Elís Gunnar Kristjánsson fæddist 8. maí 1926. Hann lést 25. maí 2021.

Elís var jarðsunginn 10. júní 2021.

Elsku afi minn. Ég á erfitt með að skilja að þú sért farinn. Mér finnst skrítið að skrifa til þín í stað þess að hringja í þig eða kíkja í heimsókn. Mikið á ég eftir að sakna þess að geta heimsótt þig, spilað og spjallað. Þú varst alltaf svo hlýr og góður og vildir allt fyrir mig gera. Nú er gott að geta hugsað til baka og yljað sér við góðar minningar. Ég mun sakna þín afi.

Þín

Þórhildur Anna.

Við eigum minningar um brosið bjarta,

lífsgleði og marga góða stund,

um mann sem átti gott og göfugt hjarta

sem gengið hefur á guðs síns fund.

Hann afi lifa mun um eilífð alla

til æðri heima stíga þetta spor.

Og eins og blómin fljótt að frosti falla

þau fögur lifna aftur næsta vor.

(Guðrún Vagnsdóttir)

Elsku afi okkar,

takk fyrir allt og allt,

þínar,

Róbert Elís, Sandra Dís og Thelma Rós.

Elís, nafni minn og afi, lést þriðjudaginn 25. maí, nýlega orðinn 95 ára. Ég á góðar minningar af honum alla tíð, hann var auðvitað hluti af ótal sumarbústaðarferðum, sunnudagskvöldum og jólaboðum.

Verkefni mitt eitt sumarið var að mæta til afa og slá hjá honum blettinn. Þá bauð hann mér í kex og te eftir á, síðan þá heimsótti ég hann reglulega. Við áttum margar gæðastundir saman þar sem við spjölluðum um söguna, skóla, borgarpólitík, búskap, bækur, lífið og tilveruna og allt þar á milli. Svo var yfirleitt spilað, kom í ljós að margfaldur Bridge-meistari átti ekki erfitt með Olsen og Rommí en ég stóð betur að velli í póker upp á gamlar myntir. Ég var alltaf velkominn til hans og hann var alltaf til staðar fyrir okkur.

Afi var sönn fyrirmynd, þakklátur og örlátur fólkinu í kringum sig. Hann var eldklár, umhyggjusamur og leit alltaf björtum augum á lífið.

Takk fyrir samfylgdina, elsku afi minn.

Nafni þinn,

Elís Þór Traustason.

Elsku afi, það sem kemur efst í hugann þegar ég hugsa til þín eru öll skiptin þegar þú komst til okkar í mat og við spjölluðum saman um boltann. Við ræddum hvernig gengi hjá mér í boltanum og svo auðvitað hvernig þínum uppáhaldsleikmanni, Ronaldo, gengi. Undantekningalaust fórum við niður í sjónvarpsherbergi að horfa á íþróttafréttir og alltaf var það bæði á RÚV og Stöð 2.

Í gamla daga var miðvikudagur alltaf minn uppáhaldsdagur, það var vegna þess að við fórum til þín í mat. Þá fengum við krakkarnir að hitta þig og spila. Á hverjum einasta miðvikudegi komum við til þín þangað til við fórum að vera á æfingum á sama tíma en þá breyttum við um takt og þú komst oftar til okkar. Þessari hefð héldum við þar til undir það síðasta og var alltaf tilhlökkun að sjá þig.

Ég gleymi því aldrei hvað þú varst stoltur af mér þegar ég sagði þér að ég hafði spilað minn fyrsta leik með meistaraflokki, ég mun alltaf lifa fyrir þá minningu og ég vona að ég get gert þig svona stoltan aftur í framtíðinni. Ég elska þig, afi.

Þinn,

Óliver Elís.

Að eiga afa í rúmlega fjörutíu ár eru forréttindi. Í dag kveð ég afa Ella með söknuði en þó fyrst og fremst miklu þakklæti og hlýju.

Afi var fæddur í torfbæ á Arnarnúpi í Dýrafirði og ólst þar upp ásamt foreldrum sínum og 8 systkinum fram að fermingaraldri er fjölskyldan flutti í glænýtt steinsteypt hús á jörðinni. Frásagnir afa af æskuárunum fyrir vestan voru magnaðar. Hvernig lífið snerist um að færa björg í bú við ysta haf – sjósókn við erfið skilyrði á veturna og búskap í iðandi náttúru á sumrin. Afi tók virkan þátt í heimilislífinu og var ekki gamall þegar hann fór sinn fyrsta róður á sjó eða sinnti bústörfum á Arnarnúpi. Afi dásamaði Dýrafjörð.

