— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hvað er Netnótan? Við ætluðum að halda upp á tíu ára afmæli Nótunnar árið 2020 en Covid kom í veg fyrir það. Svo ætluðum við að taka upp þráðinn árið 2021 en þurftum að bregða á það ráð að halda upp á afmælið á netformi.
Hvað er Netnótan?

Við ætluðum að halda upp á tíu ára afmæli Nótunnar árið 2020 en Covid kom í veg fyrir það. Svo ætluðum við að taka upp þráðinn árið 2021 en þurftum að bregða á það ráð að halda upp á afmælið á netformi. Kennarar og stjórnendur taka því þátt í Nótunni nú með síma og spjaldtölvur að vopni. Þetta fer þannig fram að hver skóli útbýr stutt myndband úr starfseminni og þessi myndbönd eru birt samhliða því að N4 sýnir þrjá sjónvarpsþætti. Þar er sjónvarpsstöðin búin að klippa skemmtilega saman brot úr þessum myndböndum og úr hefur orðið fjölbreytt og skemmtilegt sjónvarpsefni.

Hvers konar myndbönd eru þetta?

Það er leitast við að sýna mikið úr skólastarfinu. Það er til dæmis tekið upp í skólastofum, tekin viðtöl og brugðið á leik.

Er þetta eitthvað sem gæti orðið framhald á?

Það hefur skapast umræða um það. Þarna gæti verið um að ræða möguleika til viðbótar við hefðbundið form Nótunnar hjá okkur og ég held að það sé ekkert ólíklegt að við munum nýta okkur þetta form við þróun Nótunnar.

Er mikil eftirvænting hjá krökkunum fyrir þáttunum?

Já, vikulega svara ég tölvupóstum um það hvenær þættirnir verði á dagskrá. Þetta er bæði skemmtileg reynsla og gagnleg fyrir nemendur, kennara og skólana.

Hvernig hefur veturinn gengið í tónlistarkennslu?

Þetta hefur auðvitað verið skrítið allt saman. En ég hef verið svo ánægjulega undrandi á því hvað fólk hefur verið jákvætt og lausnamiðað þrátt fyrir það álag, óvissu og annað sem þetta ástand hefur skapað. Fólk hefur látið tæknihliðina lítið setja sig úr lagi og hefur náð að halda í þá gleði sem þarf að einkenna tónlistarsköpun. Mér finnst stéttin hafa náð að draga fram allt það jákvæða úr aðstæðunum. Þrátt fyrir erfiða tíma hefur það ekki skyggt á ánægjuna og vil ég hér nota tækifærið og hrósa kennurum og nemendum um land allt.

Fyrsti af þremur þáttum Netnótunnar, sjónvarpsþáttar á N4, verður sýndur í dag. Þættirnir koma í stað Nótunnar, uppskeruhátíðar tónlistarskóla landsins, í ár. Sigrún Grendal er formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum.