Sveinn Eyjólfur Tryggvason, oftast kallaður Eyfi, fæddist á Sjúkrahúsi Patreksfjarðar 26. maí 1972. Hann lést af slysförum í Patreksfirði 30. maí 2021.

Foreldrar hans eru Erla Þorsteinsdóttir, f. 8.8. 1945, og Tryggvi Eyjólfsson, f. 19.9. 1927, d. 30.7. 2017. Systkini: 1) Þorsteinn Gunnar, f. 21.5. 1971. 2) systir samfeðra, Guðrún Barbara, f. 15.2. 1958, maður hennar er Guðjón Sigurbjartsson, dætur þeirra eru Sigrún Lilja, f. 19.12. 1981, og Dóra Björt, f. 19.6. 1988. 3) systir sammæðra, Hrefna, f. 9.9. 1964, dóttir hennar og fv. manns hennar Nedim Duran er Erla Hezal Duran, f. 21.10. 1990.

Eftirlifandi eiginkona Sveins er Margrét Brynjólfsdóttir frá Stafholti í Borgarfirði, f. 19.6. 1970. Foreldrar hennar eru Áslaug Pálsdóttir, f. 1.5. 1940, og Brynjólfur Gíslason, f. 26.12. 1938, d. 7.9. 2020. Systkini Margrétar eru: 1) Ásta, f. 5.1. 1965, maður hennar er Þorsteinn Jónsson, þau eiga samtals fjögur börn. 2) Guðný, f. 30.12. 1975, maður hennar er Stefán Haukur Erlingsson, þau eiga tvö börn. 3) bróðir sammæðra, Páll Jökull Pétursson, f. 18.12. 1959, kona hans er Auður I. Ottesen, þau eiga samtals fjögur börn. Börn Eyjólfs og Margrétar: 1) Vilborg Líf, f. 8.10. 2005, 2) Tryggvi Sveinn, f. 22.7. 2007, 3) Hekla Margrét, f. 16.5. 2011, og 4) Dalrós Ása Erla, f. 25.2. 2014. Börn Margrétar úr fyrra hjónabandi: 5) Edda Sól, f. 2.7. 1997, 6) Saga, f. 28.1. 2000, og 7) Halldór Jökull, f. 26.5. 2002.

Sveinn Eyjólfur ólst upp á Lambavatni á Rauðasandi ásamt foreldrum og systkinum. Að loknu grunnskólanámi við Heimavistarskólann í Örlygshöfn árið 1987 nam hann við Héraðsskólann í Reykholti árin 1987-´89. Þá tók við búfræðinám við Bændaskólann á Hvanneyri 1989-´91 og síðar nám við grunndeild rafiðna 1991-´92 við Iðnskólann á Ísafirði. Hann lauk burtfararprófi í rafvirkjun við framhaldsdeild rafvirkja í Iðnskóla Reykjavíkur árið 1994 og hlaut viðurkenningu fyrir frábæran námsárangur. Árin 1995-´97 starfaði hann meðfram námi við Iðnskólann í Reykjavík við hlið læriföður síns, Leifs Sigurðssonar rafvirkjameistara. Sveinsprófi í rafvirkjun lauk hann í júní 1997. Samhliða iðnmeistaranámi í rafvirkjun, sem hann lauk árið 1998, stundaði hann fullt nám til tæknistúdentsprófs.

Árið 1998 réðst hann til starfa við fyrirtækið Rafskaut á Ísafirði og starfaði bæði þar og við útibúið á Patreksfirði til 2003 þegar hann leysti til sín meistararéttindi. Hann vann áfram fyrir Rafskaut í ýmsum verkefnum þar til hann stofnaði eigið rafvirkja- og rafeindavirkjafyrirtæki, Eyfaraf ehf., 2005. Verkefnin voru margvísleg og sístækkandi fyrirtækið þjónustaði stórt svæði á sunnanverðum Vestfjörðum. Fyrirtæki sitt rak hann óslitið til dauðadags og við það störfuðu þrír fastráðnir starfsmenn þegar mest lét.

Eyjólfur var formaður björgunarsveitarinnar Bræðrabandsins í Rauðasandshreppi sl. 20 ár, jafnframt því að vera virkur liðsmaður i björgunarsveitinni Blakk á Patreksfirði.

Hann var afar öflugur sigmaður og stundaði eggjatöku í Látrabjargi í tæp 30 ár, lengstum við hlið vinar síns Kristins Guðmundssonar og fleiri, bæði frá sjó og með sigi.

Eyjólfur var menntaður í svæðisleiðsögn á Vestfjörðum og eftirsóttur leiðsögumaður um torfærar slóðir svæðisins enda afar öruggur, fótviss, sterkur leiðtogi og sagnamaður.

Þann 8.8. 2008 voru Eyjólfur og Margrét gefin saman af sr. Brynjólfi, föður Margrétar, í Saurbæjarkirkju á Rauðasandi. Þau stofnuðu heimili í Sigtúni 4 á Patreksfirði með börnum sínum sem urðu sjö.

