við eltumst tókum við svo að stunda íþróttir á Suðurgarðstúninu, komum okkur upp sandgryfju til að æfa langstökk, þrístökk, hástökk og stangarstökk og svo urðu hlaupin ekki út undan. Þó svo ég væri heilum þremur árum eldri en Árni Óli og tveimur árum eldri en Árni Johnsen, frændi okkar sem einnig var með okkur í þessu, þá stóðu þeir mér báðir framar í öllum tegundum frjálsra íþrótta, sem og fótbolta sem við einnig iðkuðum. Þeir náðu báðir langt í fótboltanum, báðir Þórarar; ég náði hvað lengst í að verða varamarkvörður í þriðja flokki hjá Tý.

En svo höfðum við Addi Óli báðir nokkurn áhuga á golfi. Jón Svan Sigurðsson, seinna í Svansprenti, var kvæntur Dússý, systur hans; þau komu oft til Eyja að Suðurgarði og þá kom Svan, sem var góður golfleikari, ávallt færandi hendi og gaf okkur frændum golfkylfurnar sem hann var hættur að nota. Og við komum okkur upp fjögurra holna golfvelli á Suðurgarðstúninu, fyrsta flötin var akkúrat á planinu þar sem nú stendur Gvendarhús; svo var slegið af hólnum niður í lautina og svo aftur suður eftir að Suðurgarði og svo austur túnið. Addi Óli hélt ekki áfram í golfinu en ég gerði það allmörgum árum seinna.

Að loknu skyldunámi atvikaðist svo að við frændur ákváðum báðir að setjast á bekk í Kennaraskólanum, árið 1961, hann eftir að hafa lokið landsprófi frá Gagnfræðaskólanum og ég eftir gagnfræðapróf og vélskólapróf og að hafa verið tvö ár á sjó. Saman vorum við svo í námi, ásamt Adda, frænda okkar, í Reykjavík í tæp tvö ár en þá skildi leiðir. Addi Óli fann sig ekki í kennaranáminu og ákvað að halda á nýjar brautir, fór á sjóinn, þaðan í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum þar sem hann lauk prófi og stundaði síðan sjóinn og gat sér gott orð þar.

Reyndar áttu leiðir okkar eftir að liggja saman þar alloft, ég var með honum til sjós á Ísleifi VE í Norðursjónum, Hugin VE á Vestfjarðamiðum og svo á Helgu Jóh á trolli hér heima. Addi Óli frændi minn var afskaplega fær í sínu starfi enda vel liðinn af sínum skipsfélögum.

En líklega eru eftirminnilegustu samverustundirnar tengdar þjóðhátíð. Um margra ára skeið var það fastur liður að við tjölduðum saman á fimmtudegi fyrir þjóðhátíð, við Árni Óli, Bjarnhéðinn Elíasson og Ólafur Kristinsson. Eftir tjöldun, að loknum ýmsum misgóðum athugasemdum frá þeim Bjarnhéðni og Ólafi, var síðan haldið heim til einhvers okkar þar sem glaðst var við söng og gítarspil og góðar veigar í hófi. Þar með var þjóðhátíð hafin.

Um leið og ég kveð þig, kæri frændi, votta ég Hönnu Birnu og börnum samúð okkar Katrínar. Ég veit að við eigum eftir að hittast aftur hinum megin og vona að þú sért farinn að gera klárt fyrir það.

Sigurgeir Jónsson.