Alvarleg Gísli Örn brosir ekki oft í Ragnarökum.
Alvarleg Gísli Örn brosir ekki oft í Ragnarökum.
Leikurum tekst misjafnlega að fara með hlutverk skúrka í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

Leikurum tekst misjafnlega að fara með hlutverk skúrka í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Sumir hafa náð hæstum hæðum á sínum leikferli í slíkum hlutverkum, Robert De Niro, Anthony Hopkins og Christoph Waltz koma þar upp í hugann, en öðrum hefur tekist síður til eins og gengur.

Íslenskir leikarar hafa ekki mikið lagt skúrkana fyrir sig, þarna gætu verið viðskiptatækifæri eins og sagt er. Nokkrir koma þó upp í hugan, Steindór Hjörleifsson í Morðsögu, Helgi Skúlason í Hrafninn flýgur og Damon Younger í Svartur á leik.

En nú sýnist mér efnilegur skúrkaleikari kominn fram á sjónarsviðið, Gísli Örn Garðarsson. Hann mátaði það hlutverk í Eiðnum og fórst það vel úr hendi og hefur nú fínpússað það í norsku þáttaröðinni Ragnarök, sem hægt er að sjá á efnisveitunni Netflix og hefur vakið talsverða athygli.

Ragnarök er nokkuð einkennileg en áhugaverð þáttaröð þar sem norræna goðafræðin er flutt til nútímans. Fyrstu sex þættirnir voru sýndir í fyrra en nú eru komnir sex þættir til viðbótar og þar er fjallað um baráttu goða og jötna sem hefur staðið allt fram á þennan dag. Gísli Örn leikur aðaljötuninn, Vidar, og er á köflum verulega ógnvekjandi í hlutverkinu enda rammgöldróttur og hefur lifað í þúsundir ára!

Guðmundur Sv. Hermannsson