Davíð Óskar Ólafsson við tökur á Trom í Færeyjum.
Davíð Óskar Ólafsson við tökur á Trom í Færeyjum. — Ljósmynd/Metusalem Björnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Davíð Óskar Ólafsson er annar leikstjóra Trom, fyrstu alþjóðlegu glæpaþáttanna sem gerðir eru í Færeyjum. Tökum lauk fyrir helgina og segir Davíð Óskar mikillar eftirvæntingar gæta í eyjunum. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Hannis Martinsson, reynslumikill færeyskur blaðamaður, sem starfar í Danmörku, fær óvænt skilaboð frá dóttur sem hann vissi ekki að hann ætti heima í Færeyjum. Dóttirin, sem er aðgerðasinni og hvalavinur með meiru, er í þann mund að ljóstra upp um mikið leyndarmál og óttast að líf hennar sé í hættu. Hún vill fá föður sinn heim til að hjálpa sér að segja safaríka söguna sem komi til með að skekja samfélagið. Forvitnin grípur Hannis sem slær til og heldur sem leið liggur til Færeyja í fyrsta sinn í þrjá áratugi. Hann er hins vegar ekki fyrr kominn heim en dóttir hans finnst látin. Ekki dregur það úr áhuga Hannisar að rannsaka málið og leiða fram sannleikann. Og hann er ekki einn um það, lögreglan hefur einnig rannsókn undir stjórn danskrar lögreglukonu búsettrar í Færeyjum, Körlu Mohr. Og þetta litla einangraða samfélag stendur á öndinni og spyr sig: Hvað býr hér eiginlega undir?

Þannig liggur landið í Trom, fyrstu glæpaþáttunum fyrir alþjóðlegan markað sem framleiddir eru og teknir upp í Færeyjum. Þættirnir, sex að tölu, byggjast á bók færeyska rithöfundarins Jógvans Isaksens en Torfinn Jákupsson skrifar handritið. Leikstjórar eru Daninn Kasper Barfoed og Íslendingurinn Davíð Óskar Ólafsson. Með helstu hlutverk fara dönsku leikararnir Ulrich Thomsen og Maria Rich ásamt hinum færeyska Olaf Johannessen.

Barfoed leikstýrir fyrri þáttunum þremur en Davíð Óskar seinni þremur og lauk tökum í Færeyjum á föstudaginn.

„Þetta er fyrsta alvöruserían sem byggð er á færeysku efni en töluð er færeyska og danska í þáttunum og smávegis enska,“ segir Davíð Óskar gegnum símann frá Þórhöfn. „Það eru allir mjög spenntir fyrir þessu verkefni hér í Færeyjum og um leið og maður nefnir Trom þá vill fólk allt fyrir mann gera. Færeyingar eru yndislegt fólk og mjög hjálplegir að upplagi. Manni er tekið sem innfæddum.“

Lýkur lofsorði á leikarana

Barfoed er svokallaður konseptleikstjóri sem þýðir að hann leggur línurnar en Davíð Óskar kveðst þó hafa mikið frelsi við sína vinnu. Hann kom til Færeyja fyrir tveimur mánuðum og fór þá vandlega yfir sviðið með Barfoed, sem þá var að ljúka við tökur á sínum þáttum. Síðan hvarf hann á braut en þeir hafa vitaskuld verið í góðu sambandi. Davíð Óskar hafði ekki unnið með neinum af leikurunum áður en þekkti vel til Thomsens og Rich enda uppalinn í Danmörku. „Við Ulrich höfum náð vel saman og ekki spillti fyrir að móðir mín klippti eina af frægustu myndunum hans, Festen,“ segir Davíð Óskar en hann er sonur Valdísar Óskarsdóttur, sem einnig klippir Trom. „Maria er líka yndisleg og Olaf æðislegur.“

Íslendingar eiga raunar drjúgan þátt í verkefninu en um þrjátíu manns héðan koma að gerð þáttanna með einum eða öðrum hætti.

