Ásgeir hefur viljað sýna starfi sínu virðingu með því að vera best klæddi maður Seðlabankans.
Ásgeir hefur viljað sýna starfi sínu virðingu með því að vera best klæddi maður Seðlabankans. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er alltaf fallega klæddur. Hann hefur skemmtilega sterkar skoðanir á fatnaði og segir bestu leiðina til að ná árangri í starfi vera þá að klæða sig upp í stöðuna sem mann langar í. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er fæddur og uppalinn í sveit þar sem lítið fór fyrir tísku og hönnun. Það var ekki fyrr en hann fór í doktorsnám í Bandaríkjunum sem hann fór að gefa tískunni gaum.

„Þegar ég kom aftur til Íslands ætlaði ég að starfa innan háskólans en var svo boðið starf sem aðalhagfræðingur Kaupþings árið 2003. Segja má að í því starfi hafi ég fyrst þurfa að hugsa fyrir alvöru hvernig ég vildi klæða mig upp á fyrir vinnuna.

Ég kunni á þessum tíma varla að binda minn eigin bindishnút og var tískan í háskólunum allt öðruvísi en tískan í bönkunum.“

Ásgeir er mikill greinandi í eðli sínu eins og heyra má á skilgreiningu hans á tískunni á milli deilda innan háskólans.

„Kennarar og nemendur í heimspekideild eru allt öðruvísi til fara en þeir sem eru í fjármálum og viðskiptum.

Vinsælt útlit á prófessorum í háskóla er að vera í gallabuxum og skyrtu. Peysu yfir skyrtunni og síðan í dökkum jakka yfir það.

Í bankanum þurftu menn að klæða sig upp á enda mjög stífar óskrifaðar reglur um klæðaburð í fjármálaheiminum. Ég tók á þessum tíma þá ákvörðun að ég vildi vera huggulega klæddur. Ég fór í Boss-búðina þar sem ég átti ekki jakkaföt og keypti mér þrenn föt til skiptanna. Á þessum tíma var ég mikið í samskiptum við erlenda fjármálamenn og því mikilvægt fyrir mig að vera klæddur í hlutverkið.“

Klæddi sig fallega til að sýna virðingu

Ásgeir segir mikla hefð fyrir því að fólk klæði sig upp á hér á landi og ekki þurfi að fara langt aftur til tíma þegar fólk klæddi sig upp á fallega á sunnudögum jafnvel þótt enginn færi út eða kæmi í heimsókn.

„Það snerist meira um virðingu fyrir hvíldardeginum en eitthvað annað. Fjármálaheimurinn er svipaður að því leyti að ef þú vilt láta taka þig alvarlega þá mætir þú ekki á peysunni í inniskóm á fundi.“

Hefurðu komið af stað tískutrendi sjálfur?

„Frá því ég var í prófum í hagfræði þá 22 ára að aldri hef ég verið með skegg. Það þekktist ekki á þeim tíma, sérstaklega í fjármálaheiminum, að menn væru með skegg. Hvað þá svona ungir.“

Af hverju ertu með skegg?

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er ég heppinn með skeggrót. Í öðru lagi er ég með viðkvæma húð svo þegar ég rakaði mig þá varð ég alltaf rauður í framan. Svo fór skeggið mér bara vel og því held ég að það hafi verið mín sérstaða lengi.“

Þegar Ásgeir varð seðlabankastjóri hugleiddi hann vel og vandlega hvernig hann ætlaði að klæða sig fyrir þá stöðu.

„Það skipti mig miklu máli að vera fínn og í raun vildi ég vera best klæddi maður bankans. Því þannig vildi ég sýna stöðunni minni virðingu.

Ég er yfirmaður bankans og fötin mín þurfa að endurspegla það. Ég ákvað að vera alltaf með klút og að leyfa honum að vera litríkum. Ég ákvað að vera í jakkafötum með vesti og að vera með fallegt bindi. Það eru ákveðnar reglur sem maður notar þegar farið er í fallegan klæðnað. Sem dæmi verður klassíkin að ráða og ef maður er með áberandi klút þá verður maður að vera með klassískt bindi. Það mega ekki allt of margir hlutir fanga athyglina. Eins er hægt að velja skært bindi en þá verður klúturinn að vera klassískur. Skyrtan getur verið áberandi en þá þurfa jakkafötin og bindið að vera tónað niður. Þessi regla er góð svo menn breytist ekki í ljósaskilti.“

Hrifinn af jarðlitum

Hvaða litir eru í uppáhaldi?