Útför hans fer fram frá Patreksfjarðarkirkju í dag, 12. júní 2021, klukkan 14.

Maí er mánuðurinn þar sem fegurð lífsins verður svo undurtær á Lambavatni.

Sóleyjar og fíflar spretta upp úr jörð um leið og kartöflur fara í mold. Lömbin trítla um tún í fylgd mæðra sinna, og kunnugleg hljóð kríu, lóms og æðarfugls eru kærkomin sönnun þess að vorið sé komið með birtu og yl.

Og maí er líka mánuðurinn þar sem fyrir hálfri öld fæddust tveir langþráðir ættarlaukar á Lambavatni. Þessir áþekku og samrýndu glókollar eru þó ekki tvíburar eins og sumir halda. Á milli Lambavatnsbræðranna Steina og Eyfa eru nefnilega heilir 370 dagar.

Atorkusamir ungir bræður fara hratt yfir og hafa strax ýmsu að sinna. Jafnvel helst til of mörgu finnst eldri systur þeirra sem má hafa sig alla við að elta uppi sína fótfráu bræður sem þykja snemma með kraftmestu smábörnum sveitarinnar. Náttúran, skepnurnar, fuglarnir og vélarnar fanga fljótt alla athygli. Það þarf að máta sig við öll bústörf þótt ekki séu piltarnir háir í loftinu.

Eftir því sem árin líða fer Sveinn Eyjólfur, sá yngri, að auka hraðann og finna þörf til að taka forystuna án þess þó að vilja stinga fólkið sitt af. Ekki er annað hægt en fylgja honum eftir, smitast af einlægum áhuganum á öllu sem fyrir augu og eyru ber og læra að sjá ljósið. Strax pínulítill má hann til með að sýna öðrum það fallega sem hann hefur uppgötvað svo fleiri megi njóta. Ljósmynd í litlum ramma af svipmiklu sveinbarni í síðum skírnarkjól með einstaklega breitt bros stendur í hillu með öðrum ljósmyndum. Þegar sól skín skært á suðurglugga tekur þriggja ára snáðinn myndina af sjálfum sér úr hillunni og setur í gluggakistuna. „Af hverju ertu að fara með myndina af sjálfum þér út í glugga Eyfi minn?“ spyr mamma. „Af því ég vil að litla barnið sjái sólina“.

Og þetta fallega guðsbarn átti svo sannarlega eftir að sjá sólina og endurvarpa birtu hennar á allt og alla. Í maí er fegurð lífsins svo undurtær á Lambavatni þegar náttúran vaknar eftir veturinn og lífið fer á stjá. Aldrei fyrr hefur myrkur hellst yfir í maí og sólin horfið eins snöggt og nú. Við stöndum máttvana í þessu þykka myrkri og syrgjum einstakan son og bróður sem var hrifsaður frá okkur á einu augabragði. Það eina sem við getum gert er að þakka fyrir að hafa átt þennan dásamlega dreng í 49 ár og mega fylgjast með honum lifa áfram í fallegu vel gerðu börnunum sínum sem sannarlega áttu „besta pabba í öllum heimi“ eins og þau segja sjálf.

Hjartans Eyfi okkar hvílir nú í bjartasta ljósi allra ljósa. Megi það umvefja hann um alla eilífð og lýsa okkur leið út úr myrkrinu svarta svo öll börnin stór og smá geti aftur séð sólina.

Mamma, Hrefna og

Þorsteinn (Steini).

Ég hitti Svein Eyjólf „Eyfa“ í fyrsta sinn 1983 þegar við Guðrún Barbara Tryggvadóttir, konan mín og hálfsystir hans, komum í fyrsta sinn saman að Lambavatni á Rauðasandi með Sigrúnu Lilju dóttur okkar tveggja ára að heimsækja Tryggva pabba Guðrúnar, Erlu, Hrefnu, Þorstein og Eyjólf hálfbræður Guðrúnar. Eyfi var þá 11 ára. Það var gott, áhugavert og skemmtilegt að koma að Lambavatni enda tengslin sterk, heimilisfólkið fjölfrótt, náttúran fögur og margt hægt að gera og upplifa, enda urðu heimsóknirnar reglulegar næstu árin.

Það leyndi sér ekki að Eyfi var jákvæður, bjartsýnn, kraftmikill, óhræddur og næm mannvera sem lagði ævinlega gott til málanna og sleppti því neikvæða, eiginleikar sem nýtast vel í flestum aðstæðum og það gerðu þeir svo sannarlega kringum Eyfa.

Eftir grunnskóla í sveitinni fóru þeir Eyfi og Steini í Búnaðarskólann á Hvanneyri. Síðar fór Eyfi í rafvirkjanám til Reykjavíkur. Að námi loknu réð Eyfi sig sem rafvirkja á Patreksfirði. Meðfram vinnunni stundaði Eyfi skokk með félögum á Patreksfirði. Það var að vonum því hann var eins og fleiri Vestfirðingar léttur á sér og einstaklega úthaldsgóður í langhlaupum.

