Kristjana Friðbertsdóttir (Systa) fæddist í Botni í Súgandafirði 22. september 1939. Hún lést á líknardeild Landspítalans 24. maí 2021.

Foreldrar Kristjönu voru Friðbert Pétursson bóndi, f. 1909, d. 1994, og Kristjana Guðrún Jónsdóttir húsfreyja, f. 1909, d. 2000.

Systkini Kristjönu: Svavar, f. 1933, d. 1969, Birkir, f. 1936, d. 2017, Kristín, f. 1943, og Ásta Björk, f. 1947.

Þann 22.10. 1960 giftist Kristjana Hafsteini Sigmundssyni frá Suðureyri, f. 19.6. 1939. Börn þeirra eru:

1) Elías Hafsteinsson, f. 16.4. 1957. Maki 1: Lilja Brynja Guðjónsdóttir, f. 1958. Sonur þeirra er Hafsteinn Elíasson, f. 1979. Maki: Svanlaug Erla Einarsdóttir, f. 1981, þrjú börn. Maki 2: Ásta Kristjana Jensdóttir, f. 1963. Börn þeirra eru: Elfar Þór Bragason, f. 1981 (sonur Ástu), eitt barn, Eva Lind Elíasdóttir, f. 1995, Matthías Orri Elíasson, f. 1997. Maki: Annabella Arndal Erlingsdóttir, f. 2001. Maki 3: Sølvi Karin Iversen, f. 1968.

2) Kristjana Erla Hafsteinsdóttir, f. 26.11. 1958. Maki: Winfried Mende, f. 1954. Synir þeirra eru: Thomas Georg Mende, f. 1990. Maki: Anika Voigt, f. 1996. Simon Ari Mende, f. 1993.

3) Kári Hafsteinsson, f. 5.4. 1966. Maki: Hafdís Þorgilsdóttir, f. 1964. Börn þeirra eru: Sigurveig Erla Hafdísardóttir, f. 1982 (dóttir Hafdísar). Maki: Eggert Hannesson, f. 1981, tvö börn. Daníel Kárason, f. 1989. Maki: Inga Jóna Bragadóttir, f. 1990, tveir synir. Júlía Káradóttir, f. 1989. Maki: Guðjón Ingimarsson, f. 1987, tveir synir. Almar Kárason, f. 1991.

Systa og Hafsteinn kynntust ung að aldri á Suðureyri og byggðu sér hús og bjuggu þar til ársins 1975. Þau fluttu þá suður þar sem Hafsteinn stundaði útgerð og Systa vann lengst af við verslunarstörf auk ýmissa annarra starfa. Hún var alls staðar vel liðin, félagslynd og lífsglöð kona. Á seinni árum ferðuðust þau víða um heiminn, bæði um höf og lönd. Þótt Systa hafi ferðast víða fannst henni alltaf best að koma heim og knúsa ömmubörnin og langömmubörnin. Það var hennar helsta gleði að hafa þau hjá sér. Allt sem Systa lagði fyrir sig var gert af alúð og vandvirkni.

Útförin fer fram í Þorlákskirkju í dag, 12. júní 2021, kl. 13.

Elsku besta amma Systa, það sem mér finnst lífið óréttlátt þessa dagana. Ég hefði fegin viljað geta stöðvað tímann í mars 2021 á meðan allt lék í lyndi og við spennt fyrir öllum þeim tíma sem við áttum saman. Hugsanir eins og ósanngirni, reiði, óréttlæti hafa allar blossað upp síðustu daga. Af hverju þú, af hverju endilega þú? Ég á erfitt með að sætta mig við það að þú sért farin, ég get ekki lengur hringt og spjallað um daginn og veginn, fengið góð ráð eða bara fengið smá hvatningu til að klára þau verkefni sem ég átti eftir. Að eiga ömmu eins og þig eru forréttindi, þú varst lífsglöð, jákvæð, hláturmild, heilsuhraust og frábær. Fyrirmynd er kannski orðið sem lýsir þér best, uppáhaldsmanneskjan mín síðan ég var lítið barn í Núpabakkanum og svo á uppáhaldsstaðnum mínum, Ásbúðinni. Þaðan á ég margar minningar frá okkar samveru og þær hlýja sannarlega hjarta mínu á þessum erfiðu tímum. Við áttum ófáar stundirnar saman þar sem við ræddum um heima og geima, spiluðum eða bara hlógum að hvor annarri. Mér leið alltaf vel að vera hjá þér og afa, eftir að ég eignaðist börn sjálf þá nutum við þess að vera hjá ykkur. Synir mínir elskuðu það alveg jafn mikið og ég. Fjölskyldan var alltaf í forgangi hjá þér og ég veit að þú hefðir sannarlega viljað hafa alla hjá þér alltaf. Þið afi voruð dugleg að ferðast, en ávallt í sambandi. Þótt það væri ekki nema bara senda mér SMS til að segja mér hvernig veðrið væri. Mikið sem mér þykir vænt um þessi SMS. Ég var ekki bara að missa ömmu mína heldur minn helsta stuðning, allar ákvarðanir og allt sem ég gerði, þar voru þið afi mætt að styðja mig áfram. Ég get ekki þakkað ykkur nóg fyrir það sem þið hafið gert fyrir mig og mína litlu fjölskyldu. Þið afi hafið alltaf staðið eins og klettar við hlið mér eða við hlið barnanna minna hvar og hvenær sem er. Mikið sem ég er þakklát fyrir að hafa getað verið við hlið þér þegar þú kvaddir og stutt afa í gegnum þessa erfiðu tíma. Verið sterk fyrir alla sem áttu erfitt og stutt þau í gegnum þennan sára missi. Við sem eftir sitjum hugsum vel um afa og pössum upp á hann. Minning um bros þitt og hlátur þinn mun hjálpa okkur að komast yfir erfiðustu tímana. Ég elska þig alltaf amma Systa.

