Jakob Frímann Magnússon
Jakob Frímann Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jakob Frímann Magnússon og Egil Ólafsson: "Hann varaði kröftuglega við sölu bankanna 2003 á meðan Fjármálaeftirlitið og Ríkisendurskoðun blésu á varnaðarorð hans."

Árið er 1982. Stuðmenn hafa gert leynisamning við forstjóra SÍS um dulbúna áróðursmynd til varnar hinu fallandi stórveldi. Gegn einnar milljónar króna framlagi. Senur eru skotnar í lagerhúsnæði Sambands íslenskra samvinnufélaga og víðar, þar sem Stuðmenn syngja um mikilvægi þess „að vera í Sambandi“. Stuðmenn mæra SÍS á alla kanta og „Samband þeirra er frá öllum hliðum séð stórfínt“ – þar til kemur að skuldadögum. Þá svíkur SÍS hina vel meinandi atfylgismenn sína um milljónina er lofað hafði verið. Bera við slæmum heimtum frá bændum og búaliði. Hér vantaði skyndilega heil 25% framleiðslukostnaðar og því góð ráð dýr. Siglt er til Vestmannaeyja og bankað upp á hjá bankastjóra Útvegsbankans þar, Vilhjálmi Bjarnasyni, stórgreindum, skemmtilegum og afar glöggum manni.

Hann hlustar, gaumgæfir og metur stöðuna þannig að um sé að ræða stórt kynningartækifæri fyrir áfangastaðinn Vestmannaeyjar, þ.m.t. Þjóðhátíðina í Herjólfsdal. Hans eigið innsæi og eðlisávísun reyndist hárrétt og leiddi til þess að við gengum út með ávísun að upphæð kr. 1 milljón. Fyrir hans tilstilli varð til fjölsóttasta kvikmynd Íslandssögunnar, Með allt á hreinu, sem enn í dag er reglubundið sýnd í kvikmyndahúsum landsins og í Ríkissjónvarpinu á sérhverjum þjóðhátíðardegi (þ.m.t. næstkomandi fimmtudag 17. júní kl. 19.55).

Glöggskyggni Vilhjálms Bjarnasonar, yfirburðaþekking hans og skilningur á samfélagsmálum, fjármálum og öðru er varðar okkur öll hefur á undanförnum árum speglast í frábærum greinum hans hér í Morgunblaðinu og víðar.

Hann er óhræddur við að segja það sem aðrir veigra sér við að viðurkenna og óhræddur við að pönkast dálítið. Orðið „tabú“ er ekki til í hans orðaforða.

Hann varaði m.a. kröftuglega við sölu bankanna 2003 á meðan Fjármálaeftirlitið, Ríkisendurskoðun og helstu varðmenn lýðveldisins blésu á varnaðarorð hans. Hann sá fyrir það sem aðrir sáu ekki. Slíka menn þurfum við á Alþingi. Nú, sem fyrr – og um framtíð alla.

Vilhjálmur veðjaði á okkur og sá ekki eftir því. Við veðjum á Vilhjálm og hvetjum alla sem vettlingi geta valdið til að gera slíkt hið sama í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kraganum nú um helgina. Það mun enginn þurfa að sjá eftir því að veðja á slíkan afburðamann.

Höfundar eru tónlistarmenn. jfm@bankastraeti.is

Höf.: Jakob Frímann Magnússon, Egil Ólafsson