„Ég er hrifinn af náttúrulegum litum enda er ég úr sveitinni. Ég kann vel við viðarbrúnan og bláan lit og hef aldrei málm nálægt húðinni. Ég er aldrei með áberandi fylgihluti en vel að vera með tösku sem hæfir tilefninu hverju sinni.“

Hvert er besta tískuráðið sem þú hefur fengið?

„Kristján Jóhannsson söngvari kenndi mér að það þýði ekki að vera í stuttum sokkum við jakkafötin. Að háir sokkar væru málið.

Ég er ekki viss um að það sé hægt að gefa mér mikið af ráðum tengt tískunni því ég hef skoðað hana ofan í kjölinn.

Þegar ég var í skólanum áttaði ég mig á því að þeir nemendur sem voru fallega klæddir fengu hærri kennaraeinkunnir en aðrir. Eins tók ég eftir því að nemendur báru meiri virðingu fyrir fallega klæddum kennurum en þeim sem höfðu ekki sjálfsvirðinguna til að klæða sig upp á fyrir kennslu.“

Hvaða ráð áttu fyrir ungt fólk í landinu?

„Besta ráðið er að ef maður ætlar sér eitthvað í lífinu þá verður maður að klæða sig fyrir hlutverkið. Ef þú ætlar þér að vera yfirmaður í lífinu þá byrjar þú að klæða þig sem yfirmaður og haga þér eins og yfirmaður. Eins skipta skórnir miklu máli. Það er hægt að greina persónuleika fólks á skótaui.“

Mikilvægt að læra að taka ábyrgð

Hvað áttu við með því?

„Ég er með þannig heila að hann vinnur endalaust og lætur mig aldrei í friði. Þannig að sama hvert ég kem eða hvert ég fer þá er ég alltaf að greina hlutina. Ég geri þetta þegar kemur að fatnaði og tísku, en einnig tengt mataræði og hreyfingu. Þessi eiginleiki kemur sér vel fyrir mig í vinnunni en það er ekki eini staðurinn þar sem ég hugsa eins og ég hugsa.“

Hvað hefurðu greint tengt mataræði?

„Ég hef fundið út að ég þoli illa mjólk og glúten. Ég borða fisk og þar sem ég er alinn upp á sauðabúi í sveit þá borða ég mikið af lambakjöti. Ég er hrifinn af lambaspaghettíi og lambahamborgara. Ég er ekki svo hrifinn af kjúklingi því ég get ekki staðið með því hvernig kjúklingar eru aldir í búrum. Það sama má segja um svínakjöt, það borða ég aldrei.“

Hvað með fjármálin. Áttu gott ráð fyrir ungt fólk tengt peningum?

„Besta ráðið sem ég kann er að þú færð ekkert nema að vinna fyrir því. Allir sem hafa komist áfram í lífinu leggja hart að sér.

Hvað varðar fjármál þá er gott að muna að tíminn vinnur með okkur og peningunum okkar líka. Því er mikilvægt að byrja að spara strax. Eins mæli ég með því að byrja að fjárfesta sem allra fyrst. Að huga að því hvert peningurinn okkar fer skiptir einnig miklu máli. Ef þú sparar og leggur fyrir eina milljón þá getur hún tvöfaldast á rúmlega áratug.

Að þessu sögðu þá vil ég hvetja alla til að láta ekki peninga stjórna sér. Heldur velja sér starf sem þeir hafa áhuga á. Ef þú ert góður smiður þá býrðu örugglega til meiri pening í því heldur en að klæða þig upp á sem viðskiptafræðingur og hafa ekki gaman af því.

Það er hægt að starfa við alls konar og að fjárfesta á markaði. Þannig skapast hvati til að fylgjast með markaðnum og þannig kynnist maður betur því sem er að gerast í viðskiptalífinu.

Þetta þurfa ekki að vera stórar upphæðir en allir ættu að læra að taka ábyrgð á sér þegar kemur að peningum og læra að treysta á sjálfan sig.“