Halldór Þormar Halldórsson
Halldór Þormar Halldórsson
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Það hefur verið ansi snörp fjölgun umsókna síðustu ár, sérstaklega síðustu þrjú ár,“ segir Halldór Þormar Halldórsson, ritari bótanefndar vegna þolenda afbrota. Ríkissjóður greiddi alls 167.714.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það hefur verið ansi snörp fjölgun umsókna síðustu ár, sérstaklega síðustu þrjú ár,“ segir Halldór Þormar Halldórsson, ritari bótanefndar vegna þolenda afbrota.

Ríkissjóður greiddi alls 167.714.879 krónur í bætur til þolenda afbrota á síðasta ári vegna mála sem komu til afgreiðslu bótanefndar ríkisins. Það er litlu minna en árið áður en þá greiddi ríkið um 178 milljónir í bætur vegna þessa. Fjöldi umsókna um bætur hefur hins vegar aldrei verið meiri en í fyrra.

„Á liðnum árum hefur fjöldi umsókna aukist verulega og á árinu 2020 bárust 508 umsóknir, en það var í fyrsta skipti sem fjöldi þeirra fór yfir 500. Nefna má að árið 2005 bárust um 200 umsóknir til nefndarinnar. Frá árinu 2016 hefur verið næsta stöðug fjölgun þeirra mála sem berast nefndinni,“ segir Halldór í svari við fyrirspurn blaðsins.

Ríkissjóður greiðir bætur til þolenda afbrota og hefur gert frá árinu 1996. Um er að ræða úrræði til að bæta réttarstöðu þeirra sem verða þolendur ofbeldisbrota, enda eru litlar líkur taldar á að þeir sem hafa staðið að brotunum muni greiða bætur vegna þess skaða sem með þeim var valdið. Bæturnar eru greiddar fyrir líkamstjón og miska þolenda ofbeldisbrota og geta hæstar verið átta milljónir í hverju tilviki samkvæmt lögum. Bæði eru greiddar bætur byggðar á dómsniðurstöðu og vegna brota þar sem engum verður refsað vegna þess að þau eru ekki upplýst eða að sakborningur er ósakhæfur eða hann látinn. Um það bil 1/3 hluti þeirra umsókna sem berast bótanefnd byggist á óupplýstum málum.