Þóra Guðrún Óskarsdóttir fæddist í Reykjavík 5. ágúst 1933. Hún lést 31. maí 2021 á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík.

Foreldrar hennar voru Óskar Gíslason og Sigurðína Straumfjörð Einarsdóttir. Þóra Guðrún var einkadóttir þeirra.

Þóra Guðrún, oftast kölluð Rúna, ólst upp á Fjölnisvegi 5 í Reykjavík. Að lokinni skólagöngu í Austurbæjarskóla fór hún í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Síðar sem ung kona sótti hún hússtjórnarnám við Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Að auki sat hún námskeið í færslu bókhalds og vann um tíma við slíkt hjá Málningarverksmiðjunni Hörpu hf.

Þann 17.8. 1957 giftist Þóra Guðrún eftirlifandi eiginmanni sínum, Einari Baldvinssyni lækni, f. 2.2. 1932. Bjuggu þau fyrstu búskaparárin á æskuheimili hennar á Fjölnisvegi uns Einar fór í sérnám í læknisfræði í Bandaríkjunum 1962. Er þau fluttu aftur til landsins sumarið 1967 héldu þau áfram heimili með móður Þóru Guðrúnar um tíu ára skeið, eða þar til þau fluttu í eigið hús í Brúnalandi 22 í Reykjavík hvar Þóra Guðrún bjó þar til hún varð fyrir skyndilegum og alvarlegum heilsubresti sumarið 2013.

Þau Þóra Guðrún og Einar eignuðust þrjá syni: 1) Óskar, f. 1957, eiginkona hans var Hildur Harðardóttir. 2) Baldvin, f. 1960, eiginkona hans er Lóa Steinunn Kristjánsdóttir. 3) Reynir, f. 1964, sambýliskona hans er Brynja Birgisdóttir. Barnabörn þeirra Þóru Guðrúnar og Einars eru sjö og barnabarnabörn átta.

Útför Þóru Guðrúnar fór fram 7. júní 2021 í kyrrþey að hennar ósk.

Þóra Guðrún Óskarsdóttir, sem jafnan var kölluð Rúna, er fallin frá. Hún var samstarfskona fjölskyldu minnar um áratugaskeið í málningarverksmiðjunni Hörpu hf. og síðar Hörpu Sjöfn hf. en hún var stór hluthafi og stjórnarmaður ásamt okkur.

Samstarf Rúnu og Magnúsar Helgasonar, föður míns, stóð yfir í nær fjörutíu ár meðan hann lifði og var allan tímann farsælt og traust. Þegar ég tók við starfi framkvæmdastjóra Hörpu árið 1992 gat ég ávallt reitt mig á góðan stuðning Rúnu en hún var ráðhollur stjórnarmaður sem lagði einungis gott til mála í hópi okkar hluthafanna. Á þessum árum gerðum við miklar breytingar á fyrirtækinu sem sumar hverjar voru djarfar. Rúna studdi allar slíkar hugmyndir og stóð með okkur að þeim eins og þegar við fórum út í rekstur Hörpuverslananna sem reyndist fyrirtækinu mikið gæfuspor. Sama gilti um þá ákvörðun að sameina Hörpu og Sjöfn á Akureyri sumarið 2001 þegar til varð Harpa Sjöfn hf., enn öflugra málningarfyrirtæki en hin tvö voru hvort í sínu lagi.

Þegar við stóðum frammi fyrir því að stórfyrirtæki í málningarviðskiptum í Danmörku, Flügger, falaðist eftir kaupum á Hörpu Sjöfn árið 2004, hlýtur það að hafa verið stór ákvörðun fyrir Rúnu að samþykkja sölu á fyrirtæki sem hún og fjölskylda hennar höfðu átt eignarhluti í frá árinu 1936. En hún sýndi þá enn á ný að hún var framsýnn hluthafi sem nýtti langa reynslu sína til að taka réttar ákvarðanir. Um þessa stóru ákvörðun ríkti alger samstaða í okkar hópi.

Ég sakna þessarar merku konu og trausta samstarfsmanns. Það féll aldrei neinn skuggi á samstarf hennar og fjölskyldu hennar og okkar fjölskyldu í þau sextíu ár sem leiðir lágu saman í rekstrinum.

Eftirlifandi eiginmanni Rúnu, Einari Baldvinssyni, og sonunum Óskari, Baldvin og Reyni ásamt fjölskyldunni allri vottum við innilega samúð. Blessuð sé minning Þóru Guðrúnar Óskarsdóttur.

Helgi Magnússon.