Skokkið á Patreksfirði var ekki bara gott líkamlega og andlega, það varð afdrifaríkt fyrir Eyfa. Meðal driffjaðra í hópnum var nefnilega verðandi konan hans hún Margrét Brynjólfsdóttir sjúkraþjálfari. Þau vissu það ekki þá, en urðu fljótt góðir kunningjar. Síðar þegar aðstæður höfðu breyst í lífi beggja þurfti Magga á þjónustu rafvirkja að halda og leitaði eðlilega til Eyfa sem veitti hana glaður, fúslega eins og ævinlega.

Eftir nánari kynni fóru þau saman í ævintýraferð til Egyptalands. Hápunktur ferðarinnar var trúlofun þeirra í heillandi fornum pýramída!

Trúlofunin var heillaskref fyrir þau bæði. Margrét átti fyrir þrjú mannvænleg börn, Eddu, Sögu og Halldór. Á næstu árum komu börnin þeirra frábæru, Vilborg, Tryggvi, Hekla og Dalrós, hvert öðru myndarlegra og efnilegra. Foreldrarnir gátu ekki verið heppnari með börn og börnin gátu ekki verið heppnari með foreldra.

Eyfa farnaðist vel atvinnulega enda duglegur og ósérhlífinn. Eftir nokkurra ára vinnu hjá öðrum stofnaði hann „Eyfaraf“ sem dafnaði vel næstu árin með góðu samstarfsfólki og nægri eftirspurn enda uppgangur á Vestfjörðum.

Meðfram tók Eyfi þátt í búskapnum á Lambavatni. Stundum urðu dagarnir langir og lítið sofið sumar nætur. Eyfi var svefnléttur og gerði allt með bros á vör.

Eyfi var öflugur félagi í Slysavarnadeildinni Bræðrabandinu og seig oft með sveitinni í Látrabjarg. Þá leiðsagði Eyfi gönguhópum um hinn fagra Rauðasand og nágrenni, meðal annars Látrabjarg, Sjöundaá, Skor og surtarbrandsnámuna undir Stálfjalli.

Við Guðrún Barbara og fjölskylda þökkum góða samfylgd og vottum Margréti og börnunum, stórfjölskyldunni allri og þeim fjölmörgu sem tengdust Eyfa, djúpa samúð við fráfall frábærs manns. Hans verður sárt saknað en minningin lifir.

Guðjón Sigurbjartsson og Guðrún Barbara Tryggvadóttir.

„Erla, viltu koma og fá lýsi?“ Með þessum orðum vakti Eyfi litla úfna systurdóttur sína hvern morgun í mörg ár. Á meðan mamman svaf aðeins lengur skottuðust þau tvö fram í eldhús og fengu sér lýsi eins og það væri helg athöfn. Þegar morgunverkum var lokið fékk sú úfna far með frænda sínum í gula bílnum alla leið úr Vesturbæ Reykjavíkur á leikskólann í Laugardal. Stundum voru þau komin á undan starfsfólki og það var eiginlega skemmtilegast. Þá biðu þau í bílnum og bjuggu sér til litla og ófyrirsjáanlega spennusögu. Þótt vetur væri slökktu þau á vélinni í bílnum líkt og stóð að ætti að gera á skilti fyrir framan leikskólann. Svo byrjaði samtalið milli blíða brosmilda frændans og leikskólastelpunnar: „Hvenær koma þær? Hver skyldi mæta fyrst? Ætli þær verði ekki undrandi að sjá að við erum komin á undan?“ Þetta voru stuttar spennusögur, því svo opnaði leikskólinn og þau tvö héldu hvort í sína áttina. Mikið ósköp leit sú stutta upp til Eyfa frænda síns. Hún fékk að potast með honum í gula bílnum hingað og þangað meðan hann var í námi og vinnu í borginni og aldrei nokkurn tímann leið henni öðruvísi en að hún ætti fullt erindi með honum hvert sem hann fór. Á sumrin dvaldi hún í sveitinni hjá ömmu og afa þar sem Eyfi var alla tíð með annan fótinn. Þegar hann kom yfir fjallið var líkt og sólin kæmi upp. Hann var nefnilega sem sól í lífi allra sem kynntust honum og breiddi gleði yfir þá sem á vegi hans urðu. Gleðin var honum áreynslulaus og einlæg. Það var bara ekki hægt að vera lengi í vondu skapi ef hann var nálægt, því þessi Eyfagleði var svo einstök. Hann hafði lag á að sjá hið góða í fólki og gera gott úr erfiðum aðstæðum. Það var líka sama hvert verkið var, það varð skemmtilegra og áhugaverðara með Eyfa. Um leið var hann vísindalega þenkjandi, vildi þekkja staðreyndir áður en hann myndaði sér skoðun og kaus að gaspra ekki um mál sem hann þekkti ekki vel til.