Hver minning um þig er dýrmæt perla.

Þitt barnabarn,

Júlía Káradóttir.

Elsku systir.

Nú ert þú farin frá okkur öllum og komin á annan góðan stað, en minning þín lifir. Þú varst alltaf svo jákvæð, aldrei neitt mál að taka að þér alls konar verkefni og hjálpa öðrum. Þú varst alltaf hress og spaugaðir með allt. Ég man þegar ég fór fyrst í skóla þá orðin 11 ára. Þá voruð þið Haddi farin að búa á Suðureyri og ég fékk að vera hjá ykkur. Þótt plássið væri ekki mikið, en ég svaf í stofunni, og eflaust ekki einfalt fyrir ykkur að hafa mig, var ég í góðu yfirlæti. Seinna meir þegar ég var orðin eldri unnum við saman í Kaupfélagi Súgfirðinga. Ég leigði reyndar annars staðar, en fékk að borða hjá ykkur Hadda. Þá kom það fyrir að ég svaf yfir mig, en þá bjargaðir þú mér frá skömminni og vaktir mig með því að kasta litlum steinum í gluggann minn sem var uppi á annarri hæð. Alltaf að passa litlu systur. Þegar Sandra mín var rúmlega mánaðargömul forfallaðist kokkur á bátnum hans Hadda. Þú áttir að redda nýjum kokk sem ekki gekk vel. Þú snerir þér þá að mér og sagðir: „Þú ferð, ég skal hafa hana Söndru á meðan.“ Þú varst svo ákveðin að ég þorði ekki annað en að hlýða. Og fór því svo að ég fór á sjóinn í tæpan mánuð, án þess að vita nokkuð hvað ég var búin að koma mér út í. En ég vissi að Sandra var í góðum höndum hjá þér. Alltaf varstu með opið hjarta til að gera allt fyrir alla. Allt var svo sjálfsagt í þínum huga og þú gafst svo mikið af þér. Konur kíktu við hjá þér í tíma og ótíma í kaffisopa og spjall og alltaf var mikið grínað og hlegið og mikill léttleiki. Já, það var aldrei neitt vandamál sem ekki mátti leysa. Þegar Sandra og Kalli maðurinn hennar útskrifuðust sem stúdentar, og þú þá flutt í bæinn, varst þú fljót að bjóðast til að halda veisluna þeirra heima hjá ykkur Hadda. Að skella upp einni veislu og bjóða heim til þín fólki, sem þú hafðir sumt aldrei séð, var engin fyrirstaða. Alltaf var allt svo sjálfsagt hjá þér og lítið mál. Eins og þegar við Kjartan þurftum húsaskjól eftir nýrnaskiptin, þá stóð ekki á ykkur Hadda. Þið fluttuð úr hjónaherberginu á dýnu í gestaherberginu og eftirlétuð okkur Kjartani hjónarúmið í á annan mánuð. Og enn einu sinni var ég komin til þín í gott yfirlæti og léttleika sem hjálpaði mikið til við batann. Elsku Systa mín. Ég gæti haldið áfram að rifja upp endalausar minningar af jákvæðni þinni og spaugi. Jafnvel síðustu dagana á Landspítalanum gast þú séð kómísku hliðarnar á hlutunum, þótt þú hefðir varla orku til að tala. Takk fyrir allar yndislegu samverustundirnar sem við Kjartan höfum átt með þér og ykkur Hadda, bæði innan- sem utanlands. Guð veri með þér elsku Haddi minn og fjölskylda. Hvíl í friði.

Saknaðarkveðja,

Ásta Björk og Kjartan Þór.