Framboð mitt til forystu í Norðvesturkjördæmi byggir á því að ég treysti mér, sem venjuleg landsbyggðarstelpa og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, til að leiða þessa þróun, fyrir okkur öll.

Starfi stjórnmálamannsins þurfa að fylgja tilfinningar um ábyrgð, auðmýkt, þakklæti, bjartsýni og óbilandi metnað fyrir hönd síns fólks og heildarhagsmuna Íslands. Allar þessar tilfinningar fylgja mér á hverjum degi í störfum mínum en sjaldan eins sterkt og núna, þegar ég óska eftir umboði Sjálfstæðisfólks í Norðvesturkjördæmi til að leiða sterkan hóp frambjóðenda flokksins okkar í kosningunum í haust.

Enginn getur gengið að slíku umboði vísu. Það þarf að verðskulda. Ég gleðst yfir þeim árangri sem náðst hefur á kjörtímabilinu í þágu byggðanna út um landið. Við erum á réttri leið.

Hraðbraut inn í framtíðina – og út á land

Nýsköpun er landsbyggðarmál. Eins og Tryggvi Hjaltason vinur minn benti á í grein í vikunni virkar nýsköpun eins og hraðbraut inn í framtíðina – en líka eins og hraðbraut út um landið, sem gerir fólki kleift að starfa hvar sem er. Nýsköpun á stóran þátt í að „landsbyggðin er að kalla fólkið sitt heim“, eins og Tryggvi orðar það svo vel. Og frumkvöðlastarfsemi dafnar þar sem aldrei fyrr. Ég horfi á allt það sem er að gerast úti um land og gleðst yfir því að sýn okkar er að raungerast, hugarfarsbreyting hefur átt sér stað og verkfærin sem við höfum smíðað virka.

Líklega hefur enginn málaflokkur tekið eins miklum stakkaskiptum á kjörtímabilinu og jarðvegur nýsköpunar. Aukinn stuðningur við stafrænar smiðjur úti um landið, frumkvöðlasetur, þekkingarsmiðjur og atvinnuhraðla, nýr nýsköpunarsjóður fyrir landsbyggðina (Lóa) sem er sá fyrsti sinnar tegundar, nýr hvatasjóður (Kría) sem stóreflir fjármögnunarumhverfi nýsköpunar, aukin framlög til Tækniþróunarsjóðs og hækkaðar endurgreiðslur til rannsókna og þróunar, svo dæmi séu tekin. Allt er þetta á grundvelli nýrrar Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, því það skiptir máli að setja skýran kúrs til framtíðar.

Efling ferðaþjónustu um allt land

Ríkisstjórnin hefur staðið frammi fyrir því erfiða verkefni í heimsfaraldri að koma til móts við ferðaþjónustuna, okkar mikilvægustu uppsprettu gjaldeyristekna. Það hefur í stórum dráttum tekist vel.

Á sama tíma höfum við styrkt stoðirnar og lagt grunn að öflugri viðspyrnu. Skömmu eftir að faraldurinn braust út var þannig byrjað að leggja drög að stærstu markaðsherferð í þágu íslenskrar ferðaþjónustu sem dæmi eru um. Við höfum staðið vörð um stefnuramma greinarinnar til 2030 með áherslu á hverju greinin skilar en ekki fjölda ferðamanna og áhersla er á sjálfbæra þróun. Sú ákvörðun að opna landið, fyrr en aðrir, fyrir bólusetta ferðamenn utan Schengen hefur skilað miklum efnahagslegum árangri.

Sjóðurinn gegnir einna stærstu hlutverki við að efla áfangastaði um allt land til að laða fleiri ferðamenn þangað. Verkefnið við Þrístapa á vegum Húnavatnshrepps, við Svöðufoss á vegum Snæfellsbæjar, Guðlaug á Akranesi og útsýnispallur á Bolafjalli þar sem Bolungarvík fékk 160 milljónir til uppbyggingar eru dæmi um uppbyggingu með stuðningi sjóðsins sem breytir stöðunni.

Og sjóðurinn tekur nú í fyrsta sinn mið af áætlunum heimafólks á hverju svæði um uppbyggingu ferðaþjónustu.

Ný orkutengd verkefni í röðum

Sjaldan hefur verið eins mikil gerjun í nýjum og fjölbreyttum orkutengdum tækifærum og nú. Sú þróun endurspeglast hvergi skýrar en á Grundartanga. Í vikunni var skrifað undir þrjá samninga um spennandi verkefni á Grundartanga. Elkem og Þróunarfélagið eru aðilar að öllum en verkefnin eru: 1) Föngun og förgun kolefnis í samstarfi við CarbFix. 2) Framleiðsla á rafeldsneyti í samstarfi við Landsvirkjun og CRI. 3) Nýting glatvarma til hitaveitu og raforkuframleiðslu í samstarfi við Veitur.

Svipuð tækifæri eru til staðar víðar um landið og þau ætlum við að sækja.

Þá tilkynnti ég fyrir nokkrum dögum um gerð Vegvísis um vetni- og rafeldsneyti, en þar gætu legið mjög dýrmæt tækifæri fyrir Ísland í gjörbreyttum kolefnisfælnum heimi.

Við sjáum líka fram á vöxt hjá gagnaverum, m.a. vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að fjármagna nýjan gagnastreng.

Full jöfnun dreifikostnaðar raforku á milli þéttbýlis og dreifbýlis hefur verið tryggð frá og með næsta hausti og þrífösun og jarðstrengjavæðingu hefur verið flýtt. Nýsamþykktar breytingar á raforkulögum munu síðan stuðla að lækkun bæði flutnings- og dreifikostnaðar raforku.

Allt er þetta í samræmi við nýja langtímaorkustefnu fyrir Ísland og aðgerðaáætlun hennar sem ég lagði mikla áherslu á að láta vinna, vegna þess að það skiptir máli að setja skýran kúrs til framtíðar.

Forysta um nýjar lausnir

Góð verk eru afrakstur samvinnu og það á við um allt ofangreint. Ég vil þakka þeim hundruðum einstaklinga sem hafa lagt hönd á plóg til að gera þau að veruleika.

Ég er full bjartsýni og tilhlökkunar yfir næstu skrefum. Tækifærin eru óþrjótandi, ekki síst á landsbyggðinni. Við höfum séð að flest störf má vinna hvar sem er. Æ fleiri vilja flytja aftur heim á sínar heimaslóðir og byggja upp. Það hefur aldrei verið auðveldara og við eigum að styðja við þá þróun, meðal annars með því að efla samgöngur, fjarnám, atvinnutækifæri m.a. í orkutengdum verkefnum og á vegum hins opinbera, byggja áfram upp áfangastaði ferðamanna og styðja við þá hraðbraut til framtíðar sem felst í nýsköpun.

Framboð mitt til forystu í Norðvesturkjördæmi byggir á því að ég treysti mér, sem venjuleg landsbyggðarstelpa og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, til að leiða þessa þróun, fyrir okkur öll.