Að ætla að lýsa Eyfa í fáum orðum, þessu sterka og mótandi náttúruafli, er ekki vinnandi vegur. Hann veitti frænku sinni öryggiskennd í hvert sinn sem hún leitaði ráða hjá honum. Og þau skiptin hafa aldeilis verið ófá þau síðastliðin þrjú ár sem úfna systurdóttirin hefur búið á Lambavatni. Alltaf hægt að leita til Eyfa sem kom út í sveit þegar á þurfti að halda eða veitti ígrundaða símaráðgjöf á meðan mátti heyra hann vinna af kappi í sínum störfum. Hann hafði svar við öllu, lausnamiðaður og örlátur á tíma sinn og visku, ósérhlífinn, umhyggjusamur og virkilega fyndinn. Eftir situr lítil úfin stelpa sem saknar frænda síns meira en orð fá lýst og veit að hún mun aldrei kynnast manneskju eins og Eyfa.

Á bernskuárunum sló Eyfi tóninn fyrir daginn svo meira að segja ein skeið af lýsi varð spennandi. Nú er komið að okkur sem eftir stöndum að breiða út þessa lífssýn. Ég skal gera mitt besta við að leiðbeina litla syni mínum og öðru samferðarfólki við að lifa í ljósinu eins og elsku Eyfi minn.

Erla Hezal.

Elsku Eyfi okkar, dásamlegi, fallegi og góði frændi okkar er farinn frá okkur allt allt of fljótt. Skarðið sem Eyfi skilur eftir sig ristir djúpt. Þetta er harmur fyrir samfélagið allt, fyrir vini, fjölskylduna. Sérstaklega þó fyrir elsku Möggu okkar og börnin sjö. Fyrir mömmu okkar og systkinin sem missa yndislegan bróður sinn. Áfallið er mikið og skrefin þung. Því ná engin orð almennilega utan um hve mikill missir þetta er. Eftir situr tómleiki og margar spurningar.

Stundum er sagt að fallegustu sálirnar hafi stærri erindagjörðum að sinna handan okkar tilveru og á stundu sem þessari yljar það. Hann Eyfi var jú algjörlega einstök mannvera. Tær og björt sál sem lýsti upp hversdag okkar hinna. Hlýr og einlægur með hlátur og bros sem gat hreyft við jafnvel köldustu hjörtum. Ævintýragjarn, skemmtilegur, sagnamaður mikill eins og afi. Hjálpsamur með eindæmum, góður við alla, vinur vina sinna. Kannski var verkefnunum bara lokið hér. Búið að koma glæsilegum og dásamlegum börnum á legg, byggja brýr milli fólks. Skapa svo margt gott og ekki síst margar yndislegar stundir. Eyfi lifði lífinu sannarlega lifandi og af fullum krafti. Fulla ferð áfram, ekkert stopp!

Í heimsókn einni á Patreksfjörð fannst honum það ágætisráðstöfun á tíma að fara, þegar gengið var fram yfir miðnætti, með gesti sínum frænku sinni niður á höfn til að horfa á skipin landa fengnum, jafnvel eftir langan vinnudag og mikið fjölskylduumstang. Það væri jú svo skemmtilegt að verða vitni að öllum þessum fisktegundum og skoða mismunandi útlit þeirra og munstur, stærð og gerð. Fá jafnvel eins og eina löngu og gera svo að henni í eldhúsinu þegar langt var liðið á nóttina. Fjörið og upplifunin í fyrirrúmi. Ekkert nema núið.

Minningin birtir áfram upp skammdegið. Eyfi er enn með okkur. Í hjörtum okkar, allt í kringum okkur í afrekum sínum og anda.

Það verður skrítið að heimsækja ættaróðalið á Rauðasandi og hafa engan Eyfa og engan afa heim að sækja. En við eigum hvort annað sem eftir lifum til að halla okkur upp að. Hlæja saman, gráta saman. Segja sögur af þínu ævintýralega lífi þótt allt of stutt hafi verið, elsku Eyfi. Þú ert okkur öllum innblástur. Nýtum tímann sem við höfum vel, lifum eins vel og þú.

Elsku Margrét okkar og öll fallegu börnin ykkar sjö, megi allir heimsins og jarðarinnar góðu straumar og vættir styrkja ykkur á þessum óbærilegu tímum.

Elsku Eyfi okkar. Ljósið þitt mun ávallt vera með okkur. Minningin lifir í hjörtum okkar og allt um kring. Knúsaðu afa fyrir okkur.

Sigrún Lilja Guðjónsdóttir og Dóra Björt Guðjónsdóttir.

Lítill drengur ljós og fagur kemur hlaupandi á móti mér þegar ég kem í heimsókn á Lambavatn. Það er bara ár á milli þeirra bræðranna og þegar þeir voru litlir var oft líf í tuskunum. Eitt sinn leiddist þeim hvað frænka svaf lengi svo þeir gripu til sinna ráða, skutluðu í mig nokkrum pullum úr sófanum og hlógu dátt.

