— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þjóðskjalasafnið fær í ágúst til afnota 1.370 fermetra geymsluhúsnæði þar sem prentsmiðjan Oddi var áður til húsa. Til stendur að bæta úr brýnni húsnæðisþörf safnsins á næstu árum. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Framkvæmdasýslu ríkisins.

Þjóðskjalasafnið fær í ágúst til afnota 1.370 fermetra geymsluhúsnæði þar sem prentsmiðjan Oddi var áður til húsa. Til stendur að bæta úr brýnni húsnæðisþörf safnsins á næstu árum. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Framkvæmdasýslu ríkisins.

Ríkiseignir og HB 5-7 ehf. hafa undirritað samning um leigu á húsnæði að Höfðabakka 7 í Reykjavík. Það verður notað fyrir skjalageymslur Þjóðskjalasafns Íslands. Samningurinn er til fimm ára með framlengingarákvæði. Gera þarf nokkrar breytingar á húsnæðinu, en þær verða unnar af leigusala. Húsnæðið verður nýtt undir sívaxandi safnkost Þjóðskjalasafnsins og verður fyrsti áfanginn í uppbyggingu nútímalegs geymsluhúsnæðis, að því er fram kemur í fréttinni.

Framkvæmdasýslan hefur unnið að húsnæðismálum Þjóðskjalasafns undanfarin misseri og nú liggur fyrir frumathugun um framtíðarhúsnæðisskipan safnsins.

Þjóðskjalasafnið er nú með tvö geymslurými á leigu, annars vegar í Brautarholti 6 og hins vegar við Laugarnesveg 91. Þar eru geymdir samtals um 12.000 hillumetrar gagna á 970 fermetrum.

Húsnæðið í Brautarholti er sagt í slæmu ástandi og leigurýmið í Laugarnesi er sömuleiðis óhentugt. Þá er það staðsett þannig að ganga þarf í gegnum mörg önnur rými til að komast að því.

„Hvorug geymslan uppfyllir brunakröfur byggingareglugerðar eða lög og reglugerðir um varðveislu skjala,“ segir á vef Framkvæmdasýslunnar. sisi@mbl.is