Það er norræna efnisveitan Viaplay sem er á bak við þættina og segir Davíð Óskar búið að selja þá víða. „Ég má ekki nafngreina þau strax en þessir þættir munu fara til margra landa. Sjónvarp Símans hefur tryggt sér réttinn heima og ætli þættirnir verði ekki sýndir seint á þessu ári þar, eins og víða annars staðar. Eftirvinnslan hefst í næstu viku og ætti að ljúka í október eða byrjun nóvember. Fljótlega eftir það ætti efnið að koma inn í veiturnar.“

– Hvernig kom það til að þú varst fenginn til að leikstýra?

„Ég sat bara heima í janúar í miðjum heimsfaraldri þegar ég fékk símtal þess efnis hvort ég hefði áhuga á að leikstýra Trom. Ég hef unnið mikið með Truenorth sem sér um framleiðsluna og svo hefur það ábyggilega ekki spillt fyrir að ég tala reiprennandi dönsku. Ég var víst einn af mörgum sem komu til greina en fékk verkefnið. Ég er svakalega ánægður með það enda kom þetta þannig lagað upp úr þurru. Þetta hefur verið frábært tækifæri fyrir mig til að vinna með nýju fólki og taka skrefið inn á alþjóðlegan markað. Það er mikilvægt að sýna að maður geti leikstýrt á öðru tungumáli en íslensku.“

Náttúran í stóru hlutverki

Davíð Óskar hefur ekki í annan tíma komið til Færeyja en segir sér hafa gengið ljómandi vel að skilja færeyskuna og örugglega betur en danska leikstjóranum; Danir skilji alla jafna lítið í því ágæta máli.

Hann segir Færeyjar henta vel fyrir glæpaseríur, rétt eins og Ísland. „Landslagið er fallegt og dramatískt en náttúran leikur stórt hlutverk í þáttunum og gefur svolítið auka, eins og heima.“

Honum hefur liðið ákaflega vel þessa tvo mánuði og tíminn hefur flogið. „Mér finnst ég nýkominn en er að fara heim á mánudaginn. Færeyjar eru ótrúlega fallegt land og yndislegt að fá að taka þátt í því að sýna heiminum það í fyrsta skipti. Það er í raun mikill heiður,“ segir hann en þess má geta að Færeyjar koma einnig lítillega við sögu í nýjustu James Bond-myndinni sem enn á eftir að frumsýna.

– Trom ætti að verða mikil landkynning fyrir Færeyjar.

„Það er viðbúið, alveg eins og Brot var fyrir okkur og núna Katla en báðar seríur eru á Netflix. Færeyingar eru mjög stoltir af þessu verkefni og vilja að því vegni sem best. Þetta er líka kjörið tækifæri til að byggja upp kvikmyndaiðnaðinn hér.“

– Verður framhald á Trom?

„Það finnst mér líklegt, í öllu falli er búið að gefa grænt ljós á seríu tvö og byrjað að vinna í hugmyndinni.“

Kaldasti maí í sjötíu ár

Óvenjukalt var í Færeyjum í síðasta mánuði sem raunar var kaldasti maímánuður í landinu í sjötíu ár, samkvæmt mælingum. Þar var til að mynda snjór yfir öllu í þrjár vikur. Sú umgjörð átti alls ekki við Trom og fyrir vikið varð tökuliðið að bíða um sinn og þegar það fór af stað aftur þurfti að smúla snjóinn og þar fram eftir götunum til að geta tekið upp. „Síðan snerist veðrið okkur í hag og við erum búin að vera heppin með það síðan,“ segir Davíð Óskar.

Lengi vel setti heimsfaraldurinn ekki strik í reikninginn enda liðu margir mánuðir án þess að smit greindist í Færeyjum. „Við þurftum ekki að gera neinar ráðstafanir á settinu; vorum bara frjáls ferða okkar eins og enginn væri faraldurinn,“ segir Davíð Óskar. Það breyttist núna seinni hlutann í maí, þegar smit kom upp aftur. Þá urðu grímur og spritt aftur staðalbúnaður. Ekkkert smit hefur þó komið upp á settinu og Davíð Óskar segir vel ganga að ná utan um þessa nýju bylgju í eyjunum. Eigi að síður þarf hann að fara í sóttkví við komuna til Íslands á morgun.