Málverk Sigga Björg segir að manninum hafi ekki tekist að eyðileggja sýninguna og að hún verði áfram opin.
Málverk Sigga Björg segir að manninum hafi ekki tekist að eyðileggja sýninguna og að hún verði áfram opin. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Esther Hallsdóttir esther@mbl.is Skemmdarverk voru unnin á sýningu listakonunnar Siggu Bjargar Sigurðardóttur í Gerðubergi í Reykjavík á fimmtudag. Gestkomandi maður úðaði yfir allar myndir sýningarinnar með appelsínugulu spreyi úr brúsa.

Esther Hallsdóttir

esther@mbl.is

Skemmdarverk voru unnin á sýningu listakonunnar Siggu Bjargar Sigurðardóttur í Gerðubergi í Reykjavík á fimmtudag. Gestkomandi maður úðaði yfir allar myndir sýningarinnar með appelsínugulu spreyi úr brúsa. Sýning Siggu Bjargar heitir „Stanslaus titringur“ og hafði hún málað fjölda stórra mynda beint á veggina. Um er að ræða sumarsýningu Gerðubergs sem á að standa út sumarið. Hún hafði verið opin í fimm daga er skemmdirnar voru unnar.

Engin tenging við manninn

Sigga Björg segist enga tengingu hafa við manninn og hún viti ekki hvað bjó að baki ákvörðun hans. „Ég er náttúrlega búin að hugsa mikið um það, hvað það getur verið. Þetta eru mjög sterk viðbrögð og það í sjálfu sér er áhugavert. Þó það sé glatað að hafa eytt svona mikilli vinnu í þetta, það tók náttúrlega mjög langan tíma að gera öll verkin á veggina, og ömurlegt að lenda í þessu, þá er það líka áhugavert að verkin hafi vakið þessi viðbrögð hjá einhverjum og ég væri mjög forvitin að vita af hverju eða hvað honum gekk til,“ segir hún. Sigga Björg hóf undirbúning verksins um áramótin síðustu og varði tveimur vikum í Gerðubergi í að mála verkin á veggina.

Listin er samtal

Hún ætlar hins vegar ekki að taka sýninguna niður. „Ef ætlunarverkið var að eyðileggja sýninguna þá tókst það ekki. Listin er náttúrlega bara samtal og þarna er hann að gera árás, þetta eru mjög sterk viðbrögð og hann gerir þarna beina árás og ég sé þetta ekki þannig að honum hafi tekist að eyðileggja sýninguna, heldur frekar að ég þurfi kannski að svara þessu einhvern veginn, sjónrænt mögulega.“ Áfram verður hægt að sjá sýninguna, með skemmdarverkunum, í Gerðubergi.

„Það er kannski asnalegt að segja það, en kannski er verkið bara ekki búið, eins og ég hélt. Ég þarf greinilega að halda áfram og svara fyrir þetta skemmdarverk. Það er alla vega þannig sem mér líður frekar en að ég ætli að pakka saman og láta þetta slá okkur út af laginu.“

Málið til rannsóknar

Maðurinn sást á upptökum eftirlitsmyndavéla og lögregla rannsakar nú málið. Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri hjá Gerðubergi, segir að þetta verði ekki látið óátalið. „Við tökum þetta mjög alvarlega og það er mjög fátítt að eitthvað svona gerist hér. Alla jafna er fólk hérna mjög ánægt með allt sem er sett upp og þetta er ekki lýsandi fyrir andann í húsinu,“ segir Ilmur Dögg.