Elliðaár Það tekur langan tíma fyrir Elliðaárdalinn að jafna sig eftir varanlega tæmingu Árbæjarlóns. Ekki er vitað fyrir víst hvar farvegurinn var.
Elliðaár Það tekur langan tíma fyrir Elliðaárdalinn að jafna sig eftir varanlega tæmingu Árbæjarlóns. Ekki er vitað fyrir víst hvar farvegurinn var. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Fyrirhugað er að Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur (OR) geri samkomulag um skil OR á Elliðadal.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Fyrirhugað er að Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur (OR) geri samkomulag um skil OR á Elliðadal. Í kjölfarið verði efnt til hönnunarsamkeppni um gerð áningar- og útivistarsvæðis og því flýtt að skilið verði á milli göngu- og hjólastíga. Þetta er meðal tillagna stýrihóps um Elliðaárdal sem fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarráði hafa ákveðið að fela borgarstjóra að framfylgja. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks ítreka gagnrýni á varanlega tæmingu Árbæjarlóns og leggja áherslu á að það verði fyllt að nýju.

Rafmagnsframleiðslu var hætt í Elliðaárvirkjun fyrir nokkrum árum. Það vakti ýmis viðbrögð íbúa og annarra þegar Orkuveita Reykjavíkur opnaði lokur Árbæjarstíflu í október á síðasta ári og tæmdi lónið með þeim orðum að það væri varanleg ráðstöfun. Voru efasemdir uppi um réttmæti þeirrar aðgerðar.

Borgarráð skipaði stýrihóp til að fara yfir þetta mál og önnur sem tengjast Elliðaárdalnum og var álit hans kynnt í borgarráði í fyrradag.

Áningar- og útivistarsvæði

Hópurinn lagði til að Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur geri með sér samning um skil OR á dalnum til borgarinnar sem er eigandi landsins. Meðal annars verði fjallað um viðhald og endurbætur mannvirkja og stíga og gerð nýrra stíga og brúa.

Lagt er til að haldin verði hönnunarsamkeppni um gerð áningar- og útivistarsvæðis upp af norðurenda stíflunnar í Árbæ sem ljái svæðinu aukið notagildi fyrir fjölskyldur. Hópurinn sér fyrir sér stað sem skapar umgjörð fyrir samveru, náttúrufræðslu, afþreyingu, uppákomur, lýðheilsu og fjölbreyttan gróður.

Tillaga er um að flýtt verði aðskilnaði göngu- og hjólastíga í dalnum til samræmis við nýtt deiliskipulag, sérstaklega á fjölförnum stöðum í stígakerfinu þar sem aðstæður eru varasamar. Bent er á að við aukna umferð gesta aukist nauðsyn á þessum framkvæmdum.

Stýrihópurinn vill að OR hefji þegar það ferli sem gert er ráð fyrir í vatnalögum þegar notkun mannvirkja er hætt. Leiðarljósið verði að svæði skuli skilað til fyrra horfs. Í kjölfarið verði gerðar breytingar á deiliskipulagi svæðisins.

Árbæjarstífla er friðað mannvirki og reiknar stýrihópurinn með að hún standi áfram. Lagt er til að henni verði fundið nýtt hlutverk og gerð öllum aðgengileg. Kannaðir verði möguleikar á að gera stífluna að samgönguæð fyrir gangandi og hjólandi um miðbik dalsins. Skoðað verði sérstaklega hvort hún geti komið í stað fyrirhugaðrar göngu- og hjólabrúar sem sýnd er á skipulagi rétt neðan stíflunnar.

Meðal mótvægisaðgerða sem stýrihópurinn leggur til er að strax verði hafin vöktun á lífríki í og við Árbæjarkvísl Elliðaánna í kjölfar breyttrar vatnsstöðu og greiðari fiskigengdar um kvíslina.

Tillögunum verði framfylgt

Borgarráðsfulltúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna fögnuðu tillögunum í bókun í borgarráði. Sögðu tillögurnar endurspegla virðingu fyrir dalnum og lífríkinu. Borgarstjóra var falið að framfylgja tillögunum með forystu Orkuveitunnar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekuðu kröfu sína um að lónið verði fyllt að nýju og það án frekari tafa. Niðurstaða meirihluta hópsins kæmi hvorki til móts við íbúa né lífríkið á svæðinu.

Telur brotið gegn lögum

Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í stýrihópi um Elliðaárdal, skilaði séráliti. Þar lýsir hann sig sammála ýmsum aðgerðum sem fram koma í skýrslu meirihlutans en lýsir yfir andstöðu við að menn sætti sig við að hleypt hafi verið úr stíflulóninu við Árbæjarstíflu.

Segir Björn að með því að hleypa varanlega úr lóninu án skipulagsbreytinga eða leyfa og án samráðs við íbúa hafi verið brotið gróflega gegn lögum og rétti íbúa.

Björn bendir á að ef ætlunin sé að koma svæðinu í upprunalegt horf þurfi að komast að því hvernig það var áður en stíflan var byggð. Telur hann margt benda til að lón hafi verið á þessum stað. Þá telur hann að áin renni ekki í sínum gamla farvegi heldur í farvegi sem búinn hafi verið til með sprengingum á sínum tíma.