Eyfi frændi minn var glókollur og alltaf brosandi og glaður. Brosið átti eftir að fylgja honum alla tíð.

Bræðurnir uxu úr grasi og voru dugnaðardrengir. Seinna völdu þeir hvor sitt fagið, Eyfi fór í rafvirkjun en Steini tók vélvirkjun.

Eyfi frændi stofnaði seinna sitt eigið fyrirtæki á Patró, Eyfaraf, sem blómstraði og dafnaði enda eftirsóttur og allir vildu fá hann í verkið.

Eitt sinn man ég að Erla systir sagði mér frá bónda á Barðaströnd sem vildi fá Eyfa en þá var hann upptekinn. Erla sagði geturðu ekki fengið einhvern annan? Þá sagði bóndinn: Ef ég fæ ekki hann Eyfa þá vil ég engan.

Eyfi hitti ástina sína líka á Patreksfirði hana Möggu og var það mikil gæfa og eignuðust þau 4 mjög mannvænleg börn. Þau eru öll bráðefnileg, spila á hljóðfæri og stunda íþróttir af kappi. Það hefur verið svo yndislegt að fá að fylgjast með þeim þroskast og dafna og hef ég oft hugsað hvað það er yndislegt þegar lífið brosir við manni.

Eyfi var mikið náttúrubarn og fór oft í ferðir með ferðamenn um þekktar þjóðleiðir milli byggða fyrir vestan. Hann seig líka í björg og var óhræddur að takast á við erfiðar áskoranir. Það var svo gott að vera í návist Eyfa, hann fann svör við öllu og hvatti mann áfram. Hann trúði á hið góða og tók að sér hvert verkefnið sem lífið bar honum. Börnum sínum var hann einstakur faðir og sinnti þeim af alúð og nærgætni.

Eyfi hafði líka áhuga á því sem maður var að fást við og vildi fá að vita hvernig gengi.

Man eftir yndislegum stundum úr fermingunni hennar Vilborgar Lífar, þá fór ég vestur og Eyfi fékk gistingu fyrir mig á Patró. Hugsaði fyrir öllu og mundi eftir öllum. Þessi stund lifir í minningunni, Eyfi og Magga svo stolt af dótturinni og kirkjan full af prúðbúnum veislugestum. Gleði og hamingja.

Þessi stund verður geymd í minningunni og óskandi að þær hefðu verið fleiri.

Það eru fáir sem eru jafnfjölhæfir og hann Eyfi frændi minn. Hann gat lagt rafmagn hvort sem er í hús eða skip. Gerði við alls konar tæki og smíðaði hús. Leysti hvers manns vanda með bros á vör.

Hittumst síðast þegar Eyfi kom með Erlu systur suður í smá heimsókn og daginn eftir var farið að skoða gosið.

Langar að senda Erlu, Erlu Hezal, Hrefnu, Steina, Guðrúnu Barböru, Möggu og börnunum innilegar samúðarkveðjur. Megi góður guð vera með ykkur.

Hvernig getur veröldin verið svona grimm að hrifsa hann í burtu? Skil það ekki. Hugga mig við að nú hittast þeir pabbi og hann og leggja á brattann. Báðum kippt í burt allt of fljótt.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Katrín Þorsteinsdóttir.

Í dag verður borinn til grafar Sveinn Eyjólfur Tryggvason, elskulegur mágur minn og vinur. Fréttirnar sem okkur bárust af andláti hans síðla sunnudags krömdu hjarta okkar og allra sem til hans þekktu. Einhvers staðar hlýtur að hafa verið rangt gefið og vitlaus forgangsröðun, að hann skyldi falla frá á besta aldri, frá henni Möggu sinni og börnunum sjö, er svo ólýsanlega sorglegt og óréttlátt.

Hann Eyfi var einn af bestu mönnum sem ég hef kynnst um ævina, brosið hans sem heillaði alla, fallegu augun sem lýstu upp umhverfi sitt og hjálpsemin sem allir vinir hans þekktu. Hann var alltaf glaður og viljugur að hjálpa öðrum, mikill útivistarmaður og fjallageit. Bjargsig í Látrabjargi og svartfuglseggin toguðu í hann á vorin, og eitt sinn fór ég með honum og Þorsteini og Stefáni mágum mínum út á Látrabjarg. Hann ætlaði aðeins að skreppa í bjargið og ná í fáein egg, og á meðan ætlaði ég að fara að taka myndir af lundanum á bjargbrúninni. Þeir settu út bát og ég hélt mína leið og kom svo til baka 2-3 tímum síðar og hélt að þeir hlytu að vera komnir til baka, en nei, það liðu margar klukkustundir þar til þeir komu með drekkhlaðinn bát af eggjum löngu eftir miðnætti, það var svo erfitt að hætta. Gönguferðir um fjöll og firnindi á sumrin var eitt af hans áhugamálum og þekkti hann Barðaströndina eins og lófann á sér, „besti leiðsögumaður á Íslandi“, sagði einn vina hans við mig.

