Útskrift Þúsundir háskólanema útskrifast á næstu tveimur vikum. Myndin er frá útskrift HR í fyrra.
Útskrift Þúsundir háskólanema útskrifast á næstu tveimur vikum. Myndin er frá útskrift HR í fyrra. — Ljósmynd/HR
Unnur Freyja Víðisdóttir unnurfreyja@mbl.is Þúsundir kandídata brautskrást úr háskólum landsins næstu tvær helgar. Athafnirnar verða margar með breyttu sniði í ár og gestir misvelkomnir.

Unnur Freyja Víðisdóttir

unnurfreyja@mbl.is

Þúsundir kandídata brautskrást úr háskólum landsins næstu tvær helgar. Athafnirnar verða margar með breyttu sniði í ár og gestir misvelkomnir. Það virðist þó ekki hafa áhrif á fjölda þeirra nemenda sem hyggjast mæta á staðinn til brautskráningar.

Um 500 kandídatar verða brautskráðir frá Háskólanum á Akureyri í dag en engir gestir eru leyfðir á athöfninni. Ekki er þó útlit fyrir að færri nemendur mæti á athöfnina í ár miðað við fyrri ár, að sögn Katrínar Árnadóttur, forstöðumanns markaðs- og kynningarsviðs HA. Þvert á móti eru nemendur fegnir að fá að halda upp á tilefnið á staðnum og starfsmenn skólans glaðir að geta orðið við því.

„Það eru um 80% útskriftarnema sem hyggjast mæta í ár, sem er bara svipuð mæting og hefur verið árin á undan. Þetta er yfirleitt mjög hátíðlegur og skemmtilegur dagur og kandídatar mæta til að halda upp á hann með samnemendum sínum og starfsfólki skólans,“ segir Katrín.

Fá að bjóða gestum

Starfsmaður á markaðssviði Háskólans í Reykjavík tekur í sama streng og segir skráningu á brautskráningarathöfn HR ekki benda til þess að færri nemendur ætli sér að mæta í ár miðað við fyrri ár enda hefur fjölda þeirra gesta sem nemendum er heimilt að bjóða ekki verið breytt. Um 750 kandídatar verða brautskráðir frá skólanum í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal þann 19. júní.

„Við höfum alltaf lagt áherslu á að útskriftarnemar geti tekið með sér tvo gesti. Við höfum í raun og veru engu breytt þegar kemur að þessari athöfn nema þá því að henni verður skipt í tvennt. Í janúarútskriftinni héldum við tíu mismunandi athafnir bara svo að nemendur gætu tekið með sér gesti,“ segir hann.

Í dag verða 147 nemendur brautskráðir frá Listaháskólanum og fer athöfnin fram í Eldborgarsal í Hörpu. Útskriftarnemar frá LHÍ hafa vanalega fengið að bjóða sex gestum með sér á athöfnina en sökum eins metra reglunnar mega þeir aðeins vera tveir að þessu sinni, segir Vigdís Másdóttir, kynningarstjóri LHÍ.

„Það breytir engu fyrir okkur. Hér ætla allir að mæta sem geta og enginn sem ætlar ekki að koma út af sóttvörnum, enda höfum við nægt pláss,“ segir Vigdís.