Sigþrúður Ármann
Sigþrúður Ármann
Eftir Sigþrúði Ármann: "Ferskir vindar hafa blásið um prófkjör XD undanfarnar vikur og mikilvægt er að þeir haldi áfram að veita okkur meðbyr inn í framtíðina."

Ríkisstjórnin sem nú situr hefur unnið góðan varnarsigur við erfiðar aðstæður. En enn erum við í miðri á. Við blasir að á næsta kjörtímabili er endurreisn atvinnulífsins og fjölgun atvinnutækifæra mikilvægasta verkefnið. Ég er bjartsýn á að Íslendingar geti hratt og örugglega sigrast á þeim erfiðleikum sem gengið hafa yfir. Engum flokki er betur treystandi til þess að leiða þá vinnu en Sjálfstæðisflokknum.

Það er því gríðarlega mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn. Eina leiðin til þess að það verði að veruleika er að Sjálfstæðisflokkurinn fái gott brautargengi í kosningunum í haust og að ekki verði hægt að ganga fram hjá honum við stjórnarmyndun.

Útilokum vinstristjórn

Forsenda þess er þó sú að við veljum framboðslista sem höfðar til breiðs hóps kjósenda. Einungis þannig getum við útilokað vinstristjórn að loknum næstu kosningum. Í dag fer fram val á framboðslista sjálfstæðisfólks í Kraganum. Nú geta kjósendur valið sigurstanglegan lista karla og kvenna, með ólíka reynslu og breiðan bakgrunn.

Ég gef kost á mér í þriðja sæti listans og heiti því að ég mun leggja mig alla fram fái ég til þess brautargengi að taka sæti á þingi. Fjölbreytt reynsla mín úr atvinnulífinu og góð menntun mun nýtast vel á Alþingi. Ég hef mikinn metnað fyrir land og þjóð og óska eftir þínum stuðningi í þriðja sæti.

Ferskir vindar hafa blásið um prófkjör XD undanfarnar vikur og mikilvægt er að þeir haldi áfram að veita okkur meðbyr inn í framtíðina. Framtíðina þar sem við ætlum að stilla upp öflugum hópi fólks og sækja fram til sigurs.

Höfundur er lögfræðingur og framkvæmdastjóri og sækist eftir 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.