Ég hitti Eyfa í fyrsta sinn á bílastæði á Kirkjubæjarklaustri þar sem Magga systir kynnti okkur. „Þetta er hann Eyfi minn,“ sagði hún brosandi. Við hittumst þarna fyrir algera tilviljun, þau Magga og Eyfi á vesturleið og við Auður á austurleið. Við fengum okkur kaffisopa saman og héldum svo hvor í sína áttina á ferðum okkar um landið, og samverustundirnar áttu eftir að verða margar og ánægjulegar á komandi árum. Barnahópurinn er stór og íþróttir hafa leikið stórt hlutverk í fjölskyldulífinu, og ferðir á Landsmót UMFÍ eru þar fastur liður, og Eyfi tók þátt í því starfi af lífi og sál. Þegar Landsmótin hafa verið haldin á Selfossi gistu þau Eyfi og Magga hjá okkur með allan barnaskarann, og það var tjaldað í stofunni svo að börnin fengju herbergi út af fyrir sig.

Kæri mágur. Við kveðjum þig með þunga sorg í hjarta, en jafnframt gleði yfir að hafa fengið að kynnast þér og þínu jákvæða viðhorfi til lífsins, við gætum öll lært svo mikið af þér. Elsku Magga, Edda Sól, Saga, Halldór Jökull, Vilborg, Tryggvi, Hekla og Dalrós, megi góðu minningarnar ylja ykkur og styrkja í sorginni.

Páll Jökull Pétursson.

Hann var ekki margra daga gamall þegar ég sá hann fyrst en þá geislaði af honum og gerði það alltaf eftir það. Nú hefur þessi geisli slokknað og margir sitja daprir eftir.

Eyfi frændi minn á Lambavatni var strax sérstakur strákur, fullur af lífi, geislandi af gleði, framtakssamur og úrræðagóður. Þessir eiginleikar fylgdu honum alla ævi enda eindæma vinsæll og hjálplegur maður.

Þeir voru ekki háir í loftinu Eyfi og Steini bróðir hans þegar þeir komu einn vordag heim drullugir upp fyrir haus. Þeir höfðu fundið borna þrílembu á skurðbakka og eitt lambið hafði dottið í skurðinn og kindin jarmandi á skurðbakkanum. Þeir voru ekki úrræðalausir, Eyfi teygði sig niður en náði ekki til lambsins svo Steini hélt í lappirnar á Eyfa og lét hann síga niður í djúpan skurðinn og náði hann þá taki á lambinu og síðan dró hann lambið og Eyfa upp á bakkann. Drullugir voru þeir en ánægðir með sig og pabbinn stoltur af drengjunum sínum. Svona unnu þeir alltaf eins og einn maður og hafa alltaf fylgst að.

Eyfi líktist Vilborgu ömmu sinni mikið, bæði í útliti og einnig þannig að hann labbaði helst aldrei, hljóp alltaf við fót eins og amma hans. Hjá honum var það sama hvort það var á sléttlendi eða í klettum, hann var jafnvígur á hvort tveggja og snemma beygist krókurinn. Hann var ekki nema fjögurra eða fimm ára þegar ég var gestkomandi á Lambavatni og fékk að sækja kýrnar. Eyfi kom með og sýndi mér á leiðinni hve duglegur hann var orðinn að klifra, kleif Draugastein, Rennirassastein og fleiri stóra steina. Hann varð sem fullorðinn maður einn besti klettamaður og sigmaður á svæðinu.

Eyfi fékk afar gott uppeldi, honum og Steina var innrætt allt það besta sem foreldrar geta innrætt börnum sínum; kurteisi, dugnað, sjálfstæði og virðingu fyrir sér og öðrum auk takmarkalausrar virðingar fyrir náttúrunni. Ég veit að Eyfi hefur innrætt sínum börnum allt þetta og mótað þau á fallegan hátt og þau eiga minningu um einstakan föður.

Stundum er sagt að „menn séu af gulli“. Ég held að þetta eigi ekki betur við nokkurn mann en Svein Eyjólf, hann vildi allt fyrir alla gera og ávallt tilbúinn að aðstoða alla og taka þátt í öllu starfi í sinni heimabyggð. Ég velti því stundum fyrir mér hvernig hann hafði tíma til að framkvæma allt sem hann gerði því aldrei sagði hann nei.

Það er ekki auðhlaupið að fylla hans skarð í samfélaginu og grun hef ég um að það þurfi marga til að gera það.

Við sitjum eftir með tár á hvarmi og spyrjum okkur sjálf, af hverju var hann tekinn svo ungur frá okkur. Líklegt er að honum hafi verið ætlað eitthvert stærra hlutverk.

