Arnoddur Erlendsson
Arnoddur Erlendsson
Eftir Arnodd Erlendsson: "Öll flugför gæslunnar, þyrlur og flugvélar, bera kvenmannsnöfn; TF LIF, TF SIF, TF EIR og TF GRO."

Nú get ég ekki betur skilið en búið sé að ákveða að næsta varðskip okkar Íslendinga, sem koma á í staðinn fyrir varðskipið Tý, skuli bera nafnið Freyja. Við ákveðið tækifæri komst Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir svo að orði að það væri tími til kominn að varðskip bæri kvenmannsnafn. Það hefur nefnilega hingað til tíðkast að varðskipin okkar beri karlmannsnöfn úr norrænni goðafræði, samanber Týr, Þór og Ægir svo einhver séu nefnd. Hjá stóðu Georg Lárusson og félagar úr Landhelgisgæslunni og þorðu ekki að leggja orð í belg nema til að samþykkja þessa tillögu dómsmálaráðherrans.

Ef við rýnum aðeins í söguna þá kom varðskipið Týr til landsins 24. mars 1975, nánast beint inn í þorskastríðið 1975-1976 við hinn breska flota hennar hátignar. Með Guðmund Kjærnested í brúnni og hina vösku áhöfn hans börðust þeir, ásamt öðrum skipum gæslunnar, af miklum hetjumóð til að verja landhelgi okkar Íslendinga og fóru að lokum, eins og frægt er orðið, með sigur af hólmi. Varðskipið Týr reyndist í þessum hildarleik hið mesta happafley og skilaði áhöfn sinni heilli til hafnar þótt oft hafi ekki mátt miklu muna að illa færi. Allar götur síðan hefur Týr varið landhelgina og tekið þátt í björgunaraðgerðum á hafi, oft við hrikalegar aðstæður, og verið okkur landsmönnum til halds og trausts á okkar svörtustu stundum eins og til dæmis eftir snjóflóðin í Súðavík á sínum tíma.

Nú eru dagar Týs sem varðskips senn taldir því farið er að gæta þreytu á líkama og sál eftir farsæla ævi á sjónum í okkar þágu í hátt í fimm áratugi. Mér finnst það því sorglegt og sýna vanvirðingu að kasta eigi þessu farsæla nafni út í hafsauga bara af því að einhverjir telja að „halli á konur“ í þessu tilviki. Ég hélt að okkar göfuga jafnréttisbarátta væri hafin yfir svona hégóma. Hvað er að þessari áratuga gömlu hefð að varðskipin beri karlmannsnöfn? Telur fólk virkilega að þetta sé merki um kynjamisrétti? Má þá ekki segja það sama um þá staðreynd að öll flugför gæslunnar, þyrlur og flugvélar, bera kvenmannsnöfn; TF LIF, TF SIF, TF EIR og TF GRO? Er þá ekki „tími til kominn“ að þau tæki fari að bera karlmannsnöfn?

Þetta er staðreynd sem Lárus og félagar hefðu kurteislega getað bent á við ofangreint tækifæri í stað þess að lúta höfði í undirgefni.

Persónulega finnst mér jafnréttisbaráttan eiga betra skilið og best sé að halda hégóma og minnimáttarkennd fyrir utan hana.

Nafngiftir á tæki Landhelgisgæslunnar eru líka hin besta hefð og Týr á skilið þakklæti og virðingu eftir bráðum 50 ára þjónustu við okkur Íslendinga með því að halda nafni hans á lofti um ókomna tíð. Leyfum nýja skipinu að bera þetta nafn svo þeir bræður Þór, Týr og Ægir geti áfram varið okkar verðmætu landhelgi, englarnir í háloftunum, Sif, Líf, Eir og Gró, vakað yfir sjómönnunum okkar og öll saman með krafti sínum hjálpað okkur á ögurstund.

Höfundur er verktaki.