Sumarkoma Þórarinn Sigþórsson tannlæknir með 84 cm lax sem hann veiddi á fyrsta veiðidegi í Kjarrá.
Sumarkoma Þórarinn Sigþórsson tannlæknir með 84 cm lax sem hann veiddi á fyrsta veiðidegi í Kjarrá. — Ljósmynd/Ingólfur Ásgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Þetta hefur verið býsna rólegt hér í Blöndu eftir kalt vor og svo bjuggust menn nú ekki við miklu af stórlaxi eftir lélegt smálaxasumarið í fyrra.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Þetta hefur verið býsna rólegt hér í Blöndu eftir kalt vor og svo bjuggust menn nú ekki við miklu af stórlaxi eftir lélegt smálaxasumarið í fyrra. Við fylgjumst spennt með því hvað stóri straumurinn núna færir okkur,“ sagði Erik Koberling, staðarhaldari við ána, en í gær höfðu veiðimenn aðeins fært þrjá laxa til bókar síðan veiðin hófst fyrir sex dögum. Í byrjun er veitt þar á fjórar stangir. Augu jafnt starfsmanna við veiðiárnar sem áhugasamra veiðimanna eru á stóra straumnum sem var í gær og allir vona að hann fleyti laxagöngum í árnar. Erik sagði veiðimenn hafa séð fiska í gær sem þeir töldu nýgengna en byrjunin hafi vissulega verið róleg.

Svipaðar sögur mátti heyra frá Þverá-Kjarrá; veiðar hófust fyrst á neðra svæðinu í Þverá og hafa veiðst þar nokkrir vænir tveggja ára laxar og þegar veiðimenn byrjuðu í Kjarrá á miðvikudag var þremur landað. Eins og oft áður var Þórarinn Sigþórsson tannlæknir veiðnari en aðrir. Landaði hann tveimur laxanna, í Efri-Johnson og Réttarhyl, en sá þriðji veiddist á „fjallinu“, í þeim dulúðuga veiðistað Efra-Rauðabergi.

„Það eru engin læti en tveggja ára fiskurinn er að koma inn – smálaxinn er ekkert farinn að sýna sig sem heitir,“ sagði Einar Sigfússon við Norðurá. Þar hafa innan við tuttugu laxar verið færðir til bókar frá opnun fyrir viku.

„Það hefur tapast talsvert af fiskum, tökurnar eru grannar og ég held að meginskýringin á þessari hægu byrjun sé hvað vorið var kalt og vatnið er enn kalt. Laxinn gengur síður í árnar í mjög köldu vatni – það eru ekki ný sannindi. Ég á von á því að strax þegar hlýnar eflist göngur.“

Einar er því bjartsýnn. „Ég er sannfærður um að þetta geti orðið ágætis veiðisumar. Ég bíð spenntur og ætla að vera bjartsýnn.“

Veiði hefst á næstunni í hverri laxveiðiánni á fætur annarri og víða hefur sést til laxa, meðal annars í Langá á Mýrum og í Elliðaánum þar sem þeir fyrstu hafa farið gegnum teljarann.

Silungsveiðin víða fín

Silungsveiðimenn hafa víða veitt ágætlega síðustu daga. Vorveiðin var frábær í Hlíðarvatni í Selvogi og sem dæmi hafa frá opnun 1. maí um 530 bleikjur þegar veiðst á þær tvær stangir sem veiðifélagið Árblik er með en það nálgast algenga sumarveiði þar á bæ. Fimm veiðifélög hafa stangir í vatninu og hjá öðru, Ármönnum, voru um 500 bleikjur færðar til bókar í maí en „venjulega“ er sú tala nær 300. Bleikjan er farin að taka fyrir landi þjóðgarðsins á Þingvöllum og þá hafa sumir sem hafa spreytt sig í vatninu í Hraunsfirði á Snæfellsnesi síðustu daga fengið stórar og fallegar sjóbleikjur. Svo beinast augu margra að veiðinni á silungasvæðunum efst í Laxá í Aðaldal, sem kennd eru við Mývatnssveit og Laxárdal, en hún hófst að vanda fyrir mánaðamótin. Venjulega veiðast fleiri fiskar á Mývatnssvæðinu en stærri og færri í dalnum. Það mátti sjá á opnunarhollunum þegar 212 urriðar veiddust á eftra svæðinu en 68 í dalnum.

„Það hefur gengið frekar vel, urriðinn er feitur og þungur og menn ánægðir með þá fiska sem þeir fá,“ sagði Björn Gunnarsson, staðarhaldari í veiðihúsinu Rauðhólum í Laxárdal í gær. „Við erum með tvær veiðibækur, fyrir austur- og vesturbakkann, og það er nákvæmlega sama tala í þeim núna, 78 fiskar í hvorri. 156 í allt komnir í land. Og 116 af fiskunum eru 60 cm og lengri.“

Skylduslepping er á urriðanum, fara þeir nú sífellt stækkandi?

„Mér sýnist það,“ svaraði Björn. „Fimm af fiskunum sem hafa veiðst eru 70 cm og stærri og sá minnsti 50 cm – fyrir utan einn 38 cm titt. Það er gaman að sjá þessa stóru, þetta eru þykkir, feitir, þungir gæjar.“

Fyrstu hollin veiddu um helming fiskanna á straumflugur, hina á púpur, en nú síðustu daga veiddist aðallega á púpur. Þrír hafa veiðst á þurrflugu.

Erlendir fluguveiðimenn dásama urriðasvæðin í Laxá og eftir 23. júní taka þeir Laxárdal yfir í rúman mánuð. Björn á eftir að segja þeim mörgum til og spáir góðri veiði.