Kæra Margrét, börn, Erla og systkini Eyfa, ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar allra vegna fráfalls eins dyggasta og besta sonar Rauðasands.

Daníel Hansen.

Börnin sem fæðast litlum systkinum sínum

eins og ljós sé kveikt,

eins og fyrstu blóm vorsins

vakni einn morgun.

Ef þau deyja,

hverfa þau til guðs,

eins og draumur,

sem aldrei gleymist.

(Jón úr Vör)

Elskulegur frændi minn, Sveinn Eyjólfur Tryggvason, gleymist engum sem hann þekktu. Hann gleymdi heldur engum sem hann mætti á lífsins leið. Hann mundi allt og alla, kunni allar sögur sem honum höfðu verið sagðar, þekkti alla í sveitinni sinni og þorpinu og allir þekktu hann.

Það þarf þorp til að ala upp barn, segir afrískt máltæki. Þorpið ól Eyjólf upp, en þorpið fékk líka ríkulega til baka. Samfélagið allt fékk notið hjálpsemi hans og náungakærleika. Sólskinsbrosið hans var allra. Þess vegna ríkir sorg í þorpinu og í sveitinni.

Er hægt að hugsa sér fegurri sveit en Rauðasand? Og er hægt að hugsa sér tignarlegra náttúruundur en Látrabjarg? Minningin um Eyfa, sem leiðsögumann um þessar undralendur, yljar í sorginni. Í huganum stendur hann við stýrið á uppblásnum báti slysavarnafélagsins undir bjarginu, með orð Jóns Helgasonar á vörum, lýsinguna á Látrabjargi:

Alvotur stendur upp að knjám

öldubrjóturinn kargi

kagandi fram á kalda röst

kvikur af fuglaþvargi;

býsn eru meðan brothætt jörð

brestur ekki undir fargi

þar sem á hennar holu skurn

hlaðið var Látrabjargi.

Það er viðeigandi að kveðja náttúrubarn með andagift skáldsins, þegar engin orð fá lýst þeim harmi sem fjölskylda hans og ástvinir takast nú á við. Megi allar góðar vættir vaka yfir þeim og englar alheimsins lýsa þeim í sorginni. Fyrir hönd barna Lillu á Lambavatni,

Kolbrún Halldórsdóttir.

Og armlög þeirra minntu á fyrsta fund

þó fölur beygur hægt um sviðið gengi

er laut hann höfði og sagði í sama mund:

Veiztu hvað gleðin tefur tæpa stund

en treginn lengi.

(Hannes Pétursson)

Á örskotsstundu breytir hörmulegt slys lífi vina okkar til frambúðar. Við þökkum þær stundir sem við áttum með Eyfa en finnum um leið hversu skammvinn gleðin er og vitum að treginn mun aldrei hverfa. Hann tefur lengi.

Það var gott að vera í kringum Eyfa. Hann var hjartahreinn, eðlisgreindur og víðlesinn með einstakt lunderni og hárfína kímnigáfu. Eyfi var hugrakkt náttúrubarn. Hann þekkti hvern stein og hverja þúfu í sveitinni sinni. Haffi minnist með hlýju góðra stunda með frænda sínum þegar hann var í sveit á Lambavatni, sérstaklega fróðleiksfýsn og léttri lund. Eyfi var vinsæll leiðsögumaður gönguhópa, kunni ógrynni af sögum og las náttúruna af mikilli næmni. Gamli Rauðasandshreppurinn var sveitin hans Eyfa. Flesta daga fór hann yfir að Lambavatni á Rauðasandi til að aðstoða foreldra og bróður við búskapinn. Það tókst honum þrátt fyrir mikið annríki og var stundum eins og hann þyrfti afar lítinn svefn eða engan. Það þurfti að sinna fyrirtækinu Eyfarafi sem óx og dafnaði. Það þurfti að huga að barnmargri fjölskyldunni, búskapnum og öllu hinu. En Eyfi virtist alltaf hafa nægan tíma. Eyfi sló aldrei slöku við.

Mesta gæfan í lífi hans var að kynnast Möggu. Saman eignuðust þau fjögur börn en fyrir átti Magga þrjú sem Eyfi hugsaði um sem sín eigin. Allt eru það mikil mannkostabörn sem standa sig með prýði í íþróttum og námi.

Það var gleðilegt að fylgjast með samheldni þeirra Eyfa og Möggu við uppeldið og heimilishaldið og ástinni þeirra á milli. Bæði voru þau í fullri vinnu og tóku einnig að sér ýmis verkefni í tengslum við íþróttaiðkun barnanna. Það var því mikið um að vera á stóru heimili og margt sem mæddi á Eyfa og Möggu. Þó töldu þau það aldrei eftir sér að ferðast um landið og heiminn með krakkana sína. Aldrei var neitt vesen, bara gaman, og kærleikurinn með í farteskinu.

Líklega hafa fáir farið fleiri ferðir í surtarbrandsnámur í Stálfjalli eða siglt jafn oft á gúmmíbáti í öllum veðrum undir Látrabjargi. Eyfi var harður af sér og leit á það sem skyldu sína að miðla til annarra þeirri kunnáttu sem þarf til að síga eftir eggjum í Látrabjargið en það er eitthvað sem aðeins hugdjörfustu menn taka sér fyrir hendur. Og ævinlega rann ágóðinn af eggjatökunni óskiptur til Björgunarsveitarinnar Bræðabandsins sem Eyfi starfaði með alla tíð. Aðeins nokkrum dögum fyrir sviplegt fráfallið seig hann eftir eggjum í Látrabjargið.

Það var mikið áfall að heyra af andláti Eyfa. Samfélagið vestra er fátækara því Eyfi var einstakur maður, elskaður og dáður.

Elsku Magga og börn. Megi algóður Guð umvefja ykkur kærleika sínum og styrkja í þeirri miklu sorg sem að ykkur er kveðin.

Guð blessi minningu Sveins Eyjólfs Tryggvasonar.

Ásthildur, Hafþór, Daníel Jón og Lilja

Sigríður.

Föstudagurinn 8.8. 2008 rann upp bjartur og fagur á Rauðasandi við Breiðafjörð. Í hönd fór brúðkaupsdagur þeirra Margrétar Brynjólfsdóttur og Sveins Eyjólfs Tryggvasonar. Hjónavígslan fór fram í kirkjunni að Saurbæ þar sem staðið hefur kirkja frá því skömmu eftir kristnitöku og faðir brúðarinnar, séra Bryjólfur, fyrrum prófastur, gaf hjónaefnin saman. Veislan var í hlöðunni í Kirkjuhvammi fallega skreyttri. Síðan var sungið dansað og leikið á túninu í rauðgullinni birtu ágústsólarinnar langt fram eftir kvöldi. Dagurinn var eins og þeir gerast bestir í þessari fallegu sveit. Blankalogn og glaðasólskin frá morgni til miðnættis. Lífið blasti við þessum fallegu hjónum sem þá þegar voru komin vel á veg með að mynda sína góðu og fjölmennu fjölskyldu.

Svona blasti drengurinn góði, Eyjólfur Tryggvason, líka við okkur, sem höfðum kynnst honum fyrir áratug þegar við slógum hælum okkar niður á Rauðasand. Yfir Eyjólfi var alltaf heiðríkja og smitandi gleði. Hann var svo bóngóður og hjálpsamur í öllum aðstæðum að það bitnaði örugglega oft illa á hans eigin nauðsynjaverkum. Við í Saurbæ nutum ótæpilega af hjálpsemi hans, endalausri greiðvikni og því að hann gat auðvitað leyst úr öllu því, sem greiða þurfti úr fyrir bæjarbörnin sem voru að stíga sín óvissu fyrstu skref í sveitinni, sem tók svo fallega á móti þeim. Ekki síst áttu þar hlut að máli sveitarhöfðinginn á Lambavatni Tryggvi Eyjólfsson faðir Eyjólfs og fjölskylda hans. Eyjólfur var margra manna maki hvort sem var til vinnu eða lífsins sjálfs. Hann var rafvirki og rak fyrirtæki í þeirri iðn sem var samfélaginu mikil nauðsyn, hann seig í Látrabjarg eftir eggjum, hann var öflugur félagi í Bræðrabandinu, björgunarsveitinni í hinum forna Rauðasandshreppi, hann rak í félagi við Þorstein bróður sinn myndarlegt kúabú á Lambavatni, hann var meðhjálpari í Saurbæjarkirkju, hann samdi skemmtiatriði á þorrablótum, hann leiðbeindi ferðamönnum á nánast ófærum fjallastígum í Stálfjalli, hann var liðtækur frjálsíþróttamaður og þeir feðgar merktu þúsundir fugla. Eyjólfur var hvers manns hugljúfi og af hans fundi fóru allir betri menn. Eyjólfur var ástríkur eiginmaður og faðir fjögurra barna og gekk þremur eldri börnum Margrétar í föðurstað. Sorg þeirra allra er mikil og djúp og andlát Eyjólfs skilur eftir sig stórt skarð í Vesturbyggð en auðvitað fyrst og fremst hjá fjölskyldu og vinum. Við öll sem tengjumst Saurbæ og höfðum þegið svo mikið af Eyjólfi sendum Margréti, börnunum og öllum ættingjum og ástvinum Eyjólfs okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Núna er engin nótt á Rauðasandi, dagurinn og nóttin renna saman í einstakri ævintýralegri birtu og sumarblíðu. Öll náttúran hefur lifnað til sumarlífsins og á sandinn slær roðagylltri birtu. Það drýpur sorg af hverju strái þegar við kveðjum öðlinginn Eyjólf sem í dag verður lagður til hinstu hvílu í kirkjugarðinum við Saurbæjarkirkju.

Guð blessi Svein Eyjólf Tryggvason.

Kjartan Gunnarsson.