Olíutankar Tugir bíla frá Olíudreifingu og Skeljungi fara frá Grandanum á hverjum degi. Þeir bætast við þunga umferð á Hringbraut næstu vikurnar.
Olíutankar Tugir bíla frá Olíudreifingu og Skeljungi fara frá Grandanum á hverjum degi. Þeir bætast við þunga umferð á Hringbraut næstu vikurnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Það eru ekki margar lausnir á þessu vandamáli en það hefði verið hægt að tímasetja þetta öðruvísi,“ segir Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það eru ekki margar lausnir á þessu vandamáli en það hefði verið hægt að tímasetja þetta öðruvísi,“ segir Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær verður Mýrargata lokuð næstu þrjár vikurnar vegna framkvæmda Veitna í Vesturbæ Reykjavíkur. Það hefur í för með sér að olíuflutningar, sem alla jafna fara um Mýrargötu og Sæbraut, færast yfir á Hringbraut. Sú leið þykir ekki heppileg vegna slysahættu.

„Við völdum á sínum tíma í samráði við slökkviliðið að fara Mýrargötu og Sæbraut enda er það hættuminnsta leiðin með tilliti til íbúa. Ef eitthvað gerist er viðbragðstími styttri þar. Það er allt miklu erfiðara á Hringbrautinni, þar eru byggingar alveg ofan í veginum. Ég skil alveg að almenningur vilji ekki hafa olíuflutninga þar. Það er allt annað að lenda við hliðina á svona bíl á Hringbraut en á Sæbraut, það er bara allt önnur nálgun,“ segir Hörður.

Tugir bíla frá Olíudreifingu og Skeljungi fara af Grandanum á hverjum degi. Hörður segir að verið sé að skoða að breyta akstursáætlunum Olíudreifingar með tilliti til umferðarálags. „En þessi Hringbraut er reyndar bara alltaf full. Það bætir svo ekki úr skák að þar eru minniháttar framkvæmdir sem gera ástandið enn verra en ella. Um leið og þú setur keilur út á aðra akreinina er búið að skemma þá akrein fyrir stór tæki eins og okkar.“

Hann kveðst hafa viljað sjá samráð um þessar götulokanir og að þær væru almennilega undirbúnar. „Ég hefði viljað fá samtal. Við fengum tilkynningu frá Veitum daginn áður en lokað var en Vegagerðin gerir okkur ekkert viðvart. Við hefðum viljað fá að vita þetta með einhverjum fyrirvara því svona breytingar geta kallað á annað skipulag. Eins hefðum við viljað leita samstarfs við slökkviliðið. Þegar beina á allri umferð á Hringbraut er lágmarkskrafa að hún sé eins tilbúin að taka við umferðinni og hægt er. Það er ótækt að minniháttar framkvæmdir tefji frekar fyrir. Það er ekki af neinu að taka þarna.“