Árni Steinar Jóhannsson
Árni Steinar Jóhannsson
Árni Steinar Jóhannsson fæddist á Dalvík 12. júní 1953, sonur hjónanna Valrósar Árnadóttur verslunarkonu og Jóhanns Ásgrímssonar Helgasonar sjómanns, sem drukknaði í mannskaðaveðri.

Árni Steinar Jóhannsson fæddist á Dalvík 12. júní 1953, sonur hjónanna Valrósar Árnadóttur verslunarkonu og Jóhanns Ásgrímssonar Helgasonar sjómanns, sem drukknaði í mannskaðaveðri. Árni Steinar var tæplega tíu ára gamall þegar faðir hans dó og næstyngstur fjögurra systkina. Eftir gagnfræðapróf á Dalvík fór Árni Steinar sem skiptinemi til Bandaríkjanna, síðan í Garðyrkjuskóla ríkisins og þaðan í Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn þar sem hann útskrifaðist 1979. Árni Steinar flutti til Akureyrar eftir námið og varð garðyrkjustjóri bæjarins og síðar umhverfisstjóri Fjarðabyggðar, en því starfi gegndi hann til hinsta dags.

Árni Steinar var vel liðinn og hafði brennandi áhuga á umhverfismálum og samfélagsmálum. Hann var í framboði fyrir Þjóðarflokkinn 1987 og síðan Alþýðubandalagið og óháða 1995 og var kosinn alþingismaður fyrir Vinstri-græna 1999 í Norðurlandskjördæmi eystra. Hann var í stjórn Rarik 2008-2014 og stjórnarformaður þar frá 2009. Hann var hugmyndaríkur og byggði ásamt fleirum nýbýli á Höskuldarstöðum í Eyjafjarðarsveit þar sem íbúðarhúsið var einnig gróðrarstöð. Akureyringar búa enn að hugmyndum hans um grænt bæjarskipulag.

Árni Steinar lést á dvalarheimilinu Dalbæ á Dalvík 1. nóvember 2015, langt fyrir aldur fram.