Uppvaxtarár afa á Vestfjörðum hafa án efa mótað hann, enda átti hann síðar eftir að búa fjölskyldu sinni öruggt skjól í fjölmörgum húsum sem hann byggði flest frá grunni. Afi var húsasmíðameistari og löngu eftir að hann lagði hamarinn á hilluna var hann stórfjölskyldunni ráðunautur þegar kom að framkvæmdum. Afi var fagmaður fram í fingurgóma.

Fornistekkur og hverfið þar í kring voru athafnasvæði okkar systkinanna þegar við vorum í pössun hjá ömmu Önnu og afa Ella sem krakkar. Sundferðirnar með afa í Breiðholtslaug eru ljóslifandi í minningunni ásamt öllum skiptunum sem maður fékk að fylgja ömmu í vinnuna á leikskólann Bakkaborg í Breiðholti. Þá eru leiðangrar í Breiðholtskjör, bíltúrar í jeppanum hans afa, boltaleikir í garðinum og kassabílasmíði fallegar minningar um barnæsku í Breiðholtinu hjá afa og ömmu. Minningar sem ylja og gleðja.

Á fullorðinsárum mínum undum við afi okkur jafnan best við að ræða um stjórnmál. Þá var iðulega farið vítt og breitt yfir hið pólitíska landslag – í fortíð og nútíð. Ég á hægri ásnum en afi á miðjunni – trúr samvinnuhreyfingunni og Framsóknarflokknum. Áratugalangt samstarf Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins við ríkisstjórnarborðið hefur oftar en ekki verið gæfuríkt, en samband okkar afa við eldhúsborðið í Fitjasmára var alltaf sveipað gleði og gæfu. Allt fram á síðasta dag fylgdist sá gamli ótrúlega vel með því sem var að gerast í stjórnmálum og Alþingisrásin oftar en ekki í gangi þegar ég kom við í heimsókn.

Afi var alla tíð duglegur að fylgjast með því sem á dagana dreif hjá mér í leik og starfi. Hann var áhugasamur og lagði alltaf gott eitt til þegar til hans var leitað. Í ófá skiptin fékk ég að geyma hluti í bílskúrnum í Fitjasmára, en eins og segir einhvers staðar: „Þar sem er hjartarúm, þar er ávallt húsrúm.“ Það átti svo sannarlega við um afa, enda faðmurinn og bílskúrinn ávallt opinn.

Fyrir rúmum 70 árum felldu afi og amma hugi saman á Reykjalundi þar sem þau háðu baráttu við berkla. Þau höfðu bæði betur í þeirri baráttu og áttu alla tíð fallegt hjónaband. Afi missti mikið þegar amma féll frá árið 2003, en það er gott til þess að hugsa að þau sameinist nú aftur á betri stað.

Elsku afi minn – hjartans þakkir fyrir samfylgdina, samtölin og innilegu faðmlögin. Hvíldu í friði.

Þinn

Skapti Örn.

Stirðnuð er fífilsins brosmilda brá

og brostinn er lífsins strengur.

Helkaldan grætur hjartað ná

því horfinn er góður drengur.

Sorgmædd sit við mynd af þér

og sárt þig ákaft trega.

Herrann helgur gefur mér

huggun náðarvega.

Tekinn var litríkur fífill frá mér

og ferðast einn um sinn.

Í kærleiksljósi leita að þér

og leyndardóminn finn.

Kyrrum klökkum tregarómi

kveð nú vininn hljóða.

Af sálarþunga úr sorgartómi

signi drenginn góða.

Farinn ert á friðarströnd

frjáls af lífsins þrautum.

Styrkir Drottins helga hönd

hal á ljóssins brautum.

Englar bjartir lýsi leið

lúnum ferðalangi.

Hefst nú eilíft æviskeið

ofar sólargangi.

Vonarkraftur vermir trú

og viðjar sárar brýtur.

Ótrúleg er elska sú

sem eilífðinni lýtur.

Í Gjafarans milda gæskuhjúpi

gróa öll mín sár.

Með sólargeisla úr sorgardjúpi

sendi þér kveðjutár.

(Jóna Rúna Kvaran)

Sendi Óla, Önnu Björgu, Atla Þór, Hlyni, Trausta og öllum öðrum ástvinum Elísar innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Elísar Gunnars Kristjánssonar.

Jóhanna B. Magnúsdóttir.