Vafri Ný uppfærsla Vivaldi-vafrans er sú stærsta frá upphafi. Vafrinn hefur um 2,3 milljónir notenda mánaðarlega.
Vafri Ný uppfærsla Vivaldi-vafrans er sú stærsta frá upphafi. Vafrinn hefur um 2,3 milljónir notenda mánaðarlega. — Vivaldi /teikning
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Logi Sigurðarson logis@mbl.is Ný uppfærsla á Vivaldi-vafranum gerir fólki kleift að horfa á YouTube-myndbönd án þess að safnað sé upplýsingum um það á meðan.

Baksvið

Logi Sigurðarson

logis@mbl.is

Ný uppfærsla á Vivaldi-vafranum gerir fólki kleift að horfa á YouTube-myndbönd án þess að safnað sé upplýsingum um það á meðan.

Uppfærslan sem kom út á dögunum, frá íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Vivaldi, er sú stærsta frá upphafi og heitir uppfærði vafrinn Vivaldi 4.0. Vafrinn er í beinni samkeppni við risafyrirtæki líkt og Google og Microsoft. Nýja uppfærslan felur í sér innbyggt dagatal, tölvupóstkerfi og þýðingar á vefsíðum í vafranum sjálfum. Vivaldi leggur mikið upp úr því að vernda friðhelgi notenda og er því með innbyggða rakninga- og auglýsingavörn í vafranum, eins og kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins.

Jón von Tetzchner, stofnandi fyrirtækisins, segir í samtali við Morgunblaðið að 2,3 milljónir manna noti vafrann í hverjum mánuði í yfir 200 löndum. Þeir eru stærstir í Bandaríkjunum, Japan og Evrópu. „Við jukum notendafjöldann um 70% í fyrra og við vonumst til að vaxa meira á þessu ári,“ segir Jón.

Hann segir fyrirtækið ekki skila hagnaði en telur að það muni ná hagnaði þegar notendafjöldinn nær fimm milljónum. „Við erum að þéna rétt undir einn Bandaríkjadal á mann á ári. Við vorum komin yfir einn dal, en svo kom Covid og það lækkaði tekjurnar á mann. Við þénum meira á notendum í ríkari löndum.“